Fjörið byrjað Þeir Tahirou Sani hjá ÍR og Anthony Susnjara hjá Keflavík.
Fjörið byrjað Þeir Tahirou Sani hjá ÍR og Anthony Susnjara hjá Keflavík. — Morgunblaðið/Ómar
ÚRSLITAKEPPNI Iceland Express deildar karla í körfuknattleik hefst í kvöld. Þá taka deildarmeistarar Keflavíkur á móti Þór og Grindvíkingar fá Skallagrím í heimsókn..

ÚRSLITAKEPPNI Iceland Express deildar karla í körfuknattleik hefst í kvöld. Þá taka deildarmeistarar Keflavíkur á móti Þór og Grindvíkingar fá Skallagrím í heimsókn.. Á morgun verða síðan hinir tveir leikirnir í átta liða úrslitnum en þá eigast KR og ÍR við í Reykjvaíkurslagnum og Njarðvíkingar fá Snæfell í heimsókn. Þau lið sem fyrr sigra í tveimur leikjum komast áfram í undanúrslitin en þar þarf að sigra í þremur leikjum til að komast áfram í úrslitin.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

Það kom ekki í ljós fyrr á lokasekúndum síðustu umferðarinnar hvaða átta lið yrðu í úrslitakeppninni og hvaða fjögur þeirra hefðu heimaleikjaréttinn. Þegar öllum leikjunum var lokið var ljóst að Stjarnan sat eftir með sárt ennið en Þór fékk síðasta sætið í átta liða úrslitunum. Einnig varð þá ljóst að Njarðvík yrði síðasta liðið til að fá heimaleikjaréttinn og fékk Njarðvík hann á kostnað Snæfells.

Bragi Magnússon, þjálfari Stjörnunnar, telur að þau lið sem eigi heimaleik í fyrstu umferðinni hafi betur í átta liða úrslitunum, nema Njarðvíkingar. Bragi er helst á því að Snæfell slái Njarðvík út í þeirri rimmu.

Vonandi gera Þórsarar usla

„Það verður samkeppni í öllum þessum leikjum. Ég hef sagt það áður að fyrst Þórsarar komust í keppnina en ekki við þá vona ég að þeir geri einhvern usla í henni. Það er samt erfitt að segja til um hvaða lið komast áfram,“ segir Bragi en á samt frekar von á að liðin sem eiga heimaleikinn fyrr – og voru í efstu fjórum sætunum – komist áfram.

„Ég vona að Þórsarar láti Keflvíkinga aðeins hafa fyrir hlutunum, en ég á nú samt ekki von á að Akureyringar komist áfram. Ég trúi því samt að Þórsarar láti þá virkilega hafa fyrir hlutunum og Keflavík er ekki ósigrandi lið, langt því frá. Í ljósi reynslu Keflvíkinga í úrslitakeppni síðustu ára þá held ég að þeir sigli áfram úr þessari viðureign,“ segir Bragi um rimmu Keflavíkur og Þórs.

Borgarnes á ekki möguleika

Hinn leikurinn í kvöld verður í Grindavík þar sem Borgnesingar verða í heimsókn. Það er skarð fyrir skildi hjá Skallagrími að Hafþór Gunnarsson verður ekki meira með en aðrir leikmenn liðanna eru heilir.

„Skallagrímsmenn virðast vera búnir að fá liðið sitt aftur að mestu. En ég held samt að þeir séu ekki nægilega sterkir til að slá út Grindavík og ég held að þetta endi 2:0 fyrir Grindavík.

Ef þessi nýi bandaríski leikmaður þeirra, Jamaal Williams, smellur inn í liðið og verður sterkur á móti Darrell Flake þá er búið að slá vopnin úr höndum Skallagríms. Mér sýnist Igor Beljanski líka vera að koma sterkur inn á ný og það munar miklu fyrir Grindavík.

Skallagrímur á ekki mikla möguleika í þessari rimmu held ég og ef Grindvíkingar ná að stöðva Flake þá eiga þeir nákvæmlega enga möguleika. Það er ekkert flóknara en það,“ segir Bragi.

KR vinnur borgarslaginn

Fyrsti leikurinn í Reykjavíkurslagnum verður í DHL-höll KR-inga á morgun en þá koma ÍR-ingar í heimsókn. KR varð í öðru sæti deildarinnar og ÍR hreppti sjöunda sæti deildarinnar með 20 stig líkt og Skallagrímur og Þór.

„ÍR-ingar unnu KR síðast og ef ég man rétt þá held ég að KR hafi farið nokkuð létt með þá þegar liðin mættust vestur í bæ. Hérna held ég að heimavöllurinn eigi eftir að koma sterklega inn. KR slær ÍR út en ég held samt að ÍR taki sinn leik á heimavelli. KR-ingar eru einfaldlega með of stóran og sterkan hóp til að ÍR eigi möguleika. Ef þetta væri einn leikur þá gæti allt gerst, en í svona leikjaröð held ég að KR hafi betur í ljósi breiddar og heimavallar,“ sagði Bragi um rimmu Reykjavíkurliðanna.

Snæfell með stemmningslið

Fyrirfram má búast við því að mesta spennan verði í viðureign Njarðvíkur og Snæfells, liðanna sem urðu í fjórða og fimmta sæti deildarinnar. Njarðvíkingar urðu reyndar fyrir blóðtöku en ljóst er að fyrirliði þeirra, Friðrik Stefánsson, verður ekki með liðinu í keppninni vegna veikinda og kemur það sér illa enda Friðrik öflugur í fráköstum og þau eru ein sterkasta hlið Snæfells.

„Ég hef sagt það áður að ég held að Snæfell eigi eftir að fara langt í þessu móti. Þetta er stemmningslið sem er líka með fína reynslu enda komst það langt í fyrra. Hlynur Bæringsson er auðvitað bara kóngurinn í svona baráttu. Ég held því að Snæfell komist áfram og þó flestir búist við spennu svona fyrirfram þá held ég að þetta verði næsta auðvelt hjá Snæfelli.

Annars veit maður svo sem aldrei því Njarðvíkingar hafa verið mjög mikið upp og niður í vetur og það virðist einhver óánægja í gangi. Njarðvíkingar geta spilað mjög vel og eru þá með flott lið en detta síðan niður á milli. Ég held reyndar að Snæfell eigi eftir að brjóta Njarðvíkinga á bak aftur því það virðist sem það megi ekki mikið bjáta á hjá þeim til að allt fari í baklás.“

Þétt prógramm framundan

Leikirnir í kvöld hefjast klukkan 19.15 en á morgun byrja þeir klukkan. Síða er leikið á sunnudag klukkan 19.15 á Akureyri og Borgarnesi og í Stykkishólmi klukkan 19.15 á mánudag en leikur ÍR og KR hafst hins vegar klukkan 20. Ef til oddaleikja kemur verða þeir fimmtudaginn 3. apríl.

Í hnotskurn
» Borgarskotið verður á sínum stað í úrslitakeppninni líkt og í fyrra. Þá fá tveir áhorfendur færi á að skora með langskoti og fá ferð með Iceland Express að launum.
» Til mikils er að vinna fyrir félögin því það lið sem verður Íslandsmeistari fær 700.000 krónur að launum frá Iceland Express.