Ármann Kr. Ólafsson | 26. mars 2008 Hafa bankarnir óeðlileg áhrif...? Fyrir páska og svo aftur í dag hafði ég samband við aðila sem fjármögnuðu bíl sem ég keypti á síðari hluta síðasta árs þegar gengisvísitala krónunnar var í kringum 118.
Ármann Kr. Ólafsson | 26. mars 2008

Hafa bankarnir óeðlileg áhrif...?

Fyrir páska og svo aftur í dag hafði ég samband við aðila sem fjármögnuðu bíl sem ég keypti á síðari hluta síðasta árs þegar gengisvísitala krónunnar var í kringum 118. Ég ákvað að taka lán í íslenskum krónum sem var að því er mér var sagt undantekning þar sem vextir væru svo háir. Ástæðan frá minni hendi var einföld, ég taldi krónuna of hátt skráða og var viss um að hún ætti eftir að veikjast. Fyrir páska fór gengi krónunnar svo í 160 og ætlaði ég þá að breyta yfir í erlent lán, enda hafði mér verið sagt þegar ég tók lánið að það væri ekkert mál. En það var nú aldeilis ekki svo, mér hefur verið neitað í tvígang um slíka breytingu. Mér finnst þetta vægast sagt döpur þjónusta af hendi viðkomandi fyrirtækis sem er dótturfélag eins stærsta banka landsins. Er nema von að krónan veikist þegar skrúfað er fyrir eftirspurn eftir henni með þessum hætti. Í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri að bankinn hefði vísbendingar um að einhverjir kynnu að hafa haft óeðlileg áhrif á gengi krónunnar. Athyglisvert ekki síst í ljósi þess að kvittur hefur verið um að bankarnir hafi verið að skortselja krónu (selja krónu sem þeir eiga ekki en afhenda síðar) í þeim tilgangi að veikja hana með offramboði. Á sama tíma skrúfa þeir fyrir lántökur í erlendri mynt sem einnig verður til þess að takmarka eftirspurn eftir krónu og þar með veikja hana. Engu að síður eiga þeir yfir 500 milljarða í erlendum gjaldeyri....Ég vona svo sannarlega að bankarnir hafi ekki verið að stýra genginu til að laga afkomuna hjá sér á kostnað viðskiptavina þeirra og almennings í landinu.

armannkr.blog.is