Pétur Stefánsson hitti fyrir „fluguskömm“ með ærandi suði við einn kúpulinn: Af hverju var skaparinn að skap'ana, skrýtna flugu sem ærði mig með suði? Ég sló hana fast með flötum lófa og drap'ana.
Pétur Stefánsson hitti fyrir „fluguskömm“ með ærandi suði við einn kúpulinn:

Af hverju var skaparinn að skap'ana,

skrýtna flugu sem ærði mig með suði?

Ég sló hana fast með flötum lófa og drap'ana.

– Nú flögrar hún um í stofunni hjá Guði.

Stefán Vilhjálmsson velti fyrir sér spurningunni í fyrripartinum og kom í hug kviðlingur eftir Ogden Nash:

The Lord in His wisdom made the fly,

And then forgot to tell us why.

Og Stefán snaraði:

Skaparinn fluguna skóp að bragði,

en ástæðuna engum sagði.

Kannski var flugan sköpuð til þess að vekja mönnum andagift. Það kunna allir Litlu fluguna og Ólöf Guðný Sveinbjarnardóttir líkti vísum sínum við flugur:

Vísa mín sem fluga flaug,

féll svo enginn heyrði.

Sumt var meinlaust, sumt var spaug,

úr sumu blóðið dreyrði.

Ólafur Sigfússon, Forsæludal, var „frjáls“ maður er hann orti:

Enga ber ég hlekki um háls,

hjartað laust við dróma.

Get ég eins og flugan frjáls

flögrað milli blóma.

Þorbergur Þorbergsson Snóksdal, sem fórst voveiflega á Seyðisfirði um 1882, eins og frá greinir í vísnasafni Héraðsskjalasafns Skagafjarðar, orti á sínum tíma um Björn Einarsson seyðska:

Allir breyskir erum vér

eins og Björn veslingur.

Þar sem flugan sárið sér

sest hún á og stingur.

pebl@mbl.is