Þróunarvinna Þórólfur Gunnarsson segir að baki SAGA-flotastýringunni liggi mikil þróunarvinna.
Þróunarvinna Þórólfur Gunnarsson segir að baki SAGA-flotastýringunni liggi mikil þróunarvinna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var alvarlegt umferðarslys sem kom fjórum vinum til þess að huga að lausnum til þess að fylgjast með og bæta aksturslag. Þeir byrjuðu í bílskúrnum fyrir átta árum en starfa nú undir nafninu New Development (ND á Íslandi) og eru nú m.a.

Það var alvarlegt umferðarslys sem kom fjórum vinum til þess að huga að lausnum til þess að fylgjast með og bæta aksturslag. Þeir byrjuðu í bílskúrnum fyrir átta árum en starfa nú undir nafninu New Development (ND á Íslandi) og eru nú m.a. komnir með einkaleyfi á lausn sinni í Bandaríkjunum. Unnur H. Jóhannsdóttir ræddi við Þórólf Gunnarsson, sölu- og þjónustustjóra hjá ND, um SAGA-flotastýringu, hagræðinguna og útrásina.

Saga ökuritinn er lítil og sjálfstæð eining sem samanstendur af GPS-staðsetningartæki og GSM/GPRS samskiptaeiningu,“ segir Þórólfur Gunnarsson. „Ökuritinn er á stærð við radarvara og tengist rafkerfi ökutækisins og með loftneti. Ritinn sendir sjálfvirkt gögn til SAGA-stjórnkerfisins sem vinnur úr þeim upplýsingum um hraða, hraðaaukningu, hemlun og þyngdarkraft í beygjum. Eftir þá greiningu getur notandi hans náð í lykiltölur um rekstur, notkun, nýtingu og meðferð allra faratækja. Einnig er hægt að sjá ökuleiðir á götukorti í rauntíma og allt að þrjá mánuði aftur í tímann.“

En hvernig nýtast þessar upplýsingar eiganda ökutækis eða flota?

„Kerfið veitir yfirsýn og fyrirtæki nýta þessa auknu yfirsýn til þessa að hagræða í rekstri. Auk þess þá hafa fyrirtæki dregið úr rekstrarkostnaði á bílaflota sínum en sá kostnaður hefur aukist mikið að undanförnu. Við erum mjög stoltir af þeim árangri sem fyrirtæki hafa verið að ná í að bæta umferðaröryggi sitt. Dæmi eru um að stór fyrirtæki með breið þjónustusvið hafa fækkað tjónum upp í um 80% í kjölfar innleiðingar. Bætt aksturslag fer betur með bílaflota og dregur úr kostnaði við hann. Dæmi eru um að fyrirtæki hafi náð að spara sér umtalsverð eldsneytiskaup og lækkað þar með rekstrarkostnað og ekið bílaflotanum sínum á umhverfisvænni hátt

Starfsfólk almennt jákvætt

,,Upphaflega fórum við út í rannsóknarvinnu, meðal annars með ríkislögreglustjóra og Umferðarráði, til þess að greina hvað væri eðlilegur akstur. Með SAGA-kerfinu okkar getum við greint frávik frá þessum eðlilega akstri. Á þann hátt er ökumaðurinn gerður ábyrgur fyrir aksturshegðun sinni og það verður einfaldara að átta sig á hvað má bæta og hvernig.“

– En hvað með mörkin á milli friðhelgi einkalífs og eftirlits?

,,Búnaðurinn er að fylgjast með ökutækinu eða vinnuvélinni en ekki manneskjunni. Búnaðurinn skráir ekki hver er í bílnum á hvaða tíma. Við innleiðingu er kerfið kynnt vandlega á starfsmannafundum, hvaða upplýsingar koma fram, hvernig þær eru notaðar, hvað er ætlast til af notendum bílanna eða vinnuvélanna. Öll tæki sem útbúin eru SAGA-ökurita fá lítinn límmiða í hliðarrúðuna til að upplýsa og minna viðkomandi ökumann á að bíllinn sé búinn slíkum búnaði, til að það fari ekki á milli mála. Síðan er það grundvallaratriði að gögnin sem koma úr bílnum eru trúnaðarmál fyrirtækisins og þess starfsmanns sem var að vinna í honum á þeim tíma. Það er t.d. ekki verið að setja ökuníðing mánaðarins upp á skotskífuna í matsalnum

– Svo þetta hefur lítil áhrif á starfsanda á vinnustöðum?

,,Þó að það sé oft upphaflega fælingarmáttur, innleiðing á kerfum sem þessum þá skv. könnun sem við gerðum á meðal 50 fyrirtækja sem tekið hafa upp SAGA-ökuritann voru 98% jákvæð eða hlutlaus þegar kom að þeirri spurningu.

