Á lagerum, verkstæðum, verslunum og í vörubílum má finna brettatjakka sem eru nauðsynlegir til þess að flytja stór og þung vörubretti á milli staða en eins eru brettatjakkar mikið notaðir við affermingar á flutningabílum þar sem lyftarar eru ekki til...
Á lagerum, verkstæðum, verslunum og í vörubílum má finna brettatjakka sem eru nauðsynlegir til þess að flytja stór og þung vörubretti á milli staða en eins eru brettatjakkar mikið notaðir við affermingar á flutningabílum þar sem lyftarar eru ekki til staðar.

Tjakkar þessir eru fremur háværir og í umhverfi þar sem sífellt meiri kröfur eru gerðar um góða vinnuaðstöðu getur skipt miklu máli að draga úr umhverfishljóðum. Sömuleiðis má telja líklegt að viðskiptavinir kunni að meta hljóðláta brettatjakka sem ekki æra starfsmenn og viðskiptavini með óhljóðum þegar flytja þarf vörubretti.

Það virðist vera komin lausn á hávaðavandamálinu ef marka má Logitrans-fyrirtækið en fyrirtækið hefur kynnt til sögunnar brettatjakk sem er að þeirra sögn svo hljóðlátur að engin ætti að verða fyrir óþægindum af tjakknum – í það minnsta hvað hávaða varðar.

Lyftibúnaðurinn sjálfur er afar hljóðlátur en fyrst og fremst eru það hjól tjakksins sem geta dregið úr miklum hávaða sem annars verður til þegar þungt vörubretti er dregið um verslunar- eða lagergólf. Hjólin eru úr sérstakri gúmmíblöndu og því heyrist mjög lítið þegar tjakkurinn er dreginn og því kannski að ekki ástæðulausu sem tjakkurinn fékk heitið Panther Silent.