Ása Guðrún Kristjánsdóttir fæddist á Innra-Ósi í Strandasýslu 17. júní 1917. Hún lést á Elliheimilinu Grund 14. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Kristján Hinrik Þórðarson, f. 1874, d. 1920 og Sigurlína Kolbeinsdóttir, f. 1880, d. 1970. Systkini Ásu voru: Guðmundína Þórunn, f. 1903, d. 1983, Sigvaldi, f. 1909, d. 1996, og Hinrika Kristjana, f. 1920.

Ása giftist 27. maí 1944 Haraldi Þórðarsyni, frá Efri-Brunná í Dalasýslu, f. 2. nóv. 1916. Þau eignuðust 3 börn, þau eru: 1) Kristján Þór, f. 1943, maki Margrét Ólöf Björnsdóttir, f. 1945, þau eiga 3 börn, Ásu Guðrúnu, f. 1970, sonur hennar er Ólafur Cesarsson, f. 2000, Ólöfu Birnu, f. 1975, maki Marius Midtvik, f. 1970, dóttir þeirra er Lína Margrét, f. 2005, og Matthías, f. 1977, maki Snæfríður Ingadóttir, f. 1973 , dóttir, f. 20. mars 2008. 3) Sigurbjörg Sjöfn, f. 1944, maki Jón Hannes Helgason, f. 1942. 3) Þórlaug, f. 1950, maki Michael Hübl, f. 1955, sonur þeirra er Frederik, f. 1994.

Ása missti föður sinn mjög ung og á unglingsárum dvaldi hún á Hrófá í Strandasýslu hjá hjónunum Þorgeiri Þorgeirssyni og Stefaníu Jónsdóttur. Ása og Haraldur bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík.

Ása verður jarðsungin frá Áskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Ása var móðir og hún var meira en það: Hún var fjölskyldumóðir – í líkingu við fjölskylduföður, pater familias, eins og Rómverjar kölluðu það. Hún var fjölskyldumóðir, sem hugsar ekki einungis um sig og sitt barn, í öllum sínum áformum og málum, heldur tekur tillit til allrar fjölskyldunnar í heild – þannig hugsaði Ása um sína fjölskyldu. Að allt gengi vel og væri í bestu skorðum, var sterk og lifandi þörf hjá Ásu. Þessi þörf var ekki eingöngu helguð nánasta fjölskylduhópnum. Þörfin að halda fjölskyldunni saman var alla tíð hennar ósk og hyggja. Heimili Ásu og Haraldar var skjólið, sem allir gátu komið í. Enginn gestur fór úr því húsi án þess að njóta gestrisni hennar. En það var ekki eingöngu heimilið, það var Ása sjálf sem persóna, sem myndaði miðpunkt fjölskyldunnar, fyrir alla þá, sem henni voru skyldir og nánir og henni þótti vænt um og hennar hugur var hjá. Þessi umhyggja fyrir öðrum breyttist ekki, þrátt fyrir mikil veikindi síðustu árin. Liðin tíð var jafn nær Ásu og framtíðin: Hún geymdi minningar um vini og ættingja frá heimaslóðum og henni var annt um að fá fréttir af barna- og barnabörn, sem sum hver eru búsett erlendis. Hún óskaði þess, að allt sem snerti hennar fjölskyldu væri í öruggum farvegi. Um þetta snerust flestar hennar hugsanir. Hlýjan í augnaráði hennar sagði okkur, hversu mikil vinsemd og einlægni bjó í hennar hjarta.

Það er okkur ógleymanlegt.

Michael Hübl.

Með söknuði og þakklæti í huga kveð ég föðurömmu mína sem gaf mér svo margt. Minning hennar lifir.

Ég lít í anda liðna tíð,

er leynt í hjarta geymi.

Sú ljúfa minning – létt og hljótt

hún læðist til mín dag og nótt,

svo aldrei, aldrei gleymi...

(Halla Eyjólfsdóttir.)

Ólöf Birna Kristjánsdóttir.

Ég vil minnast ömmu minnar og alnöfnu með nokkrum orðum. Sem barn var ég mikið hjá ömmu. Þau afi voru á þeim tíma nýflutt í Eikjuvoginn, hús sem afi byggði. Amma sinnti húsmóðurhlutverkinu af alúð og tók alltaf vel á móti gestum, bæði litlum og stórum. Hún hafði gaman af að dekka borð og skreyta fallega með blómum úr garðinum. Við áttum margar góðar stundir saman og amma gaf sér alltaf tíma til að tala við mig. Ég lærði margt af ömmu og ég verð alltaf þakklát fyrir þá hlýju og ást sem hún gaf mér.

Í sál minni ógleymd á ég

að eilífu brosin þín.

Þau grafast ei, þó ég gráti,

– geisli þar yfir skín.

(Hulda)

Ása Guðrún Kristjánsdóttir.

Kveðja senn ár

og ókomnir dagar

að mér víkja,

er ekkert betra

en eiga vini

sem aldrei svíkja.

(Höf. ók.)

Þessar ljóðlínur koma í huga mér, er ég kveð mína kæru vinu, Ásu Guðrúnu Kristjánsdóttur, sem nú hefur lagt í sína hinztu för. Það er gæfa mín og gleði að hafa átt vináttu hennar, fagra og fölskvalausa alla mína tíð.

Minningarnar eru ófáar, samverustundirnar svo ótal margar, stundum af litlu tilefni, stundum stóru, stundum engu. Allar eru þær umluktar heiðríkju, gleði og sannri vináttu. Móttökurnar ætíð höfðinglegar, faðmlagið hlýtt og handtakið þétt. Dillandi hlátur hennar umlykur allt, svo jafnvel blómin brosa. Öll hennar verk unnin af einstakri vandvirkni, hógværð og alúð. Stolt af sínu og sínum og mátti svo sannarlega vera það. Fyrirmynd í svo mörgu, sem mér þótti óendanlega vænt um.

Á kveðjustund er margs að minnast og margt að þakka. Ég þakka henni gjafmildi og góðmennsku mér og mínum til handa. Ég þakka heilræðin öll, hvatninguna, hrósið, já hamingjudagana alla í þá góðu hálfu öld sem við áttum samleið.

Elsku Haraldi, börnum þeirra, Kristjáni, Sigurbjörgu og Þórlaugu, svo og ástvinum öllum votta ég mína dýpstu samúð. Góður Guð blessi minningu elsku Ásu.

Henni, sem alltaf var svo falleg, fáguð og fín óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu, hana á hún vísa.

Hjartans, hjartans þakkir, voru ávallt orðin hennar þegar við kvöddumst. Þau vil ég gera að mínum nú þegar ég kveð hana í hinzta sinn.

Hjartans, hjartans þakkir.

Ásthildur.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Þegar ég hugsa um ömmu Ásu, hugsa ég ekki um hana sem veikburða konu á hjúkrunarheimilinu. Ég hugsa um hana sem glaða og hressa ömmu Ásu eins og hún var alltaf heima hjá sér. En eitt var alltaf óbreytt: gjafmildi hennar og ástúð í garð annarra.

Frederik Hübl.