Ásgeir Bogi Arngrímsson fór í fimm daga hjólreiðaferð um Álandseyjar fyrir tveimur árum en hann fékk ferðina í fermingargjöf. Hann viðurkennir að vera hjólagarpur og segir ferðina hafa verið yndislega.
Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@24stundir.is

Ásgeir Bogi Arngrímsson bjóst ekki við að fá hjólreiðaferð um Álandseyjar í fermingargjöf fyrir tveimur árum en var engu að síður mjög sáttur við gjöfina. „Ég hafði ekki beðið um utanlandsferð og þetta var því óvænt ánægja. Stuttu síðar fórum við, ég og mamma, Sesselja Traustadóttir, í fimm daga hjólreiðaferð um Álandseyjar. Við hjóluðum hring sem innfæddir kalla fasta Åland en það er hringur í kringum stærstu eyjarnar á Álandseyjum,“ segir Ásgeir sem hjólar töluvert. „Fjölskyldan er öll mjög miklir hjólagarpar og til dæmis hjóluðum við frá Passau til Vínar í fyrra. Svo hjóla ég oft á æfingar og annað þess háttar.“

Hjóluðum nokkra tíma á dag

Aðspurður hvort hann hafi tekið sitt eigið hjól með í ferðina segist Ásgeir ekki hafa gert það. „Við vorum að hugsa um að taka okkar hjól með en svo var það svo dýrt að það borgaði sig fyrir okkur að taka hjól á leigu. Við hjóluðum hægt og rólega í nokkra tíma á dag, yfirleitt lögðum við af stað um tíuleytið og komum seinnipartinn með nokkrum stoppum. Við vorum búin að panta gistingar á nokkrum stöðum fyrirfram og vorum því búin að ákveða áfangastaði og komustaði á hverjum degi. En annars höfðum við þetta mjög frjálslegt og stoppuðum þegar og þar sem við vildum.“

Aumur í rassinum

Þrátt fyrir að hjóla töluvert hvern dag segist Ásgeir ekki hafa fengið harðsperrur. „Hins vegar var ég frekar slæmur í rassinum eftir fyrsta daginn. Ég mæli með því að taka sinn eigin hnakk með í svona ferð því það tekur smá tíma að venjast nýja hnakkinum. Annars var ég stundum örlítið þreyttur í löppunum á kvöldin en það var aðallega rassinn sem var slæmur. Það var reyndar mestmegnis fyrsta daginn og síðan lagaðist það mikið,“ segir Ásgeir sem hvetur alla til að fara í svona ferð. „Þetta er alveg hiklaust eitthvað sem fleiri ættu að gera enda allt öðruvísi ferðalag en að fara til Spánar og liggja í sólbaði allan daginn. Þetta var mjög skemmtileg ferð og í raun yndislegur tími. Ferðin skilur því eftir sig margar góðar minningar enda var frábært veður allan tímann. Ég held við hefðum ekki getað verið heppnari með veður.“
Í hnotskurn
Álandseyjar eru í norðurhluta Eystrasalts, á milli Finnlands og Svíþjóðar en þær heyra undir Finnland. Alls eru eyjarnar 6.500 talsins og þar búa 25.100 manns. Þrátt fyrir að heyra undir Finnland tala íbúarnir sænsku vegna þess að eyjarnar tilheyrðu Svíþjóð þar til árið 1809. Flatarmál eyjanna er sífellt að aukast því sjávarmál lækkar á hverju ári og nýtt land rís úr sæ.