Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is MIKLAR sveiflur einkenndu íslenska hlutabréfamarkaðinn í gær, en fyrri helming dagsins stefndi í ríflega þriggja prósenta hækkun Úrvalsvísitölunnar.
Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

MIKLAR sveiflur einkenndu íslenska hlutabréfamarkaðinn í gær, en fyrri helming dagsins stefndi í ríflega þriggja prósenta hækkun Úrvalsvísitölunnar. Um miðjan dag tók markaðurinn hins vegar að lækka skarpt og segir í Hálffimmfréttum greiningardeildar Kaupþings að skýringarinnar sé líklega að leita í hagnaðartöku fjárfesta. Þeir hafi séð sér leik á borði eftir um 13% hækkun í vikunni og selt hlutabréf af miklum móð. Hækkun dagsins gekk því að stórum hluta til baka og svo fór að hækkun vísitölunnar nam ekki nema 0,07% og stóð vísitalan við lok viðskipta í 5.025,85 stigum.

Spá 1,2-1,4% verðbólgu

Heildarvelta í kauphöllinni nam tæpum 40,7 milljörðum króna og þar af nam velta með hlutabréf rúmum 16,4 milljörðum króna.

Mest var veltan með bréf FL Group, eða um 5,6 milljarðar króna. Langstærstur hluti þessara viðskipta, eða um 5,3 milljarðar, kemur til vegna fjármögnunar BG Capital, fjárfestingarfélags í eigu Baugur Group og hefur félagið lagt viðkomandi hluti að veði. BG Capital mun sem fyrr fara með atkvæðisrétt og halda öðrum réttindum tengdum hlutunum. Þá vekur athygli 16,07% lækkun á gengi bréfa Icelandic Group í gær, en hafa verður í huga að viðskipti með bréf félagsins voru mjög fá í gær og veltan lítil. Við slíkar aðstæður þarf ekki mikið til að miklar breytingar geti orðið á gengi hlutabréfa.

Í dag verða nýjar tölur um verðbólgu í marsmánuði birtar af Hagstofu Íslands. Greiningardeildir bankanna spá 1,2-1,4% verðbólgu í mánuðinum og gangi sú spá eftir mun tólf mánaða verðbólga hækka úr 6,8% í 8,4-8,6%. Er það einkum gengislækkun krónunnar sem veldur væntanlegri hækkun verðlags, en stór hluti neysluvara Íslendinga er aðfluttur. Greiningardeild Glitnis telur að þróun gengis krónunnar muni hafa mikið að segja um þróun verðbólgu hér á landi til skamms tíma, en útlit sé fyrir að krónan verði áfram veik á næstunni.

Í hnotskurn
» Af félögum í Úrvalsvísitölunni hækkaði gengi bréfa Teymis mest, eða um 1,90%. Þá hækkaði gengi bréfa Össurar um 1,66%.
» Bréf Atlantic Petroleum hækkuðu hins vegar mest allra félaga í kauphöllinni, eða um 9,95%.
» Velta á skuldabréfamarkaði nam um 24 milljörðum í gær, mest með ríkisskuldabréf til skemmri tíma.