Eigendur: Þrír af fjórum eigendum Dælingar. F.v. Agnar Sverrisson, Víðir Gunnarsson og Sigurbjörn Egilson en auk þess á Bólholt efh. hlut í félaginu.
Eigendur: Þrír af fjórum eigendum Dælingar. F.v. Agnar Sverrisson, Víðir Gunnarsson og Sigurbjörn Egilson en auk þess á Bólholt efh. hlut í félaginu. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is Dæling ehf. á Fljótsdalshéraði sérhæfir sig í hreinsun og ástandsgreiningu veitukerfa og hreinsun gatna og gangstétta. Dæling keypti nýverið til landsins sérhæfð tæki, þau fyrstu sinnar tegundar á Íslandi.
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur

steinunn@mbl.is

Dæling ehf. á Fljótsdalshéraði sérhæfir sig í hreinsun og ástandsgreiningu veitukerfa og hreinsun gatna og gangstétta. Dæling keypti nýverið til landsins sérhæfð tæki, þau fyrstu sinnar tegundar á Íslandi.

„Fyrst er að nefna stóran götusóp af gerðinni Schmith SK700 með 7 rúmmetra safnkassa og 2.200 lítra vatnstank,“ segir Agnar Sverrisson, framkvæmdastjóri Dælingar. „Hann er búinn þeim nýjungum að í honum er bara einn mótor. Yfirleitt eru tveir mótorar, einn sem knýr sópbúnað og annar sem keyrir sópinn áfram. Að hafa einn mótor gerir að verkum að mun minni hávaðamengun er frá honum og að sjálfsögðu helmingi minni umhverfismengun og mun betri nýting á orkugjafa, sem er dísilolía. Það eykur afköstin að kominn er stafrænn álestur á burstana, maður sér það allt inni í ökumannshúsinu hvort maður er að pressa þá of mikið niður eða ekki að koma við. Svo er hann útbúinn öllum þægindum sem hugsast getur fyrir ökumanninn, loftfjaðrandi sæti og loftkælingu. Það skiptir öllu máli í rekstri og viðhaldi á tæki að manninum líði vel, fyrir utan nú að halda starfsmanninum líka, því fyrirtækið er jú ekkert nema starfsmennirnir sem vinna í því.“

Verulega knáir en þó smáir

Dæling keypti einnig tvo nýja gangstéttasópa frá Schmith, sem heita Svingo, annar 2000 árgerð og hinn 2007. Agnar segir þá útbúna vatnsendurvinnslu, þeir endurnýti vatnið sem notað er við að rykbinda, þannig að menn séu ekki alltaf hangandi á brunahananum að taka vatn. Gangstéttarsóparnir eru með 1,8 rúmmetra safnkassa, fjórhjólastýri sem gerir þá einkar lipra, þeir eru 130 cm á breidd og geta breikkað burstana alveg út í 250 cm. Þeir eru því fjölhæf tæki og mjög afkastamikil miðað við stærð.

Agnar segir þessi tæki byltingu miðað við það sem menn hafi verið að nota hérlendis. Dæling sé fyrsta íslenska fyrirtækið til að flytja inn tæki af þessari gerð og nú séu fleiri á leið til landsins að sögn Aflvéla, sem er umboðsaðili þessara tækja.

Dæling hefur einnig keypt nýjan lítinn dælubíl, Toyotu Dina, og var smíðað á hann hjá JHL í Danmörku.

„Hann er þannig til kominn að við erum oft að keyra langt fyrir litla vinnu. Það er dýrt að keyra 26 tonna bíl til að losa eina litla stíflu og þessi bíll gerir allt sem stór dælubíll gerir, en bara minna af því og hægar. Hann er sendur í minni verkefni. Hann er þó það stór að við náum að tæma með honum rotþró, t.d. við sumarbústaði þar sem oft er erfitt að komast að; mjóir vegir og þröng hlið. Hann kemst t.d. inn í öll venjuleg bílastæðahús. Dælubíllinn er klæðskerasaumaður fyrir okkur á þann hátt að hann er mjög vel frostvarinn. Það eru tvær olíumiðstöðvar í honum. Önnur heldur dæluskápnum heitum og svo er hringkeyrt í honum vatnið og hitað þegar menn keyra á milli. Hann er útbúinn þannig að við getum tengt hann við næstu rafmagnsinnstungu. Hann getur því staðið úti á nóttunni, sem dælubílar geta yfirleitt ekki í frosti.“

Agnar segir litla dælubílinn gera að verkum að menn verði ekki eins bundnir af veðri við að þjónusta byggðirnar sem lengra séu frá. Ekki þurfi lengur að miða við að ná frostfrírri nótt ef fara eigi lengra en sem nemur einum degi.

Tækjafloti Dælingar er tveir stórir götusóparar, tveir litlir gangstéttarsópar og sjö misstórir og mismunandi útbúnir dælubílar. Einn er sérstaklega útbúinn til tæmingar á rotþróm og skilur í sundur þurrefni og vatnið. Tveir dælubílanna eru með ADR vottun til eiturefnaflutninga þannig að flytja má í þeim olíuúrgang. Nýr, vel útbúinn dælubíll leggur sig í dag á 40 til 50 milljónir króna að sögn Agnars og því miklar fjárfestingar hjá Dælingu í tækjum.

