Breytingar Starfsfólki hefur nú verið fækkað og framleiðslunni breytt í mjólkurstöð MS á Egilsstöðum. Þar fer framvegis öll mjólk í mosarellaost.
Breytingar Starfsfólki hefur nú verið fækkað og framleiðslunni breytt í mjólkurstöð MS á Egilsstöðum. Þar fer framvegis öll mjólk í mosarellaost. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is Egilsstaðir | Í dag er í síðasta skiptið pakkað mjólk í mjólkurstöð MS á Egilsstöðum. Umtalsverðar breytingar verða nú á starfseminni þar.
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur

steinunn@mbl.is

Egilsstaðir | Í dag er í síðasta skiptið pakkað mjólk í mjólkurstöð MS á Egilsstöðum. Umtalsverðar breytingar verða nú á starfseminni þar.

„Það stefnir í síðasta mjólkurpökkunin hér verði í dag“ segir Guttormur Metusalemsson, vinnslustjóri MS á Egilsstöðum. „Nú fer öll pökkun og tiltekt á vörum í pantanir til Akureyrar. Allir þeir sem panta vörur gera það á Akureyri og þær verða teknar til þar og fluttar austur.“

Guttormur segir að pakkað hafi verið að meðaltali á milli fimm og sjö tonnum af mjólk á dag, einkum nýmjólk, léttmjólk og undanrennu. Öll sérvara, t.d. jógúrt, hefur verið pakkað á Selfossi og víðar, þar teknar til pantanir og ekið á Austurland þar sem þær hafa verið afgreiddar út frá Egilsstöðum. Framvegis verður þetta gert á Akureyri.

Öll mjólkin í mosarellaost

„Nú verður einungis um ostaframleiðslu að ræða hér hjá okkur og einnig munum við sjá um dreifinguna á Austurlandi. Hingað á að koma bíll fimm daga vikunnar með vörur frá Akureyri, vörurnar verða svo fluttar á milli bíla og þeim dreift um fjórðunginn, að mestu leyti eins og verið hefur.“

Mosarellaostur verður framvegis framleiddur úr allri þeirri mjólk sem af Austurlandi kemur, þ.e. af svæðinu frá Vopnafirði til Berufjarðar, en það eru hátt í fimm milljónir lítra á ári. Söfnun á mjólk af þessu svæði verður með sama hætti og áður. Mjólk frá Höfn og því svæði er sótt frá Selfossi.

Í mjólkurstöð MS á Egilsstöðum verða nú átta starfsmenn. Líklega þarf þó að bæta einum mjólkurbílstjóra við þann mannskap, þar sem bíllinn sem ekur milli Akureyrar og Egilsstaða verður gerður út frá Egilsstöðum. Þrír af þeim sex starfsmönnum sem sagt var upp störfum fyrir áramót eru hættir og hinir þrír hætta nú um mánaðarmótin.

„Þetta breytir auðvitað talsverðu hjá okkur hér á Egilsstöðum og maður áttar sig ekki alveg á hvaða vinna verður í kringum dreifinguna. Þá minnkar stórlega það rými sem við notum í húsnæði mjólkurstöðvarinnar. Ekki hef ég heyrt neinar hugmyndir um að nýta afganginn af húsnæðinu í annað tengt mjólkurvinnslu en eitthvað hefur verið talað um að leigja út umframhúsnæðið. Slíkt yrði algerlega að aðskilja frá okkar starfsemi,“ segir Guttormur.

Starfsmenn hafa miklar efasemdir um þá hagræðingu sem á að verða í kjölfar breytinganna á Egilsstöðum. Þeir hafa gert tillögur um viðbótarhagræðingu sem minnka myndi akstur um allt að 130 þúsund km árlega en þær ekki hlotið hljómgrunn hjá yfirstjórn MS.