[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég þóttist heldur betur vera komin í feitt þegar ég settist fyrir framan sjónvarpstækið til að horfa á fyrri þáttinn í sakamálaseríunni Rannsókn málsins. Byrjunin lofaði góðu. Gullfalleg stúlka var með nýbökuðum eiginmanni í Covent Garden.
Ég þóttist heldur betur vera komin í feitt þegar ég settist fyrir framan sjónvarpstækið til að horfa á fyrri þáttinn í sakamálaseríunni Rannsókn málsins. Byrjunin lofaði góðu. Gullfalleg stúlka var með nýbökuðum eiginmanni í Covent Garden. Svo hvarf hann allt í einu. Hún elskaði hann ákaft og fannst lögreglan ekkert gera í málinu og hóf leit að honum. Þannig lauk fyrsta þætti og ég þóttist ekki svikin. Vika leið og svo settist ég niður til að fylgjast með endalokunum. Sennilega er ég barnslega bjartsýn að eðlisfari því ég trúði því einlæglega að hún myndi finna manninn sinn og þau myndu lifa hamingjusöm til æviloka. En þá reyndist þetta vera raunsannur breskur sakamálaþáttur þar sem útsmoginn morðingi lokaði fólk inni og svelti það til bana. Eiginmaðurinn dó og unga eiginkonan dó, og áður hafði brjálaði morðinginn drepið nokkra aðra á svipaðan hátt.

Ég var afar niðurdregin í sófanum eftir þessi skelfilegu endalok og hugsaði með hryllingi til martraðar næturinnar sem ég vissi að biði mín. En svo svaf ég vært eins og sælt barn. Þegar ég vaknaði fannst mér ég vera orðin harðsvíruð nútímamanneskja. Ef maður hefur vott af sómakennd á maður ekki að sofa rólegur eftir svona skelfilega mynd.