Pallbílar Greinarhöfundur fjallar um pallbíla og jeppa og notkunarmöguleika þeirra, einnig út frá umræðunni um mengun og telur að umræðan þar um mengun jeppa sé á villigötum.
Pallbílar Greinarhöfundur fjallar um pallbíla og jeppa og notkunarmöguleika þeirra, einnig út frá umræðunni um mengun og telur að umræðan þar um mengun jeppa sé á villigötum. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Leó M. Jónsson leoemm@simnet.is Íslenska þjóðvegakerfið með eina akrein í hvora átt, einbreiðar brýr og bratta fjallvegi, víða án vegriða, er hættulegt, t.d. hættulegra en margir erlendir ferðamenn eiga að venjast í sínum heimalöndum.
Eftir Leó M. Jónsson

leoemm@simnet.is

Íslenska þjóðvegakerfið með eina akrein í hvora átt, einbreiðar brýr og bratta fjallvegi, víða án vegriða, er hættulegt, t.d. hættulegra en margir erlendir ferðamenn eiga að venjast í sínum heimalöndum. Alvarleg slys undanfarin ár eru til marks um það. Íslenskt veðurfar með stormi og sviptivindum eykur hættu í akstri á þjóðvegum. Með hverju árinu ferðast fleira fólk um landið með tjaldvagna, fellihýsi, kerrur eða jafnvel hjólhýsi í eftirdragi. Af fyrrnefndum ástæðum eru íslenskir þjóðvegir sérstaklega hættulegir því fólki og hafa alvarleg slys, m.a. dauðaslys, hlotist af því að vagn, t.d. fellihýsi hefur tekist á loft í stormhviðu og kippt bíl með sér út af vegi. Jafnvel þótt ekki sé um fjallveg að ræða geta afleiðingarnar orðið hörmulegar.

Þá hefur fólki fjölgað jafnt og þétt sem hefur hestamennsku að tómstundaiðju, áhugamáli og/eða keppnisgrein. Hestamennsku fylgir aukinn flutningur hrossa í mismunandi stórum vögnum um landið þvert og endilangt. Á þjóðvegunum stafar sérstakri hættu af bílum með þunga hestaflutningavagna sé eigin þyngd bíls um og innan við 2 tonn. Sú hætta er fólgin í þeim áhrifum sem þungur vagn hefur á stöðugleika bíls og öryggi og varla þarf að taka það fram að því þyngri og öflugri sem dráttarbíllinn er því minni hættu stafar af honum. Öryggi í drætti má auka með réttum tengibúnaði og jöfnun fargs á beislistengingu, hjól vagns og bíls (ítarlegar upplýsingar um dráttarbúnað er að finna á http://www.leoemm.com/vagnar.htm).

Uppgefnar eyðslutölur

Þær tölur sem framleiðendur bíla gefa upp um eyðslu (EPA-tölur í Bandaríkjunum og EEC-tölur í Evrópu) ber að taka með ákveðnum fyrirvara. Þær mæla ekki eyðslu bílanna í eðlilegri notkun heldur við ákveðnar aðstæður sem tilteknar eru í opinberum stöðlum og öllum bílaframleiðendum gert að fara eftir til að skapa samanburðargrundvöll fyrir kaupendur. Dæmi: Sé uppgefin meðaleyðsla, mæld samkvæmt EEC-staðli, 11 lítrar fyrir bíl A en 9 lítrar fyrir bíl B þýðir það ekki að bíll B eyði 2 lítrum minna að meðaltali á hverja hundrað km í venjulegri notkun. Hins vegar er þetta vísbending um að bíll B sé sparneytnari en bíll A.

Eftirfarandi dæmi skýrir ef til vill betur hvers vegna ekki ætti að taka uppgefnar staðaltölur um eyðslu of bókstaflega heldur sem viðmiðun. Tveir bílar af mismunandi tegund eyða jafn miklu samkvæmt EPA-mælingu. Annar þeirra gæti eytt talsvert meiru vegna þess að hann tekur á sig meiri vind en hinn – staðalmælingin fer nefnilega fram í logni. Önnur atriði sem geta haft mismunandi mikil áhrif á meðaleyðslu bíls eru mismunandi lofthiti, mismunandi hæð yfir sjávarmáli, mismunandi hleðsla bíls, mismunandi aksturshraði, mismunandi aksturslag bílstjóra o.fl. Hafa ber í huga að aðstæður, meðferð, ástand og beiting bíls (jafnvel tveggja sams konar bíla) hafa áhrif á eyðslu í notkun.

