Ferðakostnaður Ásta R. Jóhannesdóttir segir einboðið að breyta þurfi reglum um endurgreiðslur á ferðakostnaði sjúklinga.
Ferðakostnaður Ásta R. Jóhannesdóttir segir einboðið að breyta þurfi reglum um endurgreiðslur á ferðakostnaði sjúklinga.
Eftir Frey Rögnvaldsson freyr@24stundir.is Himinn og haf er á milli greiðslna vegna ferðakostnaðar sjúklinga og akstursgreiðslna til opinberra starfsmanna.
Eftir Frey Rögnvaldsson

freyr@24stundir.is

Himinn og haf er á milli greiðslna vegna ferðakostnaðar sjúklinga og akstursgreiðslna til opinberra starfsmanna. Samkvæmt reglugerð tekur Tryggingastofnun ríkisins þátt í kostnaði við ferðir sjúklinga sem þurfa að leita sjúkdómsmeðferðar utan heimabyggðar, hvort heldur sem um er að ræða ítrekaðar ferðir eða tilfallandi ferðir. Tryggingastofnun tekur aðeins þátt í kostnaði við tvær ferðir á ári ef um er að ræða tilfallandi ferðir.

Greiða 2/3 hluta kostnaðar

Tryggingastofnun endurgreiðir 2/3 hluta kostnaðar vegna fargjalds með áætlunarferð en greiðsluhluti sjúklinga er 1/3 hluti. Keyri fólk á einkabíl endurgreiðir Tryggingastofnun 2/3 hluta kostnaðar sem miðast við 21,65 krónur á hvern ekinn kílómetra. Þó skal greiðsluhluti sjúklings aldrei verða meiri en 1.500 krónur fyrir hverja ferð. Sú tala miðast hins vegar við kílómetragjaldið, þannig að sjúklingurinn þarf að aka 70 kílómetra til að teljast hafa þann kostnað af ferðinni.

Greiðslur fjarri raunveruleika

Á síðasta Búnaðarþingi var samþykkt ályktun þar sem skorað var á stjórnvöld að breyta þessum reglum um endurgreiðslu ferðakostnaðar svo að kostnaðurinn vegna ferðalaganna verði greiddur að fullu. Mikil óánægja er meðal fjölda fólks á landsbyggðinni sem telur að greiðslur Tryggingastofnunnar séu fjarri því að miðast við raunveruleikann.

Upphæðin út úr korti

Karl Kristjánsson, bóndi á Kambi í Reykhólahreppi, hefur þurft að keyra reglulega með dóttur sína til Reykjavíkur vegna veikinda hennar. Vegalengdin fram og til baka er nálægt því að vera 400 kílómetrar. „Á tímabili þurftum við að keyra tvisvar í mánuði til Reykjavíkur. Það er mjög mikill kostnaður fólginn í þessu og að mínu mati er þessi upphæð sem er greidd fyrir keyrsluna alveg út úr korti. Endurgreiðslan er ekki í nokkru samræmi við kostnaðinn.“

Reglurnar orðnar úreltar

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu er sú krónutala sem greidd er fyrir ekna kílómetra ákvörðuð sem hlutfall af akstursgjaldi ríkisstarfsmanna. Það hlutfall hafi verið sett inn í reglugerð fyrir fjölmörgum árum og hafi ekki verið breytt síðan.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sem situr í nefnd sem á að einfalda greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu segir að ferðakostnaður sé til skoðunar eins og annar kostnaður í nefndinni. „Starfi nefndarinnar miðar mjög vel. Við höfum rætt um ferðakostnaðinn og það er ljóst að hann verður tekinn til endurskoðunar. Mín skoðun er sú að þessar reglur séu orðnar úreltar enda eru þær orðnar mjög gamlar. Mér hefur um langa hríð fundist þessi ferðakostnaður mjög vanmetinn og um allt of lágar upphæðir að ræða.“

Ásta segir að vonandi verði hægt að skoða þessi mál og koma með tillögur um breytingar næsta vetur.

ÞEKKIR ÞÚ TIL?

Í hnotskurn
Ferðakostnaðarnefnd ríkisins hefur ákveðið að akstursgjald í akstursamningum ríkisstarfsmanna verði 76 krónur á kílómetra frá og með 1. apríl næstkomandi. Greiðslur Tryggingastofnunar vegna ferðakostnaðar sjúklinga miðast við hlutfall af akstursgjaldi ríkisstarfsmanna. Nærri lætur að það hlutfall sé 28 prósent.