Jón Ólafur Tómasson fæddist á Uppsölum í Hvolhreppi 24. maí 1918. Hann lést á Dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli föstudaginn 21. mars síðastliðinn. Hann var sonur hjónanna Guðrúnar Jónsdóttur frá Uppsölum, f. 1877, d. 1947 og Tómasar Tómasonar frá Arnarhóli, f. 1879, d. 1971. Jón var elsti sonur þeirra hjóna. Næstur kom Guðmundur Óskar, f. 12. september 1920 en yngstur var Elías Tómasson, f. 14. mars 1922, d. 16. október 2002.

Jón bjó á Uppsölum á meðan heilsa hans leyfði. Fyrst bjó Jón með foreldrum sínum en síðar var hann skrifaður fyrir búinu á Uppsölum og bjó þar með bræðrum sínum. Jón var gegningamaður á Miðhúsum í Hvolhreppi í tvo vetur hjá Salómon Bárðarsyni bónda þar, að öðru leyti snerist líf hans um bústörf á Uppsölum. Hann hafði yndi af dýrum, átti góða hesta og naut þess að ríða út. Síðla árs 1999 flutti Jón ásamt bræðrum sínum á Dvalarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli.

Útför Jóns fer fram frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Baðstofuklukkan ljúfum slætti lýkur,

loftið er bjart, úr eldhússtrompi rýkur.

Gesti er fagnað hlýtt og vel að vanda,

velkominn segir ylur traustra handa.

(P.E.)

Þannig orti faðir minn um baðstofuna á Uppsölum í Hvolhreppi þar sem vinur okkar Jón Ólafur Tómasson var fæddur. Handtak Jóns var einstakt, þar mátti svo sannarlega finna „yl traustra handa“. Handtak Jóns var ekki einungis traust heldur allt það sem hann gerði. Hann var óvenjulega viljasterkur og varð honum hvergi haggað þegar ákvörðun hafði verið tekin. Lífssýn hans var skýr, einföld og staðfastur var hann í meira lagi. Jón var svo sannarlega vinur vina sinna. Í upphafi bjó Jón með foreldrum sínum, móðursystkinum sínum meðan þau lifðu og bræðrum sínum Guðmundi og Elíasi sem lést árið 2002. Það er fágætt í nútímanum að menn sofi undir sama þaki allt sitt líf eins og þeir bræður hafa gert.

Þó Jón hafi ekki gert víðreist um ævina var hann hafsjór af fróðleik enda víðlesinn og vel gefinn. Frá Uppsölum er einstaklega fallegt útsýni yfir Landeyjarnar, Eyjafjöllin og til Vestmannaeyja. Jón gat gjarnan spáð í veðrið út frá skýjafarinu í Eyjum. Hann hafi alla tíð mikinn áhuga fyrir búskapnum og veðrinu og fylgdist vel með veðurspánni. Jón var annálaður fyrir verklagni og hjálpsemi og klippti hann m.a. karlana á næstu bæjum. Faðir minn Pálmi Eyjólfsson og móðir mín Margrét Ísleifsdóttur voru miklir og nánir vinir bræðranna og sá vinskapur yfirfærðist yfir á mig á síðari árum. Við feðgarnir vorum gjarnan klipptir á Uppsölum en með bítlatískunni fækkaði ferðum mínum í klippingu á Uppsali, enda skæri og klippur ekki í dálæti hjá ungu fólki á þeim tíma. Jón var skrifaður fyrir búinu á Uppsölum en mjög skýr verkaskipting var á milli þeirra bræðra. Snyrtimennska var í hávegum höfð. Á Uppsölum var lengi stunduð mjólkurframleiðsla, einnig sauðfjárrækt, kartöflurækt o.m.fl. Afurðir búsins voru í sérflokki. Jón átti alltaf góða hesta en á yngri árum þótti Jóni hvíld í því að beisla klár sinn og ríða fram Fljótshlíðina með Eyjafjallajökulinn í forgrunn og auðvelt er að gleyma þreytu hversdagsins í slíku umhverfi.

Straumhvörf voru í lífi þeirra bræðra þegar þeir brugðu búi og fluttu á Hvolsvöll fyrir tæpum tíu árum. Sú ákvörðun var engin skyndiákvörðun. Þá hafði fótamein plagað Jón um tíma og síðustu árin gat hann ekki stigið í fæturna. Á dvalarheimilinu voru öll nútímaþægindi og einstaklega var vel um hann hugsað og ber sérstaklega að þakka samviskusömu og velhugsandi starfsfólki heimilisins. Þeir bræður áttu trygga vini. Ragnheiður frá Núpi og fjölskylda hennar og systkini voru aldrei langt undan.

