Framkvæmdir Löndunarþjónustan Djúpiklettur reisir í samvinnu við Fiskmarkað Íslands stærðarinnar stálgrindarhús á hafnarsvæðinu.
Framkvæmdir Löndunarþjónustan Djúpiklettur reisir í samvinnu við Fiskmarkað Íslands stærðarinnar stálgrindarhús á hafnarsvæðinu. — Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að hlaupa úti er lífsstíll sem æ fleiri virðast hafa tileinkað sér ef marka má þær fréttir og myndir sem birtast af og til í fjölmiðlum af stórum hópi fólks sem stillir sér spennt upp á rásmarklínu.
Að hlaupa úti er lífsstíll sem æ fleiri virðast hafa tileinkað sér ef marka má þær fréttir og myndir sem birtast af og til í fjölmiðlum af stórum hópi fólks sem stillir sér spennt upp á rásmarklínu. Veður og hitastig virðist ekki hamla þeim sem tamið hafa sér þennan lífsstíl og er það því greinilegt að kikkið sem út úr hlaupunum fæst hefur aðdráttarafl sem yfirvinnur alla veðurfarsbölsýni. Þótt útihlaupara verði ekki mikið vart í Grundarfirði má þó sjá þónokkra á heilsubótargöngu eftir að sól fór að hækka á lofti og það er svona fyrsti vorboðinn hjá okkur þegar fólk sést á stjákli meðfram þjóðveginum eða reiðveginum sem liggur ofan við byggðina.

Að hlaupa 1. apríl eða öllu heldur að láta einhvern hlaupa 1. apríl er ekki mikið iðkað í litlum sveitarfélögum, það er helst að börn á öllum aldri reyni að gera smávægilegt at í sínum nánustu úr því það er leyfilegt þennan dag. Það væri þó freistandi að koma því í fjölmiðla þennan dag að ýmislegt sem menn hafa rætt um og sjá í hillingum hafi gerst. Ein fréttin gæti hljóðað svo á þessum degi. Grundfirðingar vígja í dag kláfferju á Kirkjufell og af því tilefni verður frír aðgangur þennan dag. Þá gæti einnig birst á þessum gabbdegi að ákveðið hefði verið að reisa nýja stórskipahöfn við austanverðan Grundarfjörð og höfn þessari ætlað að vera ferjuhöfn vegna stóraukinna siglinga um svokallaða Norður-Atlantshafsleið. Í tengslum við þessa stórskipahöfn verði reist sérstök birgðastöð við innanverðan Kolgrafarfjörð og í tilefni af þessum mikilvægu ákvörðunum verði sértök móttaka í samkomuhúsi bæjarins og þar muni öll ríkisstjórnin mæta.

Þorskurinn fagnar skerðingu á aflaheimildum á sinn hátt eða með því að veiðast sem aldrei fyrr. Mokveiði hefur verið af þorski á Breiðafirðinum eftir áramót og sjaldan hefur hann verið jafn vænn og stór og stútfullur af hrognum og lifur. En frá og með þessum degi og í tiltekinn tíma fær sá guli færi á að auka við kyn sitt með því að hrygna á grunnslóðinni. Þessar verndaraðgerðir koma fyrst og fremst við smábátasjómenn því stærri skipin halda veiðum sínum áfram utan við verndarlínuna.

Framkvæmdir á hafnarsvæðinu halda áfram hvort sem þorskveiðistopp er í gildi eður ei. Þar reisir löndunarþjónustan Djúpiklettur í samvinnu við Fiskmarkað Íslands stærðarinnar stálgrindarhús og á það hús að verða tilbúið til notkunar í maí nk. Við Miðgarð sem tekur við af Litlu bryggju hefjast senn lokaframkvæmdir. Í þessum lokaáfanga á að steypa þekju og ljúka öðrum þeim frágangi sem gerir þennan viðlegugarð fullboðlegan bátum að leggjast við. Verða þá möguleikarnir orðnir þrír til viðlegu og löndunar, þ.e. Norðurgarður þeirra stærstur, Miðgarður og Suðurgarður smábátahöfnin.

Eftir Gunnar Kristjánsson