— 24stundir/G.Rúnar
Hugsjón Halldórs Jóhannssonar er rekstur akstursbrautarinnar við Krísuvíkurveg þar sem hann vill að ökumenn æfi sig og fái útrás á brautinni í stað þess að fá hana á götum borgarinnar með tilheyrandi hættu.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@24stundir.is

Halldór Jóhannsson hefur séð um rekstur akstursbrautinnar við Krísuvíkurveg undanfarin ár en hann segist sinna starfinu af hugsjón. „Ég vil frekar að krakkarnir komi hingað en að þeir þvælist á götum borgarinnar. Ég reyni því að reka þessa braut eftir bestu getu því ég vil að það sé gert.

Ríkið gerir þetta ekki og það er enginn annar að gera þetta en einhver þarf greinilega að sinna þessu. Ég vil að fólk komi á brautina til að læra betur á bílana sína og fái útrás hér frekar en að missa bílprófið á götum úti. Ég get nefnt sem dæmi að strákarnir á súpermóto-hjólunum sem koma oft til mín segjast fá mun meiri útrás á brautinni heldur en á götum bæjarins.“

Allir læra á brautinni

Til að nýta sér brautina er nauðsynlegt að gerast meðlimur í Mótorsportklúbbi Íslands og svo að greiða hóflegt verð fyrir daginn. Halldór segist telja að það sé mjög mikilvægt að æfa sig á braut sem þessari. „Í ökutímum er alltaf keyrt á löglegum hraða og það fyrsta sem margir gera um leið og þeir eru einir í bílnum er að prófa hann en þá er ekki búið að æfa það. Það er því ágætt að koma hingað og sjá hvað gerist þegar nauðsynlegt er að bremsa harkalega og annað í þeim dúr. Það hefur ekkert reynt á það í kennslunni af því að það er ekki ætlast til þess að þú sért að keyra hratt á götum úti en samt sem áður er verið að gera það. Þetta á ekki bara við um unga fólkið því það geta allir lært af því að koma á brautina. Til dæmis kom hingað maður á fertugsaldri á sportbílnum sínum og eftir nokkrar ferðir áttaði hann sig mun betur á hvað bíllinn bauð upp á. Nú skynjar hann betur hvað bíllinn er öflugur, hvað bremsurnar eru góðar og hvað þarf að gera.“

Reynir á ökumanninn

Aðspurður hvort það sé mikill hraði á brautinni segir Halldór svo ekki vera. „Brautin hámarkar sjálfa sig út af beygjunum en það eru alls 14 beygjur á brautinni. Meðalhraðinn á öflugustu bílunum er um 68 km/klst en þessir hægfara fara á 60 km/klst. Það er erfitt að reyna að auka hraðann og það reynir mikið á ökumann og bremsurnar. Það þarf að bremsa til hægri og til vinstri og þá finna bílstjórarnir hvernig bílarnir skrika til eða renna. Þeir læra því á bílana og fá í leiðinni útrás,“ segir Halldór og bætir við að flestir séu sveittir eftir fimm hringi um brautina. „Fólk keyrir fimm hringi í einu og fer svo aftast í röðina. Það er misjafnt hve marga hringi fólk fer yfir daginn og allt fer það eftir aðsókninni.“
Í hnotskurn
Akstursbrautin var smíðuð árið 1990 undir rallýcross en árið 2000 var bætt við brautina. Brautin er í raun tvær brautir í einni, önnur er malbikuð og um 830 metrar að lengd og hin er rúmir 1.000 metra malar- og malbiksbraut. Á miðvikudögum í sumar má reyna sig í svokallaðri akstursleikni þar sem er tímataka. Frekari upplýsingar má finna á www.akstursbraut.is