Fjölbreytilegur „Fallegur púðluhundur, Loðvík XIV og ég; þetta er allt skylt,“ segir Helgi Þorgils og vonast til að aðrir sjái sjálfa sig í verkunum.
Fjölbreytilegur „Fallegur púðluhundur, Loðvík XIV og ég; þetta er allt skylt,“ segir Helgi Þorgils og vonast til að aðrir sjái sjálfa sig í verkunum. — Morgunblaðið/Einar Falur
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is Á FYRSTU sýningunum mínum, þar sem ég valdi alveg sjálfur hvað ég sýndi, voru yfirleitt allir miðlarnir, málverk, teikningar og skúlptúrar,“ segir Helgi Þorgils Friðjónsson myndlistarmaður. Í dag klukkan 17.
Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

Á FYRSTU sýningunum mínum, þar sem ég valdi alveg sjálfur hvað ég sýndi, voru yfirleitt allir miðlarnir, málverk, teikningar og skúlptúrar,“ segir Helgi Þorgils Friðjónsson myndlistarmaður. Í dag klukkan 17.00 opnar hann sýningu í Gallery Turpentine við Ingólfsstræti með verkum unnum í þessa þrjá miðla. Teikningarnar eru úr teiknidagbók sem tengist fréttum og hversdaglegum uppákomum; í einum skúltúranna birtist sjálfsmynd listamannsins sem Loðvík fjórtándi; þá eru nokkur málverk, eitt fjallar um snúning veraldar, önnur eru með spegluðum ásjónum manns og dýra og loks röð portretta.

Helgi Þorgils hefur stillt hópum teikninga upp á nokkrum stöðum í galleríinu. Sumar eru pennateikningar, aðrar unnar með vatnslitum; þær eru gerðar á allrahanda pappír, jafnvel umslög og boðskort.

„Oftast sýni ég fyrstu teikninguna af nokkrum sem ég geri af sama þemanu, sem endar oft í málverki. Þessar fyrstu myndir eru oft léttar og tengdar einhverju sem ég upplifi eða heyri, til dæmis í útvarpinu. Svo eru aðrar sem ég hef gert fimm eða tíu útfærslur að, áður en vatnslitamyndin sem ég sýni verður til.

Stundum fletti ég bók á morgnana og það verður kveikja að myndum. Ég byrja oft vinnudaginn á því að teikna.“

Þetta er allt skylt

– Og þú teiknar á það sem hendi er næst; umslög, gluggapóst, boðskort.

„Ég reyni að vinna á vandaðan sýrufrían pappír en gríp svo oft í hitt. Eitthvað sem stendur á boðskorti eða umslagi getur kveikt hugmynd. Oft er þetta efniskennd sem ég laðast að, því þótt pappírinn kunni að vera lítilfjörlegur í sjálfum sér þá verður hann eins og malerí.“

– Myndheimarnir hér kallast á þó úrvinnslan sé ólík.

„Já. Fyrir nokkru sýndi ég í Statens Museum í Kaupmannahöfn og þar var meðal annars teikning af Loðvíki XIV. Hún seldist og mig langaði að gera Loðvík aftur. Það endaði í skúlptúr.

Þetta er í annað sinn sem ég fer í barrok í skúlptúr, en á mínum uppvaxtarárum í listinni var það alveg forboðið. Fyrst gerði ég hund með miklu flúri sem ég sýndi í Listasafninu á Akureyri. Við gerð hans plægði ég í gegnum bækur um gamalt postulín til að finna taktinn, hann var allur skreyttur með blómum.

Það sama gerðist með þetta verk.“

– ... nema þarna er ekki hundur heldur þú sem Loðvík XIV.

Helgi hlær. „Fallegur púðluhundur, Loðvík og ég; þetta er allt skylt.

Þarna er líka málverk málað eftir verki Dürers. Yfirleitt þegar Dürer málar Jesúm Krist þá er það sjálfsmynd. Svo ég tók mynd þar sem hann var búinn að mála sjálfan sig sem Jesúm og setti portrett af mér sjálfum inn í það.“

– Þú ferð oft nærri sjálfum þér í þessum verkum.

„Það er augljóst. Um leið lít ég á mig sem hverja aðra manneskju og vona að aðrir sjái sjálfa sig í verkunum.

Ákveðnar tilvistarspurningar eru gegnumgangandi í verkum mínum – þetta hverfist allt um eitthvað sem er á því svæði.“

– Einskonar persónulegur existensíalismi?

„Já. Ég hef hrifist af Kierkegaard, kannski má sjá eitthvað sem tengist honum þegar verk mín eru skoðuð aftur í tímann; hæfilegt kæruleysi og þungi á sama tíma. Það finnst mér freistandi.“

Í mörgum verkanna birtist eins konar jafnræði með mönnum og dýrum. Helgi segir þessar hugmyndir hafa þróast með sér allar götur síðan á skólaárunum.

„Í þessum hugmyndum um jafnræði einangrast persónurnar nokkuð, það er eins og hver hafi sitt sérstaka rými um leið og hann er hluti af einhverju stærra.“

Spurt um ætt og uppruna

Röð af máluðum portrettum tekur á móti gestum. Helgi hefur áður tekist á við portrett og hélt um árið sýningu á þeim í Galleríi Sævars Karls.

„Ég fer betur með módelin en mig í verkunum,“ segir hann og brosir. „Þegar ég byrjaði að mála portrett var þetta nánast dautt form innan myndlistar og þótti afskaplega borgaralegt. Ég vildi reyna að gera eitthvað áhugavert með formið, án þess að bjaga myndina eða gera hana að einhverju öðru. Ég vildi vera heiðarlegur gagnvart hefðinni. Fólk virðist oft hrífast af þessum verkum og þá sérstaklega erlendis. Hér spyrja allir um ætt og uppruna módelsins meðan fólki erlendis þykir viðfangsefnið einfaldlega athyglisvert.“