Växjö. AFP. | Sænski bærinn Växjö hefur vakið athygli fyrir góðan árangur og metnaðarfull áform í umhverfisvernd.
Växjö. AFP. | Sænski bærinn Växjö hefur vakið athygli fyrir góðan árangur og metnaðarfull áform í umhverfisvernd.

Evrópusambandið stefnir að því að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa þannig að hann verði um 20% af orkunotkuninni fyrir árið 2020 en í Växjö er þetta hlutfall þegar komið í 50%. Losun koltvísýrings minnkaði um 30% í bænum á árunum 1993 til 2006.

„Þetta telst mikið en við erum ekki ánægð og ætlum að minnka losunina enn meira,“ sagði Henrik Johansson, sérfræðingur í umhverfismálum í ráðhúsi Växjö, sem er um 80.000 manna bær í suðurhluta Svíþjóðar.

Bæjaryfirvöldin settu sér það metnaðarfulla markmið árið 1996 að bærinn yrði algerlega laus við jarðefnaeldsneyti þegar fram liðu stundir með því að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þau stefna að því að losun koltvísýrings minnki um helming fyrir árið 2010 og 70% fyrir 2050 miðað við árið 1990.

„Grænum“ bílum ívilnað

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lokið lofsorði á þessa viðleitni Växjö og veitti bænum verðlaun fyrir sjálfbæra þróun á síðasta ári.

„Við reynum að hafa áhrif á atferli fólksins. Það er ekki auðvelt, reyndar er það mjög erfitt,“ sagði Johansson.

Hann bætti þó við að margir íbúar bæjarins væru þegar farnir að breyta lífsháttum sínum vegna ráðstafana bæjaryfirvalda, sem hafa meðal annars fjölgað hjólreiðabrautum, ívilnað eigendum „grænna“ bíla með ókeypis bílastæðum og lægri gjöldum, og gefið út dagatal þar sem fram koma gagnlegar ábendingar um hvað fólk geti lagt af mörkum til umhverfisverndar.

Frá því að Växjö fékk verðlaun Evrópusambandsins hafa margar erlendar sendinefndir, flestar þeirra frá Kína, komið til bæjarins í því skyni að kynna sér hvernig staðið er að umhverfisverndinni.

Bæjarstjórinn og hægrimaðurinn Bo Frank segir að árangurinn í þessum efnum megi einkum rekja til þess að bæjaryfirvöld hafi lengi beitt sér fyrir umhverfisvernd og hefð sé fyrir því að allir flokkarnir í bæjarstjórninni vinni saman í umhverfismálum.

Þetta hófst snemma á áttunda áratugnum þegar yfirvöld Växjö samþykktu að hreinsa menguð vötn í grennd við bæinn. „Núna getum við synt, veitt og borðað fiskinn í vötnunum,“ sagði Johansson glaðhlakkalega.

Orkuver, sem notað hefur verið til að kynda hús bæjarbúa, gekk fyrir olíu til ársins 1980 þegar það byrjaði að nýta viðarbúta og úrgang frá sögunarverksmiðjum. Viður er nú um 98,7% af eldsneyti orkuversins sem hitar upp heimili 50.000 af 80.000 íbúa bæjarins. Gasinu, sem verður til þegar viðurinn brennur, er þjappað saman í vökva sem síðan er hreinsaður.

Í hnotskurn
» Við bakka Växjö-vatns er verið að reisa nýtt íbúðarhverfi og gert er ráð fyrir því að öll húsin þar verði úr timbri. Þegar hefur verið lokið við átta hæða fjölbýlishús úr timbri og það þriðja er í smíðum.
» Markmiðið er að sýna að timbur sé byggingarefni framtíðarinnar og gott fyrir umhverfið þar sem mjög litla orku þarf til að framleiða timbrið ólíkt sementi og stáli, að sögn bæjaryfirvalda.