Sérstakur Árið 1978 kostaði nýr M1 fjórum sinnum meira en dýrasta útgáfa BMW þristsins, 323i. Í dag eru þeir að minnsta kosti tíu sinnum dýrari.
Sérstakur Árið 1978 kostaði nýr M1 fjórum sinnum meira en dýrasta útgáfa BMW þristsins, 323i. Í dag eru þeir að minnsta kosti tíu sinnum dýrari.
Á haustmánuðum fyrir 30 árum síðan leit fyrsti M bíll BMW verksmiðjanna dagsins ljós á bílasýningunni í París en það var hinn nú sígildi bíll BMW M1.
Á haustmánuðum fyrir 30 árum síðan leit fyrsti M bíll BMW verksmiðjanna dagsins ljós á bílasýningunni í París en það var hinn nú sígildi bíll BMW M1.

Saga M1 bílsins er þó fremur skrautleg og markar kannski að miklu leyti endalok gamla tímans hjá BMW en fram að M1 tíðkaðist það stundum að BMW bílar væru til að mynda teiknaðir af ítölskum hönnuðum og svo var einmitt með M1 sem var teiknaður af Ítalanum Giorgetto Giugiaro.

M1 var merkisgripur og meistaraleg hönnun Giugiaro hefur staðist tímans tönn einstaklega vel. M1 var einnig fyrsti og eini bíll BMW með miðjuvél en allir alvöru ofurbílar þessa tíma þurftu að hafa vélina í miðjunni. Því var kannski ekki skrítið að BMW skyldi leita til Lamborghini þegar kom að því að setja bílana saman.

Bíllinn fékk þó aldrei að keppa nema í eigin keppnisseríu því reglunum var breytt áður en bíllinn gat keppt jafnfætis Porsche og Ferrari. Procar keppnisserían var því stofnuð fyrir M1 og þar kepptu frægir kappar eins og Nicki Lauda sem sigraði árið 1979 og Nelson Piquet sem sigraði 1980 en einnig Mario Andretti, Emerson Fittipaldi og Hans-Joachim Stuck.

Í götuútgáfu var M1 knúinn 3,5 lítra, sex strokka línuvél sem skilaði 277 hestöflum og gaf vélin þannig M1 260 km/klst hámarkshraða sem þótti ansi gott í þá daga og ofurbílahröðun. Í keppnisútgáfu voru bílarnir þó mun öflugri, 500 hestöfl eða jafnvel allt upp í þúsund hestöfl ef túrbínur voru notaðar að auki. Með slíku afli fóru M1 bílarnir léttilega yfir 320 km/klst og voru þeir því skaðræðiskvikindi í kappakstri. Bílarnir eru mjög eftirsóttir í dag enda var aðeins smíðað 451 eintak. Hjarta M1 lifir þó áfram í elstu M5 bílunum af E28 og E34 gerð en vélarnar í þeim eiga sínar ættir að rekja til M1.

BMW hyggst halda veglega upp á afmælið í ár og verður hægt að fylgjast með uppákomum á heimasíðu BMW.