Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is BAKKAFJÖRUHÖFN, sem nú er oft nefnd Landeyjahöfn og mun þjóna samgöngum til Vestmannaeyja, verður alfarið byggð af ríkinu og í eigu þess, svokölluð landshöfn ef af verður, samkvæmt heimildum.
Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

BAKKAFJÖRUHÖFN, sem nú er oft nefnd Landeyjahöfn og mun þjóna samgöngum til Vestmannaeyja, verður alfarið byggð af ríkinu og í eigu þess, svokölluð landshöfn ef af verður, samkvæmt heimildum. Frumvarp samgönguráðherra um höfnina er þess efnis og hefur fengið samþykki í ríkisstjórn. Þessa dagana er verið að kynna það stjórnarþingmönnum og verður væntanlega lagt fyrir Alþingi að því loknu. Sem stendur er engin höfn á landinu landshöfn, og hefur svo verið síðan um 1990, þegar þrjár landshafnir voru afhentar sveitarfélögum til umsjónar og reksturs.

Samkvæmt þessu er útséð um að Landeyjahöfn verði í eigu opinbers hlutafélags milli Vestmannaeyjabæjar og Rangárþings eystra, eins og samningaviðræður höfðu staðið um. Þær viðræður sigldu í strand eftir að hafa staðið í um ár, að því er virðist vegna hagsmunaárekstra milli sveitarfélaganna tveggja. Annars vegar Rangárþings eystra sem sér aðra nýtingarmöguleika í höfninni en ferjusiglingar, til langs tíma litið, og hins vegar Vestmannaeyjabæjar sem ekki vill að sín höfn lendi í samkeppni við nálæga höfn, sem alfarið sé kostuð af ríkinu. Þá hefur bæjarráð Vestmannaeyja lýst yfir andstöðu við frumvarpsdrögin sem ráðherra kynnti nýverið.

Enn efasemdir um Bakkafjöru almennt

Í gær birtist grein eftir Magnús Kristinsson, útgerðarmann í Vestmannaeyjum, undir yfirskriftinni „Ströndum ekki í Bakkafjöru“ á vefsíðunni sudurlandid.is. Þar lýsir Magnús miklum efasemdum um að hagsmunum Eyjamanna sé best borgið með byggingu Landeyjahafnar. Nær sé að byggja stórskipahöfn í Vestmannaeyjum og fá nýjan og hraðskreiðari Herjólf sem sigli áfram til Þorlákshafnar, þar sem þjónusta sé fyrir. Samgönguleiðir eigi að miðast við Reykjavík.

Í samtali við Morgunblaðið segir Magnús ekki víst að framkvæmdin sé möguleg, og í öðru lagi að ekki sé ljóst hver verði hagsmunagæsluaðili hafnarinnar. „Verði það ekki eyjarnar eru menn búnir að missa tögl og hagldir á höfn hér rétt hjá okkur. Það gæti orðið banabiti eyjanna,“ segir Magnús og horfir þá til langs tíma. „Það er frumskilyrði að Vestmannaeyingar hafi yfirráð yfir höfninni ef þetta verður niðurstaðan. En það breytir því ekki að um leið og menn samþykkja þróun á henni og skip fara að landa þar er búið að missa þjónustuna frá eyjunum,“ segir hann.

Í hnotskurn
» Eyjamenn buðu Rangæingum að eiga 40% í opinberu hlutafélagi á móti 60% hlut sínum, með jafnmarga stjórnarmenn og jafna skiptingu stjórnarformennsku.
» Skilyrðið var að aldrei yrði tekin ákvörðun um frekari útfærslu eða þróun hafnarinnar án samþykkis beggja sveitarfélaga.
» Sveitarstjóri Rangárþings eystra segir eftirspurn eftir frekari aðstöðu við höfnina.