Tært Gott er að kafa í tæru Þingvallavatni.
Tært Gott er að kafa í tæru Þingvallavatni. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Í STEFNU Péturs M. Jónassonar vatnalíffræðings gegn Vegagerðinni sem þingfest var í gær er þess krafist að úrskurður umhverfisráðherra um að Vegagerðinni sé heimilt að leggja nýjan Gjábakkaveg verði ógildur.
Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Í STEFNU Péturs M. Jónassonar vatnalíffræðings gegn Vegagerðinni sem þingfest var í gær er þess krafist að úrskurður umhverfisráðherra um að Vegagerðinni sé heimilt að leggja nýjan Gjábakkaveg verði ógildur. Til vara krefst hann þess að sá hluti vegarins sem mun liggja næst vatninu vestur Eldborgarhraun, þ.e.a.s. sá hluti vegarins sem Pétur segir að valdi mestum skaða, verði dæmdur ólögmætur.

Í stefnunni er m.a. dregið í efa að skipulagsstjóri, Stefán Thors, hafi verið hæfur til að úrskurða um málefni Gjábakkavegar vegna vensla hans við umboðsmann Vegagerðarinnar, Stefán Gunnar Thors, fagstjóra umhverfisdeildar VSÓ ráðgjafar. Í stefnunni er bent á að Stefán Gunnar sé sonur Stefáns Thors en sá fyrrnefndi hafi annast gerð matsskýrslna og komið fram sem umboðsmaður Vegagerðarinnar í samskiptum við Skipulagsstofnun. Þá byggir Pétur kröfur sínar á því að mat á umhverfisáhrifum hafi átt að fara fram samkvæmt lögunum eins og þeim var breytt eftir 2005 en ekki eldri lögum. Þá hafi verið brotið á andmæla- og upplýsingarétti auk þess sem umhverfisráðuneytið hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með því að ekki hafi verið leitað til annarra sérfróðra aðila um málið. Þá hafi ekki verið leitað umsagnar Þingvallanefndar.

Vegagerðin hefur um langt skeið viljað leggja Gjábakkaveg á milli Laugarvatns og Bláskógarbyggðar en veginum er ætlað að koma í stað núverandi vegar, Kóngsvegar.

Boðið út og byrjað í vor

Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri segir að lögfræðingar Vegagerðarinnar telji ekki að stefna Péturs valdi því að fresta verði framkvæmdum við Gjábakkaveg á meðan hún er fyrir dómstólum. Verkið verði boðið út fljótlega og gerir Jón ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist nú í vor.

Í hnotskurn
» Pétur telur að mengun frá aukinni umferð geti stórskaðað lífríki Þingvallavatns.
» Lögverndarsjóður náttúru styður málarekstur Péturs og geta þeir sem vilja styrkja hann lagt inn fé á reikning 1155-15-30252, kt. 630802-2370.