Nýverið festi verktakafyrirtækið Klæðning ehf. kaup á færanlegri þvottastöð til þess að skola undirvagna flutningabíla sinna. Héðan í frá munu undirvagnar allra bíla Klæðningar ehf. vera þvegnir áður en þeim er ekið út af framkvæmdasvæðum fyrirtækisins.
Nýverið festi verktakafyrirtækið Klæðning ehf. kaup á færanlegri þvottastöð til þess að skola undirvagna flutningabíla sinna. Héðan í frá munu undirvagnar allra bíla Klæðningar ehf. vera þvegnir áður en þeim er ekið út af framkvæmdasvæðum fyrirtækisins. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að þetta sé þáttur í að tryggja að öll starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við íbúa og vegfarendur á starfsstöðvum fyrirtækisins.

Búnaðurinn er tiltölulega einfaldur að gerð og er flutningabílunum ekið í gegnum þvottastöðina, sem er á stórri kerru, um leið og þeir fara af framkvæmdasvæðum þar sem mikið er um drullu og aur. Með þessu móti er dregið verulega úr sóðaskap stórra bíla á vegum fyrirtækisins.

„Flutningabílarnir flytja óhjákvæmilega með sér gríðarlegt magn af mold og möl af framkvæmdasvæðum út á malbikið og magnið eykst margfalt í rigningartíð enda loðir blaut drullan við bílana,“ segir Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðningar. „Við höfum lengi haft hug á því að reyna að koma í veg fyrir þessi óþrif og kosturinn við þetta þvottakerfi er hvað það er einfalt í notkun, auðvelt að flytja það til og vinnan með því er í algjöru lágmarki. Með þessu komum við í veg fyrir að bílarnir beri með sér óhreinindi af framkvæmdasvæðunum og út á götur í nágrenninu.“

Einfalt en áhrifaríkt

Þvottakerfinu, sem er af gerðinni MobyDick Quick 400 G, er komið fyrir á um fjögurra metra langri kerru, heldur breiðari en flutningabíll. Frá hliðum kerrunnar er vatni sprautað undir miklum þrýstingi og við það losnar um drullu á dekkjum og undirvagni. Hún fellur niður í gegnum grindur á gólfi kerrunnar og rennur þaðan með vatninu í söfnunartankinn við hliðina. Föstu efnin setjast á botn tanksins en vatnið er endurnýtt aftur og aftur. Mjög auðvelt og fljótlegt er að tæma söfnunartankinn og er t.d. hægt að nota litla gröfu við verkið.

„Þvottastöðin virkar mjög vel,“ segir Karl Helgi Jónsson, yfirverkstjóri Klæðningar á höfuðborgarsvæðinu. „Það er óhætt að segja að hún uppfylli allar okkar væntingar. Stöðin þrífur óhreinindin mjög vel undan bílunum og af dekkjunum enda er krafturinn á vatninu mjög mikill. Við höfum verið að læra á stöðina og núna er hún stillt þannig að það tekur ekki nema tuttugu sekúndur að þrífa hvern bíl. Vatnstankurinn í bílaþvottastöðinni tekur 8.000 lítra og endist það magn í þvott á tvö hundruð bílum.“