[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki ber að vanmeta þá kvíðatilfinningu sem sumir af samlöndum okkar eru haldnir um þessar mundir og fær gjarnan útrás í spurningunni knýjandi: „Hvað á að koma í staðinn?
Ekki ber að vanmeta þá kvíðatilfinningu sem sumir af samlöndum okkar eru haldnir um þessar mundir og fær gjarnan útrás í spurningunni knýjandi: „Hvað á að koma í staðinn?“ Undanskilið: „í staðinn fyrir röð af álbræðslum í stóriðjustíl“.

Nú er ekkert atvinnuleysi í landinu og hefur ekki verið um langa hríð, en kvíði er að sjálfsögðu alveg jafn-raunverulegur þótt enginn sýnilegur fótur sé fyrir honum og verðskuldar athygli og meðhöndlun sem slíkur. Mér hefur komið í hug að þeir sem þessari kvíðaröskun eru haldnir gætu ef til vill fundið fró ef þeir tækju sér símaskrána í hönd og færðu fingurinn af einu nafninu á annað hafandi yfir starfsheitið og segðu í leiðinni upphátt eða í hljóði: „Sama að ári“. Ef það dugir ekki mætti rifja upp hina brýnu þörf sem er fyrir vinnufúsar hendur í þjónustu- og umönnunargeiranum svo heldur við neyðarástandi, skorti á kennurum, leikskólakennurum, læknum, hjúkrunarfólki, iðnaðarmönnum af öllum mögulegum tegundum og gerðum... Eiginlega finnst manni að kvíða ætti miklu fremur að gæta á þeim vígstöðvum, það er: hvernig á að manna allar þessar himinhrópandi stöður? Og vænlegast þá að horfa til liðsaflans sem nú er í skólum landsins, að hann mennti sig og þjálfi til viðkomandi starfa.

Nýlega heyrði ég sögu af manni hér í bæ sem Guðmundur hét og hafði viðurnefnið „vinnulausi“. Hann var smiður að atvinnu og aldrei í rónni nema hann hefði þrjár til fjórar „vinnur“, af því hlaust viðurnefnið. Hinn dæmigerði Íslendingur? Sennilega býr eitthvað djúpt í þjóðarsálinni sem er ættað alveg frá því í Móðuharðindum 18. aldar þegar þjóðin var við það að deyja drottni sínum. Að þá hafi orðið til þetta holrúm sem ekkert getur fyllt, ekki einu sinni allsnægtir og yfirvinnur, ævinlega vofi yfir spurningin: „Hvað á að koma í staðinn?“

Uns svo er komið að vinnan fyllir upp í sjóndeildarhringinn, Íslendingar búa við lengstan vinnudag allra þjóða í Evrópu. Ekki að þeir afkasti mestu, nei, en þeir eru í vinnunni, hún er eins konar vistun. Sem Jón Gnarr túlkar svo ágætlega í auglýsingunni þar sem hann hefur hreppt „stóra vinninginn“ og þarf ekki að vinna framar. Við sjáum hann væflast um íbúðina heima hjá sér, hann hefur ekkert fyrir stafni og depurðin í svipnum yfirgnæfir orðin sem hann lætur falla um hvað hann hafi það gott.

Annað kvíðaeinkenni er málflutningur manna á borð við Guðmund Ólafsson hagfræðing og Pétur Blöndal alþingismann sem boða gervæðingu fallvatna landsins til þess að reisa álver í stóriðjustíl. Til þess að frelsa heiminn frá mengun (PB), til að vinna lokasigur á „hinni dauðu náttúru“ (G.Ól).

Það er eitthvað heillandi við þennan málflutning og hjá mér vaknar af einhverjum ástæðum minning um „skemmtiatriði“ sem ég varð vitni að í Skátaheimilinu sáluga forðum daga. Kappát. Atgervisfólk keppti um hver gæti hesthúsað flestum kókosbollum á tilteknum örfáum mínútum. 18 stykki hurfu upp í þann sem vaskastur var áður en hann greip með hvítklístruðum fingrum fyrir vitin og spúði þeirri 19du. Annars vegar þetta sem mann langaði óneitanlega í (kókosbollu/hagvöxt) og hins vegar að horfa á mann æla því.

Guðmundur Ólafsson og Pétur Blöndal eru einhverjir mestu uppistandarar sem völ er á um þessar mundir, því glórulaus málflutningur er í raun uppistand þegar hann nær hæstum hæðum. Aðeins ef á að fara að framkvæma hann ( implementera ) að gamanið tekur að kárna.

HLJÓÐVARP mbl.is

Hljóðpistlar Morgunblaðsins
Pétur Gunnarsson les pistilinn