Áfram Snæfell lagði Njarðvík 2:0 í 8 liða úrslitum og er komið í undanúrslit. Justin Shouse var stigahæstur hjá Snæfelli.
Áfram Snæfell lagði Njarðvík 2:0 í 8 liða úrslitum og er komið í undanúrslit. Justin Shouse var stigahæstur hjá Snæfelli. — Morgunblaðið/Golli
SNÆFELL sigraði Njarðvík með 80 stigum gegn 66 í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Iceland Express deild karla í Stykkishólmi í gærkvöldi.

SNÆFELL sigraði Njarðvík með 80 stigum gegn 66 í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Iceland Express deild karla í Stykkishólmi í gærkvöldi. Þar með tryggði liðið sér sæti í undanúrslitum því Snæfell hafði einnig betur á laugardaginn þegar liðin mættust í fyrri leiknum í Njarðvík. Snæfell var yfir allan leikinn í gær, 37:32 í hálfleik og gerði síðan endanlega út um leikinn á lokakaflanum.

Eftir Ríkharð Hrafnkelsson

Það var mikil spenna í loftinu þegar Njarðvíkingar komu í Hólminn eftir að hafa tapað fyrsta leik liðanna í Njarðvík á laugardaginn og voru komnir með bakið upp við vegg. Að sama skapi ætluðu Hólmarar sér að vinna þennan leik til að þurfa ekki að fara aftur til Njarðvíkur í úrslitaleik um framhaldið.

Heimamenn hófu leikinn með miklum látum og tóku strax forystuna sem byggðist mest á mjög góðum varnarleik. Þrátt fyrir meiri ákefð gestanna en í fyrri leiknum þá gekk þeim illa að komast í gegnum sterka vörn heimamanna og áttu á brattann að sækja allan leikinn.

Shouse fór á kostum

Snæfell hafði fimm stiga forskot í leikhléi, 37:32, og fátt í spilunum um að Njarðvíkingar næðu sigri í þessum leik. Í upphafi síðari hálfleiks kom mjög góður kafli hjá heimamönnum sem náðu mest fimmtán stiga forskoti. Á þessum kafla fór Justin Shouse leikmaður Snæfells hreinlega á kostum, stal nokkrum boltum og skoraði grimmt. Ef ekki hefði komið til mjög góður sprettur hjá Guðmundi Jónssyni hefði farið illa, en hann setti þrjá þrista á skömmum tíma og hélt Njarðvíkingum inni í leiknum.

Vörnin sterk hjá heimamönnum

Þegar rúmlega tvær og hálf mínúta voru eftir hafði Snæfell fimm stiga forskot og enn héldu gestirnir í vonina. En lokakaflinn var eign Snæfells sem lauk með stórkostlegri, viðstöðulausri troðslu frá íþróttamanni Snæfells 2007, Sigurði Á. Þorvaldssyni, eftir sendingu rétt innan við miðju.

Varnarleikur Snæfells var á köflum afar góður eins og sextíu og sex stig Njarðvíkur gefa til kynna.

„Við lögðum það upp fyrir leikinn að hafa tapaða bolta í lágmarki, þ.e. passa boltann vel og tapa honum ekki klaufalega. Það voru frekar þungar lappir í sókninni hjá okkur vegna mikillar áherslu á varnarleikinn. Þetta var svona hnoðsigur hjá okkur, enginn glansleikur þrátt fyrir mjög góðan sigur,“ sagði Sigurður Á. Þorvaldsson í leikslok.

Í lið Snæfells átti Justin Shouse mjög góðan leik, afar kvikur í vörninni, stal boltum og stjórnaði hraða Snæfells mjög vel, róaði niður eða keyrði upp hraðann í sókninni þegar það átti við. Hlynur Bæringsson var traustur í vörninni, þó fráköstin hafi oft verið fleiri. Hann verður að skila liðinu fleiri stigum inni í teignum. Sigurður Á. Þorvaldsson og Ingvaldur Magni Hafsteinsson léku varnarleikinn af stakri prýði. Slobodan Subasic átti góða spretti sem og þeir Jón Ólafur Jónsson og Anders Katholm.

Hjá Njarðvík var Damon Bailey manna drýgstur þó dofnað hafi yfir honum á köflum. Guðmundur Jónsson kom með mjög góðan kafla og var mikil vinnsla í hans leik. Egill Jónasson hefði að ósekju mátt spila meira því hann var drjúgur þegar hans naut við, sérstaklega stafar ógn af honum í vörninni. Brenton J. Birmingham náði sér aldrei á strik og eins kom lítið út úr þeim Jóhanni Ólafssyni og Herði Axel Vilhjálmssyni.

Í hnotskurn
» Snæfell hefur fimm sinnum áður komist í úrslitakeppnina. Fyrst var það árið 1999 og síðan síðustu fjögur árin.
» Tvisvar hefur Snæfell komist í úrslitarimmuna en orðið að játa sig sigrað í bæði skiptin, gegn Keflavík bæði árin, 2004 og 2005.
» Njarðvík hefur hins vegar 23 sinnum komist í úrslitakeppnina, orðið meistarar 11 sinnum og þrisvar orðið í öðru sæti.