Jón Tómasson hefur svo sannarlega lokið löngu dagsverki. Hann tók að vanda hlýlega í hönd mína skömmu áður en hann lést og sagðist biðja að heilsa öllu samferðafólki sínu. Um leið og ég kem þeirri kveðju á framfæri hér, kveðjum við þennan staðfasta sómamann með söknuði og vottum við Steinunn, Guðmundi bróður Jóns okkar dýpstu samúð.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Góður vinur og gamall nágranni, Jón frá Uppsölum, hefur lokið göngu sinni hér á jörð.

Margs er að minnast sem ljúft er að þakka. Áratuga einstakt nágrenni og góða vináttu.

Uppsalaheimilið var sérstakt á margan hátt. Þar var borin virðing fyrir gamla tímanum, hver hlutur á sínum stað bæði utan húss og innan og átti Jón ekki síst þátt í því, enda elstur af þeim bræðrum og ábyrgðartilfinningin á sínum stað.

Foreldrar Uppsalabræðra voru traust, heiðarleg og sannir vinir sem gott var að leita til og alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd ef eitthvað bjátaði á. Þessa góðu eiginleika fengu

bræðurnir í vöggugjöf og unnu vel úr sínu.

Við systkinin frá austurbænum á Núpi eigum ljúfar og bjartar minningar um heimilið á Uppsölum. Þangað var gott að koma og maður fór auðugri heim.

Fyrir þetta allt viljum við þakka. Við vottum þér, Gummi minn, okkar innilegustu samúð og biðjum góðan Guð að styðja þig og styrkja.

Blessuð sé minning Jóns Ólafs Tómassonar.

Sigríður Guðmundsdóttir.

Jón Tómasson frá Uppsölum í Hvolhreppi (nú Rangárþingi eystra) er látinn, tæplega níræður að aldri. Jón var fæddur á Uppsölum og átti þar heima þar til hann fór á Kirkjuhvol, dvalarheimili aldraðra á Hvolsvellifyrir röskum 10 árum. Jón var bóndi á Uppsölum og bjó þar ásamt bræðrum sínum Guðmundi og Elíasi, sem nú er látinn. Ég kynntist þessum bræðrum fljótlega eftir að ég ásamt öðrum keypti jörðina Vindás í Hvolhreppi 1984. Okkar kynni urðu í kringum hross. Ég kom oft í Uppsali meðan þeir bjuggu þar og með okkur tókust góð kynni. Það var nokkuð sérstakt að koma í Uppsali. Þar voru húskynni gömul og laus við allan íburð. Þegar þessi kynni hófust hafði Jón verið mjög fatlaður vegna fótameina, sem ollu því að hann gat ekkert unnið utanhúss. Meðan Jón var heill heilsu stóð hann fyrir búinu. Hann hafði mikið yndi af hestum og var alltaf vel ríðandi, var mér sagt. Leirljósu hestarnir frá Uppsölum hefðu vakið athygli. Ég hafði afskaplega gaman af að heimsækja þá bræður og ekki síst að sitja á spjalli við Jón. Hann var vel lesinn enda notaði hann tímann mikið til lesturs. Þá fylgdist hann vel með því sem var að gerast í samfélaginu, hlustaði mikið á útvarp og talaði mikið í síma. Hann sat við borðið undir glugganum í baðstofunni þar sem síminn var og kíkirinn. Frá Uppsölum er mikið og fagurt útsýni og auðvelt að fylgjast með umferð um þjóðveginn. Búskapur þeirra var sjálfsþurftarbúskapur þar sem þeir voru sjálfum sér nógir um flest. Þeir ræktuðu betri kartöflur en flestir, reyktu kjöt betur en aðrir og voru sjálfbjarga um allar viðgerðir.

Í baðstofunni var notalegt andrúmsloft og þægilegt að spjalla þar yfir kaffibolla. Alltaf fannst mér ég fara ríkari af fundi þeirra bræðra. Af ýmsu leiddi að samskiptin urðu mest við Jón því hann var inni við þegar bræður hans voru að sinna sínum störfum.

Sú ákvörðun þeirra að flytja frá Uppsölum á dvalarheimilið var erfið. Á Uppsölum höfðu þeir alið allan sinn aldur og Jón aldrei farið að heiman til langdvalar utan að leita sér lækninga. En þetta skref var góð ákvörðun sem þeir voru síðar mjög ánægðir með. En það sem maður gat mest lært af kynnum sínun við Jón var æðruleysi hans í þeim mikla sjúkleika sem hann átti við að búa. Þó hann væri farlama maður milli þrjátíu og fjörutíu ár kvartaði hann aldrei. Það var ekki í hans hugarheimi að bera bágindi sín upp við aðra. Hann var í eðli sínu mikið snyrtimenni og leit alltaf vel út, strokinn og hreinn. Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst Jóni og bræðrum hans. Ég veit að söknuður og tómarúm verður nú hjá Guðmundi bróður hans sem séð hefur á eftir bræðrum sínum tveimur. En hann hefur góðra að minnast. Ég votta honum samúð mína.

Kári Arnórsson.