Einbeiting Brynjar Björnsson reynir að komast framhjá Hreggviði Magnússyni. Ólafur Sigurðsson við öllu búinn.
Einbeiting Brynjar Björnsson reynir að komast framhjá Hreggviði Magnússyni. Ólafur Sigurðsson við öllu búinn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„MAÐUR sleppir ekki svona opnu skoti þó maður hafi klikkað nokkrum sinnum áður, maður verður að hafa trú á að hitta annars er bara hægt að hætta þessu,“ sagði Pálmi Freyr Sigurgeirsson sem skoraði mikilvæga þriggja stiga körfu fyrir KR þegar...

„MAÐUR sleppir ekki svona opnu skoti þó maður hafi klikkað nokkrum sinnum áður, maður verður að hafa trú á að hitta annars er bara hægt að hætta þessu,“ sagði Pálmi Freyr Sigurgeirsson sem skoraði mikilvæga þriggja stiga körfu fyrir KR þegar mínúta var eftir af framlengingu í íþróttahúsi Seljaskóla í gærkvöldi og Íslandsmeisturum tókst að knýja fram 86:80 sigur á ÍR í öðrum leik liðanna í 8 liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik.

Eftir Stefán Stefánsson Þessi þriggja stiga karfa Pálma Freys var hans eina í leiknum úr 4 tilraunum en honum tókst þó að hirða 8 fráköst og gefa tvær stoðsendingar. „Við byrjuðum sterkt og vorum ákveðnir í að gera út um leikinn en ÍR er með gott lið og ekkert auðvelt að vinna. Við höfðum samt trú á sigri þó við höfum lent undir, lentum í því í fyrra og kunnum þetta alveg svo við héldum áfram fram á síðustu sekúndu og tókst að tryggja okkur framlengingu. Í lokin skipti meistarahjartað öllu,“ bætti Pálmi við eftir leikinn. Hann vissi af pressunni og lét hana ekki stjórna. „Við fundum alveg fyrir pressu á okkur fyrir leikinn en kunnum alveg að höndla hana og vinnum næsta leik á fimmtudaginn. Við skulum vona að sá leikur verði ekki eins og þessi, við ætlum alltaf að vinna sannfærandi en það gengur ekki alltaf - það er bara á hreinu að við ætlum að vinna þann leik.“

Meiri hugur í Vesturbæingum

Mun meiri hugur var í gestunum úr Vesturbænum til að byrja með og vörnin tók vel á móti en þeir gættu sín ekki á langskotunum svo að ÍR-ingum tókst að halda sig inni í leiknum tveimur þriggja stiga körfum í miðjum fyrsta leikhluta. KR-ingum tókst að hemja Breiðhyltinginn Nate Brown, sem skoraði sín fyrstu stig er nokkuð var liðið á leikhlutann og hann var aftur á ferð með fimm stig á 10 síðustu sekúndum fyrsta leikhluta þegar hann setti niður þriggja stiga körfu og hirti síðan boltann þegar gestirnir lögðu af stað í sókn. Fyrir vikið munaði aðeins 4 stigum eftir fyrsta leikhluta, 23:19 KR í vil - nokkuð gott hjá ÍR-ingum að standa af sér fyrsta áhlaup KR.

Sem fyrr voru KR-ingar sterkari í öðrum leikhluta þegar þeir léku grimma vörn og tóku flest fráköstin. Þeim tókst hinsvegar ekki að hrista af sér heimamenn, sem sættu færis þegar KR slakaði aðeins á klónni og með 9 stigum í röð varð hlutskipti KR að elta.

Eftir leikhlé fór að hitna í kolunum og fjörugur leikur að skila inn villum. ÍR-ingar náðu tíu stiga forskoti, 55:45, en fóru síðan heldur illa að ráði sínu sókninni svo að nú tókst KR að komast inní leikinn og í fjórða leikhluta munaði 5 stigum, 60:55.

Spennan var gífurleg enda mátti lítið útaf bregða til að taflið snerist við. Breiðhyltingar voru alltaf skrefinu á undan, náðu mest 8 stiga forskoti en þegar þeir glutruðu boltanum ítrekað tókst KR-ingum að minnka muninn í eitt stig. Þeir voru heldur taugartrekktir því í næstu tveimur sóknum tókst þeim ekki að koma að skoti áður en skotklukkan gall við. Þeim til lukku voru ÍR-ingar litlu skárri, höfðu þó yfirhöndina þar til Avi Fogel jafnaði 73:73 þegar 6 sekúndur voru eftir. ÍR-ingar komust á þeim sekúndum í gott færi en skotið geigaði illilega svo framlengja varð leikinn.

Hittnin brást ÍR

Hittni ÍR-ingar var afleit í upphafi framlengingar svo að KR náði naumu forskoti. Gestirnir fóru síðan að týnast af velli með 5 villur, enda fjórir með fjórar villur þegar framlengingin hófst, en tókst þó að einbeita sér að leiknum. Þegar rúm mínúta var eftir jafnaði Sveinbjörn Claessen fyrir ÍR, 79:79, en Pálmi Freyr skoraði þá þriggja stiga körfuna sína. Breiðhyltingurinn Tahirou Sani skoraði úr einu vítaskoti þegar 45 sekúndur voru eftir en KR-ingar voru yfirvegaðir, spiluð að skynsemi og héldu boltanum þar til þeir bættu við stigum í lokin.

Enn brjálaðir síðan í fyrra

Hreggviður Magnússon tók 3 fráköst og skoraði 15 stig en það dugði ekki til þó ekki hafi vantaði viljann. „Við erum enn svo gjörsamlega brjálaðir yfir að tapa oddaleik gegn KR í fyrra og eigum fyrir vikið harma að hefna að við sýndum gríðarlega góðum körfubolta. Náðum að vísu ekki að vinna þennan leik en munum vinna næsta. Stundum þegar tvö góð lið gengur ekki allt upp og þó bæði lið hafi spilað góðan körfubolta vildi boltinn frekar lenda KR-meginn í kvöld,“ sagði Hreggviður eftir leikinn og fannst hann fá lítið fyrir sinn snúð. „Það er grátlegt að vera fjörtíu mínútur yfir í fyrri leiknum og 39 mínútur og 54 sekúndur hérna í Breiðholtinu en fá síðan á sig mjög góða körfu KR-inga í lokin og missa þá svo í framlengingu. Þetta sýnir bara að hér eru feiknaöflug lið og KR sýndi mikinn karakter í lokin með því að halda sér inni í leiknum svo ég varð að taka hattinn ofan fyrir þeim. Það er hinsvegar engin spurning um að við - eftir að vera yfir næstum alla báða leikina - munum vinna næsta leik, það er alveg á hreinu.“

Nate og Avi atkvæðamestir

Nate Brown var lykilmaður ÍR með 25 stig, 6 fráköst og tíu stoðsendingar. Tahirou Sani var einnig drjúgur með 8 fráköst en brást hittnin því 6 af 16 skotum innan teigs rötuðu í körfuna, ekkert af 6 þriggja stiga skotum og 6 af 10 vítaskotum. Sveinbjörn átti einnig fína spretti er hann hitti úr báðum þriggja stiga skotum sínum og tók 5 fráköst.

Hjá KR var Avi Fogel bestur með 23 stig þegar hann hitti úr 4 af 5 þriggja stiga skotum en aðeins úr fjórum af 12 inni í teig. Hann gaf 7 stoðsendingar og tók 7 fráköst, en Jeremiah Sola og Joshua Helm tóku sitthvor 8. Í heild má segja að 46 fráköst KR á móti 32 hjá ÍR hafi skipti nokkru máli.