ARON Pálmarsson, handknattleiksmaðurinn efnilegi úr FH og 20-ára landsliðinu, hefur æft með þýska liðinu Lemgo þessa vikuna. Aron sagði í samtali við handbolti.
ARON Pálmarsson, handknattleiksmaðurinn efnilegi úr FH og 20-ára landsliðinu, hefur æft með þýska liðinu Lemgo þessa vikuna. Aron sagði í samtali við handbolti.is í gær að Lemgo hefði fylgst með sér undanfarin þrjú ár en ljóst sé að hann verði áfram í röðum FH-inga í a.m.k. eitt ár til viðbótar. Með Lemgo leikur FH-ingurinn Logi Geirsson.

Aron er aðeins 17 ára gamall en er í lykilhlutverki í liði FH sem er nánast búið að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni fyrir næsta tímabil. Hann hefur skorað 105 mörk í 18 leikjum liðsins í vetur.

Aron er sonur Pálmars Sigurðssonar, fyrrverandi landsliðsmanns í körfuknattleik úr Haukum, sem lék 74 landsleiki á árunum 1982–1992.