Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is TEKJUR ríkissjóðs af virðisaukaskatti munu aukast umtalsvert vegna gengislækkunar krónunnar. Ástæðan er sú að við lækkun gengis hækkar innkaupsverð og virðisaukaskatturinn er prósentutala sem tekur mið af innkaupsverði.
Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

TEKJUR ríkissjóðs af virðisaukaskatti munu aukast umtalsvert vegna gengislækkunar krónunnar. Ástæðan er sú að við lækkun gengis hækkar innkaupsverð og virðisaukaskatturinn er prósentutala sem tekur mið af innkaupsverði. Það kann þó að vera að verðhækkunin dragi að einhverju leyti úr sölu, en það hefur áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Ein af þeim vörum sem hækka þessa dagana er áfengi, en gengislækkun krónunnar hefur mikil áhrif á verð til neytenda.

Stéphane Aubergy, víninnflytjandi hjá Vínekrunni, segir að það hljóti að vera umhugsunarvert fyrir neytendur sem þurfi að taka á sig verðhækkun á áfengi að ríkið skuli hagnast mest. ÁTVR, sem sé með fasta álagningarprósentu, hagnist einnig. Hann segir að miklar verðhækkanir á áfengi séu framundan. Fyrir utan gengisbreytingar sé innkaupsverð að hækka og flutningskostnaður hafi líka hækkað mjög mikið.

Eggert Ísdal, sölustjóri áfengis hjá RJC, segir að gangi gengislækkunin ekki til baka muni áfengisverð hækka. Hann segir að bjór frá fyrirtækinu hækki um næstu mánaðamót en litlar verðbreytingar verði á öðru áfengi, en búast megi við frekari hækkunum 1. maí ef gengið breytist ekki.

Í hnotskurn
» Ríkissjóður leggur þrjá skatta eða gjöld á hverja áfengisflösku. Þetta eru áfengisgjald sem er föst krónutala og tekur mið af styrk áfengisins – ennfremur leggur ríkið á virðisaukaskatt og skilagjald.
» Ríkið tekur til sín um 58% af verði rauðvíns, um 63% af verði bjórs, um 60% af verði koníaks og um 79% af verði vodka.
» FÍB reiknaði út fyrir skömmu að ríkissjóður hefði hagnast um 2,7 milljarða á verðhækkun á eldsneyti, miðað við heilt ár.