Ný íslensk kvikmynd, Stóra planið, verður frumsýnd í kvöld. Í henni segir frá ólánsömum handrukkara sem leigir íbúð af grunnskólakennara sem gefur sig út fyrir að vera glæpamaður sjálfur.
Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

Íslenska kvikmyndin Stóra planið í leikstjórn Ólafs Jóhannessonar verður frumsýnd í kvöld. Í myndinni leikur Pétur Jóhann Sigfússon handrukkarann Davíð sem stendur höllum fæti í genginu sínu, þar sem hinir handrukkararnir nota hvert tækifæri til þess að sparka í hann jafnt andlega sem líkamlega. Þá fer kærastan hans, sem leikin er af Ilmi Kristjánsdóttur, ekkert sérstaklega vel með hann heldur. Dag einn flytur hann inn í íbúð í blokk þar sem leigusalinn, Haraldur Haraldsson, sem leikinn er af Eggerti Þorleifssyni, býr líka. Með þeim tekst ágætis kunningsskapur en um leið og Haraldur kemst að því að Davíð sé handrukkari ljóstrar hann því upp að hann sé einnig í bransanum. Davíð segir félögum sínum í genginu frá því að hann þekki glæpamanninn Harald, og álykta félagarnir þá að þar sé á ferðinni hinn víðfrægi Mexíkó-Haraldur sem hvarf árið 1997. Davíð fær fyrir vikið dálitla stöðuhækkun í genginu og fær að vera með á fundum ásamt því sem honum er falið að njósna um glæpamanninn Harald. Upp úr því upphefst mikill farsi.

Íslenskir glæpamenn

Þó svo að myndin fjalli um glæpagengi segir leikstjórinn og einn handritshöfundanna, Ólafur Jóhannesson, að lögð hafi verið áhersla á að gera söguna trúverðuga fyrir íslenskan veruleika. „Þeir ganga til dæmis ekki með byssur á sér og eru í rauninni bara rammíslenskir handrukkarar með minnimáttarkennd. Svo er þessi mynd eiginlega frekar á léttari nótum heldur en hitt, ég myndi lýsa henni sem gamandramamynd.“

Mikill fengur

Nokkrir erlendir leikarar fara með hlutverk í Stóra planinu, en einn þeirra er bandaríski leikarinn, Michael Imperioli, sem meðal annars er þekktur fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Sopranos. Hann leikur höfuðpaur handrukkaraklíkunnar og segir Ólafur það hafa verið fyrir hálfgerða heppni sem Imperioli tók að sér hlutverkið. „Við vorum ekki með mikið af peningum á milli handanna og gátum því einungis greitt venjuleg leikaralaun á íslenskan mælikvarða. Það vildi svo vel til að hann var í einhverju stuði og leist vel á handritið og langaði til að koma til Íslands. Það var náttúrlega bara meiriháttar og æðislegur fengur fyrir okkur.“
Í hnotskurn
Hefur meðal annars gert heimildarmyndirnar Africa United, Blindsker og The Amazing Truth About Queen Raquela, en fyrir þá síðastnefndu fékk hann Teddy-verðlaunin á Kvikmyndahátíðinni í Berlín.