Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið hækkun á heildsöluverði á mjólk og mjólkurafurðum. Hækkunin nemur 14,6 prósentum og tekur hún gildi 1. apríl næstkomandi. Afurðastöðvaverð til bænda mun hækka um rúmar 14 krónur á mjólkurlítra og verður þá 64 krónur.
Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið hækkun á heildsöluverði á mjólk og mjólkurafurðum. Hækkunin nemur 14,6 prósentum og tekur hún gildi 1. apríl næstkomandi. Afurðastöðvaverð til bænda mun hækka um rúmar 14 krónur á mjólkurlítra og verður þá 64 krónur. Gera má ráð fyrir að verð á lítra af nýmjólk verði nálægt 100 krónum út úr búð eftir breytingu. Ástæða verðhækkunarinnar er hækkun á kostnaðarliðum bænda, einkum áburði og kjarnfóðri, auk hærri fjármagnskostnaðar vegna vaxtahækkana.

Verðlagsnefnd búvara ákvarðar verð á mjólk, rjóma, undanrennu, hreinu skyri, smjöri, osti og mjólkurdufti. Frjáls verðlagning er á öðrum mjólkurafurðum og sömuleiðis er smásöluálagning frjáls. Að sögn Magnúsar Ólafssonar, forstjóra Mjólkursamsölunnar, munu aðrar mjólkurafurðir hækka til samræmis við ákvörðun verðlagsnefndarinnar og á sama tíma.

Einboðin hækkun

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að hækkunin hafi verið einboðin. „Það er ljóst að miðað við þær forsendur sem nú eru uppi þá varð að hækka mjólkurverð til bænda. Ég er ágætlega sáttur við niðurstöðuna. Það er ekkert gamanmál að þurfa að hækka svona mikið en ég minni á að síðustu ár hefur ekki orðið raunhækkun á mjólk til neytenda samanborið við almennt verðlag. Síðustu 15 ár hefur almennt verðlag hækkað um ca. 90 prósent en verð á mjólk hefur hækkað um ca. 40 prósent.“

Fulltrúi ASÍ í nefndinni sat hjá við atkvæðagreiðsluna þar sem hann taldi sig ekki geta staðið að hækkun vaxtaliðar verðákvörðunarinnar. Óeðlilegt væri að ein stétt fengi leiðréttingu á vaxtakostnaði umfram aðrar. freyr@24stundir.is