Frá Kópaskeri til Skaftafells

Dæling var stofnuð árið 2005 þegar nokkrir lykilstarfsmenn Bólholts ehf. ásamt eigendum, keyptu rekstur dælubíla og götusópa út úr Bólholti, sem í dag rekur skólphreinsistöðvar og selur, en Dæling sér um bílaútgerðina.

„Okkar helsta starfssvæði er frá Þórshöfn og suður í Skaftafell,“ segir Agnar. „Starfsmenn eru níu og hafa verið upp í 15 þegar mest er. Reksturinn er orðinn umfangsmikill og er vaxandi. Við erum einnig með starfsemi á suðvesturhorninu, erum þar með dælubíla og myndum mikið lagnir fyrir stærstu verktakana þar. Aðstaða okkar hefur verið á Hafnarbraut í Kópavogi en nú erum við að flytja í eigið húsnæði við Völuteig í Mosfellsbæ. Þar vinna þrír núna en hafa verið fimm og upp í sjö yfir sumartímann.“ Þess má geta að Dæling hefur þjónustað verktaka Kárahnjúkavirkjunar, Bechtel sem byggði álverið á Reyðarfirði og er nú með þjónustusamning við Alcoa Fjarðaál.

Verkefni Dælingar er sem fyrr segir hreinsun fráveitukerfa og myndun og ástandsgreiningu á þeim. Einnig að kanna hvort kerfin eru rétt tengd. Agnar segir að fyrir komi að hús hafi verið tengd vitlaust inn á kerfi, tvöfalt kerfi sé yfirleitt í götunum og fyrir komi að skólp sé tengt inn á regnvatnskerfi og þá komi skólplykt upp úr þakrennunum.

Agnar segir t.d. nýbúið að vinna ástandsgreiningu á öllu kerfinu á Þórshöfn og kortlagningu á því sem ekki liggi ljóst fyrir hvernig er. „Þá setjum við sendi niður í lagnirnar og eltum hann svo ofanjarðar til að finna hvernig þær liggja og hvert.“

Umhverfisvæn vinnubrögð

Agnar segir mjög hraða þróun í geiranum. „Við notum orðið engin efni. Starfsemin er mjög umhverfisvæn og við vinnum allt með vatni. Tækin sem við höfum verið að endurnýja eru öll með Euro-4 mótorum; umhverfisvænustu mótorum sem hægt er að fá í dag. Við erum með mjög skýrt mótaða umhverfisstefnu í fyrirtækinu. Erum til dæmis búnir að taka í gegn aðstöðuna okkar í Fellabæ, endurnýja allt lagnakerfi í húsinu og tengja í olíu- og sandgildrur. Hér flokkum við síur, olíumengaða klúta, pappír, kaffistofusorp og grófúrgang af verkstæði.“

Á Austurlandi er Dæling mikið í gatna- og gangstéttasópun og hreinsun á bæjarfélögunum og aðstöðu fyrirtækja og einstaklinga. Hreinsun gatna og gangstétta er umfangsmikil vinna og vaxandi. Agnar segir menn farna að sópa oftar til að losna við svifryk. Dæling hefur sópað frá Kópaskeri í Skaftafell. Hreinsun af gangstéttum og götum er yfirleitt möl og ryk og fer á næsta efnistipp og nýtist þar. Efni úr rotþróm og fitugildrum er urðað við Egilsstaði, í Vopnafirði og í Lóni. Olíuúrgangur fer í safntanka. „Þegar við hreinsum upp olíu eftir óhöpp t.d., sem er drulla í, eigum við alltaf möguleika á að fleyta olíunni ofan af úr bílunum til að skilja þetta í sundur.“

Dót getur dottið ofan í hella

Fyrirtækið vinnur því eftir mjög ströngum umhverfis- og gæðakröfum. „Við fylgjumst mjög grannt með öllum nýjungum og munum að sjálfsögðu bera okkur eftir þeim eins fljótt og við getum. Þróunin í lagnamyndunarbúnaði er t.a.m. ör. Um er að ræða dýran hátæknibúnað. Við höfum lent í að missa búnað, t.d. undir þjóðvegi 1 í Borgarnesi milli Olís og Hyrnunnar. Þar misstum við myndavél ofan í helli sem hafði myndast undir veginum. Það var ekkert um annað að ræða en að loka þjóðveginum og fara að grafa. Í lagnamyndunarbúnaði er staðsetningartæki svo við getum alltaf elt hann uppi. Stærsti traktorinn sem flytur myndavélina með öllum aukabúnaði kostar eins og nýr Nissan Patrol jeppi. Þessu hendir maður inn í næstu skólplögn!“

Að sögn Agnars er útlit fyrir vaxandi markað fyrir þjónustu fyrirtækisins. „Meiri kröfur eru orðnar um alla losun á úrgangi, sem þýðir að meiri möguleikar eru í þessu. Almenn vakning hjá fólki í umhverfismálum, hertar reglur hins opinbera og meira eftirlit kallar allt á aukin verkefni.“