Glæsilegur Valdimar við Hummerinn sem er stór og vígalegur og ekki von að veki eftirtekt á götunum.
Glæsilegur Valdimar við Hummerinn sem er stór og vígalegur og ekki von að veki eftirtekt á götunum. — Moragunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hummerum hefur fjölgað nokkuð hér á landi á síðustu tveimur árum og einn þeirra sem eiga slíkan bíl er bílaáhugamaðurinn Valdimar Kristjánsson. bert Róbertsson ræddi við hann um bílaáhugann og alla draumabílana.
Hummer-jeppar hafa ávallt vakið mikla athygli hvar sem þeir koma. Þessir bandarísku herbílar komu fyrst á almennan markað í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Þeir hafa notið nokkurra vinsælda víða um heim og þótt mikið stöðutákn. „Ég eignaðist þennan Hummer H2 fyrir einu og hálfu ári og þetta er alveg frábær jeppi,“ segir Valdimar Kristjánsson. „Það er alveg einstakt að keyra hann, aksturseiginleikarnir eru ótrúlegir og krafturinn einnig. Hann er með risavél sem skilar 325 hestöflum, fjórhjóladrifi og endalausum aukabúnaði. Hummer er einfaldlega alger draumur.“

Vekur eftirtekt á götunum

„Hummerinn er auðvitað mjög stór og traustvekjandi jeppi. Maður fær aukna öryggistilfinningu að vera inni í honum enda ætti hann að þola talsvert þar sem hann er herjeppi. Hann er mjög rúmgóður, það má segja að hann sé með endalaust pláss sem hentar mér vel hvort sem ég er að fara í sumarbústaðinn minn eða útilegu eitthvað út á land. Þá fer ég talsvert í veiði, á skíði og bretti þannig að ég þarf bíl sem tekur mikið af dóti og Hummerinn fer létt með það,“ segir Valdimar.

Hann viðurkennir að jeppinn veki mikla eftirtekt á götunum. „Það er talsvert horft á Hummerinn og það kemur mér svo sem ekki á óvart. Ég horfði nú sjálfur á þá áður en ég eignaðist minn. Það er jafn gaman að keyra hann innanbæjar sem utan en ég viðurkenni að maður skýtur honum nú ekki í hvaða stæði sem er enda er hann plássfrekur,“ bætir Valdimar við og brosir.

Alltaf hrifinn af herjeppum

Hann segist alla tíð hafa verið mikill bílaáhugamaður og hefur átt ófáa bílana í gegnum tíðina. „Ég hef verið duglegur að skipta um bíla allt frá því ég tók bílprófið og hef átt þá allnokkra. Ég hef átt nokkra Benz- og BMW-bíla enda er ég mjög hrifinn af þeim. Ég hef líka verið mjög hrifinn af herbílum. Ég átti eitt sinn Willis ´64 árgerð og hann var alveg frábær jeppi með stórri amerískri vél. Annar eftirminnilegur bíll sem ég hef átt er BMW Roadster-sportbíll. Ég er búinn að eiga Hummerinn í eitt og hálft ár þannig að það fer að koma tími á að skipta. Ég hef íhugað að selja hann en verð samt að viðurkenna að hálft í hvoru tími ég ekki að missa hann. Það blundar alltaf í mér reglulega að skipta því það eru svo margir spennandi bílar á markaðnum en það verður mjög erfitt að toppa Hummerinn,“ segir Valdimar.

Hummer vinsæll meðal fræga fólksins

Eins og áður sagði hefur Hummerinn þótt talsvert stöðutákn og ekki síst vestur í Bandaríkjunum. Arnold Schwarzenegger, þáverandi Hollywood-stjarna, mun hafa verið fyrsti einstaklingurinn til að festa kaup á þessum tröllvaxna jeppa í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Arnold er mikill Hummer-aðdáandi og hefur átt nokkra slíka eftir að hann varð ríkisstjóri í Kaliforníu. Hummer hefur verið vinsæll í Hollywood og allnokkrir leikarar þar hafa átt slíkan grip. Meðal annarra frægra eigenda Hummer-jeppa eru knattspyrnugoðið Ronaldinho, sem leikur með Barcelona, fyrrum NBA-körfuboltahetjan Dennis Rodman, tónlistarmaðurinn Neil Young og rappararnir DMX og Xzibit.