Notkun palljeppa

Ef dæma má af jeppaeign landsmanna sem hefur vaxið árlega um skeið eru jeppar (jafnvel af stærri gerð) vinsælasta gerð bíla hérlendis. Engu að síður er þessi mikla jeppaeign gagnrýnd og oftar en einu sinni hefur verið skorað á stjórnvöld að grípa í taumana. Af jeppaeign landsmanna að dæma mætti ætla að um forsjárhyggju umhverfisverndarsinna væri að ræða frekar en almenna skoðun meirihluta. Í umræðu um umhverfismál er farið að tala um koldíoxíð (CO 2 ) sem mengun og blandað saman við hættuleg eiturefni í útblæstri véla. Í umræðu um loftmengun er gjarnan vísað til svifryksmengunar í miðborg Reykjavíkur sem mælist yfir hættumörkum og látið í það skína að útblæstri bíla sé um að kenna. Svifryksmengun stafar fyrst og fremst af notkun nagladekkja, lélegu malbiki og alvarlegum skorti á þrifnaði gatna. (Minni loftmengun stafar frá bílaflota landsmanna en frá fiskiskipum og landbúnaði).

Svo virðist sem það sé algeng skoðun að jeppar eyði miklu eldsneyti miðað við fólksbíla, jafnvel þótt eigin þyngd sé svipuð. Stór hluti fullvaxinna jeppa og jepplinga er með fjórhjóladrif aftengt í venjulegum akstri. Musso mætti nefna sem dæmi um eyðslu fullvaxins jeppa (4x4 + hátt/lágt drif) sem margir eigendur geta staðfest. Musso með 2,9 lítra 129 ha Benz-túrbódísilvél eyðir í blönduðum akstri 10,5-11,5 lítrum á 100 km (Musso er með sparneytnustu dísiljeppum enda margfaldur sigurvegari í sparaksturskeppnum FÍB). Er þá miðað við óbreyttan bíl á 31" dekkjum, um 1.850 kg að eigin þyngd og með dráttargetu 2.300 kg.

Hverjir þurfa „stóra ameríska palljeppa“'?

Það þrep mengunarvarnarstaðals sem tók gildi í gildi í Bandaríkjunum um síðustu áramót (síðasta þrep Tier 2 staðalsins mun taka gildi um næstu áramót og í framhaldi mun fyrsta þrep Tier 3 taka við) gerir sömu kröfur um mengunarvarnir í útblæstri allra bíla, af öllum stærðum, án tillits til slagrýmis vélar og án tillits til hvort um bensín, gas eða dísilvél er að ræða. Þær kröfur eru því strangari en evrópski staðallinn EU 4 gerir, bæði varðandi mælt magn í g/km og vegna undanþága sem eru í EU 4.1) En af einhverjum ástæðum tókst bandarískum bílaframleiðendum að koma því til leiðar að allra stærstu og eyðslufrekustu fjórhjóladrifsbílar þeirra voru undanþegnir þessum reglum um mengunarvarnir. Undanþágan gildir ekki fyrir þá ½ og ¾ tonna* amerísku palljeppa sem hér eru algengastir heldur fyrir enn stærri palljeppa auk jeppa á borð við Ford Expedition/Lincoln Navigator/Range Rover, Chevrolet Tahoe og Suburban/Cadillac Escalade og Hummer H2. Annað atriði sem vert er að minna á er að því fer víðs fjarri að „Bandaríkjamenn geri ekki neitt í loftslagsmálum,“ eins og heyra hefur mátt í fjölmiðlum. Núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur hins vegar lítið gert af því að kynna loftslagsbúskap sinn á alþjóðlegum vettvangi. Umhverfisverndarsinnar í Bandaríkjunum leggja höfuðáherslu á að minnka nitoroxíðmengun frá bílum, einkum dísilbílum, fremur en losun koldíoxíðs og ástæðan fyrir þeim áherslumun er m.a. hætta sem bandarískum skógum stafar af súru regni.

Þeir sem þurfa „stóra ameríska palljeppa“ (með 5-7 manna húsi) hérlendis eru þjónustufyrirtæki, verktakar, bændur, iðnaðarmenn, hestafólk, akstursíþróttafólk sem ver tómstundum til að aka torfæruhjólum, fjórhjólum eða vélsleðum, fólk sem stendur í húsbyggingum og fyrirtæki í ferðaþjónustu sem bjóða auk gistingar hestaferðir, flúðasiglingar, hálendisferðir, jöklaferðir m.m. svo nokkrir aðilar séu nefndir.

Dráttargeta er lóðið

Af málflutningi þeirra sem hafa t.d. krafist þess að vörugjöld verði innheimt af þessum „stóru amerísku palljeppum,“ sem kann að vera réttlætanlegt, mætti ætla að þeir telji að einhverjir aðrir bílar geti tekið við hlutverki palljeppanna. En svo er ekki. Hvorki í Evrópu né Japan eru framleiddir 5-7 manna palljeppar með þá dráttargetu sem þessir sérstöku amerísku fyrirbrigði hafa (nema LandRover Defender CrewCab), þ.e. um og yfir 3.500 kg – sem er nauðsynlegt t.d. fyrir þá sem draga hestaflutningavagna af stærri gerð og aðra í þessum hópi af öryggisástæðum.

