Vísindi Kári segir umfjöllun alltaf vera jákvæða.
Vísindi Kári segir umfjöllun alltaf vera jákvæða. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Agnesi Bragadóttur agnes@mbl.

Eftir Agnesi Bragadóttur

agnes@mbl.is

KÁRI Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að Stefán Hjörleifsson, læknir og heimspekingur, hafi framið lögbrot, er hann framkvæmdi rannsókn sína um íslenska fjölmiðlaumfjöllun um erfðavísindi án þess að fyrir hefði legið upplýst samþykki þátttakenda.

Kári bendir á að Stefán hafi í samtali við Morgunblaðið í fyrradag greint frá niðurstöðum rannsóknar sinnar og þar á meðal hafi hann veitt upplýsingar um afstöðu starfsfólks og þátttakenda í rannsóknum hjá ÍE.

„Þá rannsókn gerði hann án þess að hafa leyfi Vísindasiðanefndar, án þess að hafa leyfi Persónuverndar og án þess að leggja fyrir fólk upplýst samþykki,“ segir Kári m.a. í samtali við Morgunblaðið í dag.

Hann segir að þetta sé ekki bara brot á hefð, „heldur er þetta brot á lögum. Stefán hefur ekki heimild til þess að gera svona rannsókn án þess að leggja fyrir þátttakendur upplýst samþykki,“ segir Kári.

Kári kveðst axla ákveðna ábyrgð á því hvernig fór, því hann hafi hleypt Stefáni inn í Íslenska erfðagreiningu. „Ég viðurkenni nú að það var barnaskapur af minni hálfu, sem ég ber ábyrgð á,“ segir Kári.

Aðspurður hvort viðtalið við Stefán muni hafa eftirmál í för með sér segist Kári munu benda Vísindasiðanefnd, Persónuvernd, Háskólanum í Bergen og Háskóla Íslands á að rannsókin hafi verið gerð án þess að fyrir þátttakendur hafi verið lagt upplýst samþykki.

Í hnotskurn
» Fellst á nauðsyn eftirlits til að tryggja að farið sé að lögum og reglum við rannsóknir.
» Hver á að hafa eftirlit með þekkingarsamfélaginu, sem hefur eftirlit með okkur?
» Kári Stefánsson vísar því á bug, að Íslensk erfðagreining njóti vilhollrar umfjöllunar íslenskra fjölmiðla, og kveður engan fót fyrir því að sífellt sé verið að hlaða ÍE lofi.