Gefið líf Gísli Georgsson og Pétur Pétursson sleppa stórlaxi í Vatnsdalsá í fyrra. Skylt er að sleppa öllum laxi í ánni en fram kom að um 30% veiddra laxa í Vatnsdal í fyrra voru stórlaxar, sem er hæsta hlutfall á landinu.
Gefið líf Gísli Georgsson og Pétur Pétursson sleppa stórlaxi í Vatnsdalsá í fyrra. Skylt er að sleppa öllum laxi í ánni en fram kom að um 30% veiddra laxa í Vatnsdal í fyrra voru stórlaxar, sem er hæsta hlutfall á landinu. — Morgunblaðið/Einar Falur
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.
Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

Á MÁLÞINGI um stöðu stórlaxins á Íslandi, sem haldið var í gær í kjölfarið á ársfundi Veiðimálastofnunar, voru fulltrúar hagsmunaaðila sammála um að þar sem allar tölur sýndu að stórlaxinn væri að hverfa úr íslenskum ám, þyrfti að bregðast hart við. Voru ræðumenn sammála um að skylda þyrfti veiðimenn til að sleppa veiddum stórlöxum.

„Veiðiréttareigendur þurfa að bregðast við. Eina svarið sem við höfum er að beita varúðarreglu í umgengni við auðlindina,“ sagði Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga, sem var meðal frummælenda. Hann sagði að á komandi sumri mundi færast í vöxt að skylt yrði að sleppa stórlaxi aftur í ána. „Ég tel þó að við þurfum að ganga skrefinu lengra. Sú staðreynd að annar hver stórlax sem veiðist sé drepinn er óásættanleg. Ég er þeirrar skoðunar að veiðifélögin eigi alfarið að banna stórlaxadráp. Með slíku banni er gætt fyllstu varúðar við nýtingu laxaauðlindarinnar,“ sagði Óðinn. Hann ræddi einnig um að friða þyrfti viðkvæm hrygningarsvæði í sumum ám.

Stjórnvöld friði stórlaxinn

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar, reifaði stöðu stórlaxastofnanna. Frá árinu 1985 hefur stofnunum hrakað sífellt meira og er það samband, sem áður var milli stofnstærðar smálax og stórlax, ekki lengur til staðar. Sagði hann góðu fréttirnar vera þær að samkvæmt rannsóknum væru stórlaxagenin ennþá til staðar í seiðum, en við sjógöngu væri „forritað“ í þau hve lengi þau ættu að vera í sjó. Stórlaxinn er mest hrygnur og þegar þeim fækkar munar verulega um það í ánum. Í sumum ám er stórlaxinn kominn undir fjögur, fimm prósent af stofnum ánna.

Sigurður velti fyrir sér hvað væri til ráða. „Ef við gerum ekki neitt er líklegt að við töpum erfðaþættinum úr stofninum,“ sagði hann. Öðrum hverjum fiski væri sleppt aftur í árnar – en það væru samt afar fáir fiskar á heildina litið. „Sums staðar er öllum sleppt en annars staðar engum – það skelfir okkur.“

„Það þarf að friða stórlaxinn meðan þetta ástand varir og halda þannig í erfðaþáttinn, í þeirri von að einhvern tíma lagist þessi sjávarskilyrði aftur,“ sagði Sigurður en margt bendir til þess að breytt ástand í hafinu hafi mikið um hnignun stórlaxa að segja.

„Við leggjum því hér með til að stjórnvöld friði stórlaxinn,“ sagði Sigurður.

Laxveiðin í tæpu meðallagi

Á ársfundi Veiðimálastofnunar fyrr í gær spáði Guðni Guðbergsson fiskifræðingur um horfurnar í laxveiðinni. Tók hann fram að ekki væri um traust spálíkön að ræða heldur byggt á mati á ástandi og tilfinningu í ljósi fyrri reynslu og rannsókna. „Það eru engin merki um annað en laxveiði verði við eða í tæpu meðallagi á komandi sumri,“ sagði Guðni.

Á síðustu árum var laxveiðin í hámarki árið 2005 og hefur minnkað síðustu tvö árin. Sveiflur hafa ávallt verið í veiði og fylgjast að nokkur góð ár og nokkur slæm.

Veiðin úr svokölluðum náttúrulegum laxveiðiám var rétt undir meðallagi í fyrra, en gríðarleg veiði í hafbeitaránum gerði það að verkum að heildarveiðin var sú þriðja mesta á laxi. Alls veiddust um 53.500 laxar á stöng. 17,3% veiddra laxa var sleppt aftur, sem er nokkru minna en sumarið 2006 er 19,2% var sleppt. Þá sagði Guðni að 41,6% veiddra stórlaxa hefði verið sleppt og hafði það einungis aukist um tvö prósent milli ára. Spáði Guðni því að stórlaxinum héldi áfram að hraka, að óbreyttu, en við sama tækifæri í fyrra spáði hann því að stórlax yrði alveg horfinn árið 2020.

Rúmlega 6.300 laxar veiddust í net í jökulánum Þjórsá, Ölfusá-Hvítá og Hvítá í Borgarfirði.

Urriða og bleikju fækkar

Um 40.000 urriðar, staðbundnir og sjóbirtingar, voru færðir til bókar en nokkur fækkun hefur orðið á urriða síðustu tvö árin. Guðni sagði ekki vitað hvort sú þróun héldi áfram. Um 25.000 bleikjur voru skráðar en umtalsverð fækkun hefur orðið á bleikju síðustu fimm árin, sérstaklega á svæðum þar sem bleikja er einráð. „Þessu þarf að gefa góðan gaum,“ sagði Guðni og taldi líklegt að bleikjuveiði héldist áfram með minna móti á komandi sumri.