Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is HANNES Jón Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik, sem leikur með Fredericia í Danmörku, er að öllu óbreyttu á leið til Hannover-Burgdorf sem leikur í 2. deild, næstefstu deildinni í Þýskalandi.
Eftir Víði Sigurðsson

vs@mbl.is

HANNES Jón Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik, sem leikur með Fredericia í Danmörku, er að öllu óbreyttu á leið til Hannover-Burgdorf sem leikur í 2. deild, næstefstu deildinni í Þýskalandi. Hann er með tilboð frá félaginu í höndunum og sagði við Morgunblaðið í gær að í raun væri aðeins eftir að útkljá ágreining um minniháttar atriði.

„Ég fór til Burgdorf um daginn, ræddi við forráðamenn félagsins og skoðaði bæinn, og leist mjög vel á mig. Þarna er greinilega vel staðið að öllu og mikill metnaður fyrir því að fara upp í efstu deildina og mér líst betur á að fara í þannig umhverfi, heldur en að fara í félag sem væri að berjast fyrir lífi sínu í efstu deild,“ sagði Hannes. Hann gekk til liðs við Fredericia fyrir þetta tímabil, eftir að hafa leikið með Ajax í Danmörku og Elverum í Noregi síðasta vetur. Fredericia siglir lygnan sjó um miðja úrvalsdeildina.

Vonbrigði hjá Fredericia

„Ég ákvað fyrir þónokkru að skipta aftur um félag enda hef ég orðið fyrir vonbrigðum hjá Fredericia, bæði með félagið og eigið gengi,“ sagði Hannes.

Heiðmar Felixson leikur með Burgdorf sem og Robertas Pauzuolis, Litháinn sem lék lengi á Íslandi. Þá hefur Andrius Stelmokas, litháíski línumaðurinn sem gerði það gott með KA á sínum tíma, samið við Burgdorf fyrir næsta tímabil en hann spilar nú með Füsche Berlín í efstu deild. Burgdorf er í sjötta sæti af 18 liðum í norðurriðli 2. deildarinnar.