Breytingar Iðnaðarhúsnæði hentar oft ekki fyrir þá starfsemi sem það var hugsað fyrir í byrjun og bæjaryfirvöld í Hafnarfirði ætla til dæmis að breyta skipulagi í iðnaðarhverfi til að búseta verði heimiluð.
Breytingar Iðnaðarhúsnæði hentar oft ekki fyrir þá starfsemi sem það var hugsað fyrir í byrjun og bæjaryfirvöld í Hafnarfirði ætla til dæmis að breyta skipulagi í iðnaðarhverfi til að búseta verði heimiluð. — Morgunblaðið/Frikki
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is SAMKVÆMT skýrslu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 1.254 manns í óleyfilegum íbúðum í atvinnuhúsnæði á svæði slökkviliðsins í febrúar 2007.
Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

SAMKVÆMT skýrslu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 1.254 manns í óleyfilegum íbúðum í atvinnuhúsnæði á svæði slökkviliðsins í febrúar 2007. Könnun í Hafnarfirði og Garðabæ í ár gefur vísbendingar um að fjöldinn hafi tvöfaldast á einu ári, að sögn Bjarna Kjartanssonar, sviðsstjóra forvarnarsviðs slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Mikil fjölgun

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu kortlagði í janúar og febrúar í fyrra fjölda og dreifingu óleyfilegra íbúða í atvinnuhúsnæði á starfssvæði slökkviliðsins. Sambærileg könnun var gerð 2003. Þá var farið í fullgilda eldvarnaskoðun í hverju húsi sem búseta fannst í en fjöldi íbúa ekki áætlaður. Til að fá hugmynd um fjölgun íbúa í umræddu húsnæði milli áranna 2003 og 2007 var áætluð íbúatala fyrir árið 2003 út frá hlutfalli áætlaðrar íbúatölu 2007 og fjölda búsetueininga 2007 (íbúðir eða sjálfstæð herbergi).

Bjarni Kjartansson segir að fyrri könnunin hafi verið gerð, þegar ljóst hafi verið að farið var að búa í iðnaðarhúsnæði í auknum mæli og eldvarnir ekki verið í lagi. Í fyrra hafi aftur verið farið af stað vegna skýrra vísbendinga um mikla aukningu íbúa í þessum byggingum.

Niðurstaðan varð sú að byggingum með óleyfilega búsetu fjölgaði um meira en 60% á tímabilinu og búsetueiningum um 115%. Varlega áætlað jókst íbúafjöldi svipað og fjöldi búsetueininga eða um 115%.

2003 voru 124 byggingar á höfuðborgarsvæðinu með óleyfilega búsetu en 201 bygging 2007. Búsetueiningum fjölgaði úr 394 í 842 og íbúum úr 587 í 1.254. Búsetueiningunum fjölgaði mest í Reykjavík eða úr 185 í 423. Í Kópavogi fóru þær úr 102 í 213, úr 73 í 138 í Hafnarfirði, úr 8 í 37 í Mosfellsbæ, úr 25 í 29 í Garðabæ, úr engri í eina á Seltjarnarnesi og talan var óbreytt á Álftanesi eða ein búsetueining hvort ár. Nýjustu tölur úr Hafnarfirði og Garðabæ eru frá því á þessu ári.

Bjarni Kjartansson segir að nú séu húsin metin eftir alvarleika ágalla og eigendur varaðir við lokun ef þurfa þykir. Hins vegar fái eigendur nokkurt svigrúm til þess að leysa sín mál, annaðhvort með úrbótum þar sem þær séu heimilaðar eða með því að láta af þessari notkun húsanna.

Um miðjan mánuðinn lét slökkviliðsstjóri loka þremur íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Bjarni segir að reynt sé að forðast lokanir en þeim sé beitt sé þörf á því.

Í hnotskurn
» Slökkviliðið skráir ólöglegar íbúðir í atvinnuhúsnæði og sýna tölur að slíkum íbúðum og þar með íbúum hefur fjölgað mjög mikið á skömmum tíma.
» Oft vantar flóttaleiðir og reykskynjara í íbúðir í iðnaðarhúsnæði.
» Kortlagningin nær ekki til ólöglegra íbúða í samþykktum íbúðahverfum og er vísað á byggingafulltrúa.