Um 70 verk verða sýnd á Kvikmyndahátíð á Austurlandi sem hefst um helgina.
Kvikmynda- og vídeóhátíðin 700IS Hreindýraland hefst í Sláturhúsinu – Menningarsetri á Egilsstöðum á laugardag og stendur í viku. Kristín Scheving, stjórnandi hátíðarinnar, segir að á henni sé megináhersla lögð á myndbandslist og tilraunamyndir eða það sem á ensku kallist „experimental films“. „Þetta eru listamenn eða kvikmyndagerðarfólk sem er að gera öðruvísi myndir þar sem er kannski lögð áhersla á liti og form eða sagan sögð á einhvern hátt öðruvísi. Ég er sjálf vídeólistakona og mér finnst ég oft vera að gera málverk sem hreyfist,“ segir hún.

Færri komast að en vilja

Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin og hefur hún undið upp á sig. Aðstandendur hafa kynnt hana á erlendri grund og komið á samstarfi við erlenda listamenn. Að þessu sinni verða um 70 verk sýnd og komust færri að en vildu. „Við auglýstum eftir verkum og fengum yfir 300 verk í ár. Í fyrra þegar umsóknarfresturinn var lengri komu yfir 500,“ segir Kristín sem er ánægð með þennan mikla áhuga.

Boðið verður upp á námskeið í tengslum við hátíðina að þessu sinni. „Þangað koma nemar frá Listaháskóla Íslands, listaháskólum í Arizona, Manchester og frá Noregi. Þar verður kennd „experimental“ kvikmyndagerð og verkin síðan sýnd á uppskeruhátíð,“ segir Kristín að lokum.

Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðunni www.700.is.