Sorg Morðið er ekki talið tengjast barnamorðunum í Arboga um miðjan mánuðinn.
Sorg Morðið er ekki talið tengjast barnamorðunum í Arboga um miðjan mánuðinn. — NordicPhotos/AFP
Eftir Atla Ísleifsson atlii@24stundir.is Annað barnamorðmál skekur nú sænskt þjóðfélag, eftir að móðir og fimm ára dóttir hennar fundust myrtar á heimili sínu í smábænum Lisjö, nærri Surahammar í miðhluta Svíþjóðar, í gærmorgun.
Eftir Atla Ísleifsson

atlii@24stundir.is

Annað barnamorðmál skekur nú sænskt þjóðfélag, eftir að móðir og fimm ára dóttir hennar fundust myrtar á heimili sínu í smábænum Lisjö, nærri Surahammar í miðhluta Svíþjóðar, í gærmorgun. Lögregla handtók mann á heimilinu og hefur hann viðurkennt að hafa verið valdur að dauða mæðgnanna. Lisjö er skammt frá bænum Arboga, þar sem eins og þriggja ára börn voru myrt í síðustu viku og móðir þeirra særð alvarlega. Að sögn lögreglu eru ekki talin vera tengsl á milli málanna.

Sambýlismaður konunnar

Lögreglu barst tilkynning í gærmorgun um að „eitthvað hryllilegt“ hefði átt sér stað í húsinu í Lisjö. Þegar þangað var komið fundust mæðgurnar í blóði sínu, látnar. 31 árs sambýlismaður konunnar fannst lítið særður í húsinu og var hann tekinn til yfirheyrslu þar sem hann játaði á sig verknaðinn. Lögregla vildi ekki staðfesta hvort maðurinn hefði sjálfur tilkynnt um atburðinn eða hvort hann hefði reynt að stytta sér aldur. Heimildir TT-fréttastofunnar greina frá því að mægðurnar hafi látist af völdum stungusára eftir hníf, en lögregla vildi hvorki játa því né neita.

Lögregla í Västmanland á enn fullt í fangi með rannsókn morðanna í Arboga í síðustu viku og hefur nú beðið um aðstoð frá lögregunni í Uppsölum. „Það er alveg óskiljanlegt að við höfum lent í því að þurfa að fást við annað morð af þessu tagi,“ segir talsmaður lögreglunnar á staðnum.

Nágrannar í losti

Íbúar Lisjö eru í sjokki eftir að fréttirnar bárust af morðinu í gær. „Þetta er óraunverulegt fyrir okkur sem búum hérna. Ekki er langt liðið frá þessum skelfilegu morðum í Arboga, sem er ekki langt í burtu,“ segir nágranninn Gunhild Berglund í samtali við Dagens Nyheter.

Alls búa milli 70 og 80 manns í Lisjö og er nokkuð langt milli húsa. Fáir íbúar bæjarins segjast hafa kynnst fjölskyldunni sem hafði sest þar að fyrir um hálfu ári.

Gengur enn laus

Lisjö er einungis um 40 kílómetra frá Arboga, en morðingi barnanna sem þar voru myrt í síðustu viku gengur enn laus. 31 árs þýsk kona er enn grunuð um verknaðinn og er beðið eftir niðurstöðum DNA-rannsóknar sem vonast er til að sýni fram á að konan hafi verið stödd á heimili fórnarlambanna umræddan dag.

Jerzy Sarnecki, prófessor í afbrotafræði við Stokkhólmsháskóla, segir í samtali við Expressen, að ekki sé útilokað að morðinginn í Lisjö hafi hermt eftir morðunum í Arboga. „Mál sem fá mikla fjölmiðlaumfjöllun geta auðveldlega veitt andlega vanheilum manneskjum innblástur. Það er andstyggilegt að við verðum vitni að svipuðu svo skömmu eftir fyrri morðin.“

Í hnotskurn
Um 240 morð eða árásir sem ollu dauða voru framin í Svíþjóð og tilkynnt til lögreglu árið 2005. Í um 70 prósentum tilfella þekktust árásarmaður og fórnarlamb.