Eftir Jón Sigurðsson Blönduós | Brúsastaðir í Vatnsdal voru afurðahæsta kúabúið í Austur-Húnavatnssýslu á síðasta ári. Bærinn ber nafn með rentu. Kúabændur í Austur-Húnavatnssýslu héldu aðalfund sinn á dögunum.
Eftir Jón Sigurðsson

Blönduós | Brúsastaðir í Vatnsdal voru afurðahæsta kúabúið í Austur-Húnavatnssýslu á síðasta ári. Bærinn ber nafn með rentu.

Kúabændur í Austur-Húnavatnssýslu héldu aðalfund sinn á dögunum. Gunnfríður Hreiðarsdóttir, landsráðunautur í nautgriparækt, flutti erindi um skýrsluhaldið og nautgriparæktina almennt og Baldur H. Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, fór yfir stöðu greinarinnar í landinu.

Á fundinum komu fram upplýsingar um að afurðahæstu búin í Austur-Húnavatnssýslu eru Brúsastaðir í Vatnsdal með 6.613 kg eftir árskúna, Hlíð í Skagabyggð með 6.156 kg og í þriðja sæti voru Höskuldsstaðir í Skagabyggð með 6.014 kg.

Afurðahæstu kýrnar á svæðinu á síðasta ári voru Sóley frá Steinnýjarstöðum en hún skilaði eigendum sínum 10.956 kg af mjólk. Næst kom Heiðbrá frá Hnjúki með 9.460 kg og

Villa frá Auðólfsstöðum var þriðja með 9.353 kg.

Fundarmenn lýstu miklum áhyggjum af hækkandi verði á aðföngum og fjármagnskostnaði. „Fundurinn telur brýnt að leiðrétta afurðaverð til samræmis við hækkanir þessar strax, svo stéttinni verði búin viðunandi lífskjör og matvælaöryggi þjóðarinnar verði tryggt.“

Stjórn félags kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu skipa Magnús Sigurðsson Hnjúki, formaður, Jóhannes Torfason Torfalæk, Gróa Lárusdóttir Brúsastöðum, Jóhann Bjarnason Auðólfsstöðum og Jens Jónsson Brandaskarði.