Hvers vegna dísilvél? Eðlismunur á dísilvél og bensínvél er m.a. sá að í dísilvélinni brennur eldsneytið við stöðugan þrýsting en stöðugt rúmtak í bensínvél. Það gerir það m.a. að verkum að kveikjubúnaður dísilvélar er einfaldari og öruggari. Mestu máli skiptir þó að í dísilvélinni getur bruninn haldið áfram í þrepum (allt að 5 í nýjustu vélum) á leið stimpilsins niður í aflslagi. Stimpillinn beitir því meira átaki til að snúa sveifarásnum. Átaksarmur (vogarstöng) sveifarássins getur því verið lengri en í bensínvél með sama slagrými – af því leiðir meiri slaglengd og minni snúningshraði en mun meira tog en í bensínvél. Eðlis síns vegna getur dísilvél nýtt um 35-36% brunaorku eldsneytisins sem hreyfiafl en fullkomnasta bensínvél nær ekki 24%.

Þetta skýrir jafnframt hvers vegna dísilvél er um 30% sparneytnari að jafnaði en bensínvél af sama slagrými við sömu aðstæður og skýrir jafnframt hvers vegna hlutfallsleg eyðsluaukning bensínvélar er miklu meira en dísilvélar við að draga þungan vagn. t.d. upp brekku.

Þetta tog sem dísilvél hefur umfram bensínvél er lykilinn að dráttargetu „stóru amerísku palljeppanna“ en bandarískar dísilvélar með 6-8 lítra slagrými eiga sér enga hliðstæðu, þær eru sparneytnastar, og með minnstu mengun í útblæstri. Sem dæmi þá hefur nituroxíðsmengun í útblæstri amerísku dísilvélanna minnkað um 99,5% frá ársbyrjun 1998 til ársloka 20051). Á sama tíma hefur sparneytni vélanna aukist um 8-10% og til 2008 um 25% (Dodge/Cummins 5,9 dísill).

Hve miklu eyða „stóru amerísku palljepparnir?“

Hér er fjallað um eyðslu óbreyttra palljeppa í fullkomnu lagi en þó með aflaukandi forriti (kubbi) í sumum tilvika. Stuðst er við upplýsingar sem greinarhöfundur hefur sannreynt með mælingum sl. 3-4 ár. Með einni undantekningu er um dísilbíla að ræða. Í öllum tilvikum er um meðaleyðslu að ræða í blönduðum akstri.

Ford F-150 4ra dyra með sætum fyrir 5 og styttri gerð af palli, eigin þyngd 2.200 kg. Árgerð 2004. Vél 4,6 lítra V8-bensínvél með aflaukandi tölvuforriti (kubbur). Dráttargeta 2.948 kg. Eyðsla 16 lítrar. Snerpa innan við 7 sek. 0-100.

Ford F-250 4ra dyra með sætum fyrir 5 og palli, eigin þyngd 3.280 kg, 235 ha 6 lítra PowerStroke V8-dísilvél (en þær vélar eru, því miður, sjaldan í fullkomnu lagi), árgerð 2006. Dráttargeta 2.268 kg (Super Duty er með mun meiri dráttargetu). Eyðsla 15-16 lítrar.

Chevrolet Silverado 2.500 HD 4ra dyra með sætum fyrir 5 og palli, eigin þyngd 2.800 kg, 6,6 lítra Duramax V8-dísilvél, 365 ha, árgerð 2.008. Dráttargeta 4.358 kg. Eyðsla 13-14 lítrar. (Þægilegasti palljeppinn í akstri).

Dodge Ram 2.500 HD 4ra dyra með sætum fyrir 5 og palli. Eigin þyngd 2.475 kg, 5,9 lítra 325 ha Cummins 6 sílindra dísilvél (lína), árgerð 2007. Dráttargeta 5.834 kg. Eyðsla 14-15 lítrar. (Dodge Ram með Cummins-dísilvélinni er sparneytnasti palljeppinn, Ram 1.500 eyðir um 13 lítrum með þessari vél).

Skýrsla: Varnir gegn mengunarefnum í afgasi farartækja í Bandaríkjunum og Evrópu (ES). Leó M. Jónsson iðnaðar- og vélatæknifræðingur, Reykjanesbæ. 2003 (www.leoemm.com/mengunarskyrsla.htp)

Flokkun pallbíla í Bandaríkjunum fer eftir burðargetu grunngerðar, 1.500 (F-150)/500 kg, 2.500 (F-250)/750 kg, 3.500 (F-350)/1.000 kg o.s.frv. Hafa ber í huga að frávik geta verið talsverð enda er ameríska pundið ekki 0,5 kg, eins og algengt er að fólk gefi sér, heldur 0,454 g.