Aukin hagræðing og nýtni

Þórólfur bendir á að í sömu könnun hafi 86% núverandi viðskiptavina mælt með því við önnur fyrirtæki að taka upp SAGA-kerfið. ,,Það er ekki bara hægt að tengja búnaðinn okkar við bíla, heldur í rauninni við allt sem hreyfist, skip, vörubíla, vinnuvélar eins og gröfur og jafnvel fólk, sem t.d. vinnur við póstútburð. Þetta snýst allt um að auka nýtnina og þar með að auka hagnað fyrirtækja. Í verktakabransanum er gífurleg velta en oft lítil framlegð. Oft á tíðum vantar yfirsýnina, hvernig hægt er að nýta tímann, vinnuaflið og vélarnar betur. Framlegðaraukning um 2-3% getur aukið verðmæti í þessum bransa verulega. Fyrirtæki hafa verið að ná að hagræða í rekstri með þessari auknu yfirsýn. Við höfum t.d. aðstoðað gámafyrirtæki að minnka biðtímann sem það tekur að koma bíl aftur út um 15-20 mínútur í hverri ferð. Þetta þýðir fleiri ferðir á dag og á ársgrundvelli verður margt smátt eitt stórt. Sama má segja um losun vörubílahlass, það munar um ef hægt er að fara 1-2 aukaferðir á dag á hverjum bíl.

Mögulegt er að fylgjast með bílaflotanum í rauntíma, verkstjóri getur fylgst með bílaflotanum og staðsetningu hans eða vinnuvélunum af tölvuskjá. ,,Þetta getur tvímælalaust verið hagræðing, enda nýta sér flest fyrirtæki þennan möguleika. Á örskömmum tíma er hægt að átta sig á staðsetningu allra ökutækja og sjá þau hreyfast á korti. Ef menn rata ekki, t.d. í nýjum hverfum, er hægt að lóðsa ökumann í gegnum tölvuskjáinn stystu leið í verkefni. Varðandi skipin hafa t.d. hvalskoðunarskipin hagnýtt sér lausnir okkar, bæði til þess að sjá hvar skip eru á rauntíma og eins til að prenta út landakort með siglingaleiðinni fyrir ferðamenn. Þá getum við mælt gang skipanna í skoðunartúrnum, hvernig sé hentugast að skipuleggja siglingu túrsins milli skoðunarstaða þannig að það eyði sem minnstri olíu.

Upphafið, einkaleyfið og útrásin

– Og á að færa út kvíarnar?

,,Já, við erum með umboðsaðila í Noregi og erum með nokkur verkefni í bígerð þar ásamt verkefna í Svíþjóð, Danmörku og Austurríki. Við erum með níu starfsmenn hér á landi og við leggjum mikið upp úr þróun lausna með viðskiptavinum. Það eru mjög spennandi tímar framundan. Við höfum nýverið fengið einkaleyfi á aksturslagsformúlunni okkar í Bandaríkjunum og fáum væntanlega innan fárra vikna einkaleyfi í Evrópu og Eyjaálfu. Flotastýringar eru þekkt fyrirbæri en það sem gerir okkur sérstök er aksturslagsformúlan okkar en hún gengur í mörgum tilfellum með þeim kerfum sem fyrir eru á markaðnum. Og þetta er stór markaður.

– Hvert var upphaf ND á Íslandi?

,,Við byrjuðum nokkrir strákar að búa til tæki sem gæti haft eftirlit með akstri ungmenna og aukið umferðaröryggi enda er tjónatíðni einna hæst í þeim aldursflokki. Í upphafi reyndum við að selja tryggingafélögunum hugmyndina, þeim fannst hún góð en keyptu hana ekki. Því næst fórum við að huga að fyrirtækjum sem voru með bílaflota, enda töldum við að þetta væri verkfæri sem einnig gæti hagrætt í rekstri slíkra fyrirtækja. Það gekk betur og síðan höfum við einbeitt okkur að því að sníða lausnina sem best að þörfum viðskiptavina okkar. Í dag eru 130 fyrirtæki að nýta þjónustu okkar hér á landi og fer þeim ört fjölgandi vegna þessa góða árangurs sem fyrirtæki hafa verið að ná með búnaðinum.

„Það er margra ára þróunarvinna að baki sem nú er að skila sér. Vinirnir fjórir sem komu saman í bílskúrnum um kvöld og helgar fyrir átta árum hafa þróað lausn á alþjóðamælikvarða sem bæði bætir umferðaröryggi og er hagræðingartæki fyrir fyrirtæki í dreifingar-, þjónustu- og byggingariðnaði og jafnvel víðar. En hugmyndin um ökurita í bíla ungmenna er enn góð og vonandi á einhver eftir að kaupa hana.“