Mótmæli Tíbetskir munkar umkringdu erlenda fréttamenn og ítrekuðu frelsiskröfu Tíbeta.
Mótmæli Tíbetskir munkar umkringdu erlenda fréttamenn og ítrekuðu frelsiskröfu Tíbeta. — Reuters
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

NICOLAS Sarkozy, forseti Frakklands, sagði í opinberri heimsókn sinni í Bretlandi í gær að hann myndi inna leiðtoga ESB-landanna eftir því hvort þeir hygðust sniðganga opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Kína í sumar. Fundur forsætisráðherra ESB-ríkjanna hefst í Slóveníu í dag og verða málefni Tíbets meðal þess sem tekið verður til umræðu.

Með ummælum Sarkozy eykst alþjóðlegur þrýstingur á yfirvöld í Kína vegna þess hvernig þau hafa tekið á uppreisn Tíbeta undanfarnar vikur. Talsmenn Hvíta hússins hafa staðfest að George W. Bush hafi hringt í forseta Kína til að ýta undir viðræður við Dalai Lama, andlegan leiðtoga Tíbets.

Kínversk yfirvöld buðu fámennum hópi fréttamanna í þriggja daga heimsókn til Lhasa, höfuðborgar Tíbets á miðvikudag. Það var í fyrsta sinn sem erlendum fréttamönnum var hleypt inn í landið eftir mótmælin og var heimsóknin hugsuð til að sýna að öldur hefði lægt. Er fréttamenn voru staddir í einu heilagasta hofi Tíbeta ruddust hinsvegar um 30 tíbetskir munkar inn og hófu að hrópa mótmælaorð og þykir uppákoman hin vandræðalegasta fyrir kínversk stjórnvöld.

Samskipti Kína og Indlands viðkvæm

Í indverska dagblaðinu The Times of India segir að viðskiptaráðherra Indlands hafi aflýst för sinni til Kína sem fyrirhuguð var 1. apríl. Það hafi hann gert í mótmælaskyni við að kínverska utanríkisráðuneytið kallaði indverska sendiherrann í Peking á sinn fund um miðja nótt, til að finna að mótmælum Tíbeta á Indlandi. Samkvæmt AFP -fréttastofunni segir ráðherrann, Kamal Nath, ákvörðun sína ekki tengjast málefnum Tíbets.

Tíbet liggur á milli Kína og Indlands og er Dalai Lama í útlegð á Indlandi auk a.m.k. 100.000 annarra Tíbeta. Indversk stjórnvöld hafa lítið tjáð sig um átökin í Tíbet og hefur Dalai Lama sagt stefnu þeirra vera í meira lagi varfærnislega.