Lilja Jónheiður Skarphéðinsdóttir fæddist 27.3. 1943 og lést 8. mars sl.

Foreldrar hennar voru Stefanía Jóhannsdóttir og Skarphéðinn Jónsson, bæði látin. Eftirlifandi systur Lilju eru: a) Inga Kristín, f. 19.11. 1932, sem býr á Akureyri og á hún 2 dætur og b) Anna Vilfríður f. 31.8. 1934, sem býr í Mývatnssveit og á hún 4 börn. Lilja bjó lengst af í Ægisgötu 12 , Akureyri með foreldrum sínum og móðurbróður.

Lilja Jónheiður verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag kl.13:30.

Lífið er hverfult svo mikið er víst, einn fæðist í dag og annar deyr, það er gangur lífsins. Öll erum við einstakar manneskjur, hver með sín sérkenni og áhugamál. Lilja frænka kvaddi þetta líf laugardaginn 8. mars. Hún var einstök kona sem lifði einföldu og sérstöku lífi alla tíð, bjó lengst af með afa og ömmu í Ægisgötunni ásamt Palla móðurbróður sínum. Afi og amma fóru á dvalarheimili aldraðra en Lilja og Palli bjuggu saman þar til hann fór á dvalarheimili aldraðra. Þá bjó Lilja þar ein fram til ársins 2004 að hún fór á Dvalarheimilið Hlíð. Lilja vann aldrei úti, mestum tíma eyddi hún í sín hugðarefni sem voru af ýmsum toga. Hún var alla tíð sérstök og hún vildi búa ein í Ægisgötunni en vegna heilsuleysis varð hún að láta í minni pokann og flutti á Hlíð þar sem hún dó.

Lilja glímdi við sjúkdóm alla sína tíð, sérstakan sjúkdóm. Sumir krakkar hræddust hana, fannst hún skrítin, en við erum öll sérstök, hver á sinn hátt. Lilja var ófeimin, ákveðin og áhugamálin voru sérstök, konungsfjölskyldur víða um heim. Þar kom enginn að tómum kofa. Hún var áskrifandi að mörgum blöðum, m.a. að dönsku blöðunum þar sem hún gleypti í sig fróðleikinn um dönsku konungsfjölskylduna. Öllum sem komu til Lilju fannst gaman að kíkja í blöðin hjá henni en það varð að passa að setja þau alltaf á réttan stað að lestri loknum, hún passaði upp á það.

Hún fylgdist vel með fjölmiðlum. Það fór t.d. enginn spurningaþáttur fram hjá henni og hún skráði hjá sér úrslit þáttanna. Hún átti skrá yfir úrslit í Eurovision til margra ára og þannig mætti lengi telja. Hún safnaði bókum og blöðum og þvílíkir staflar, ekki veit ég hvort hún las þetta allt, dreg það í efa. Hjá Lilju átti hver hlutur sinn stað. Þegar við systurnar vorum litlar og komum í heimsókn þá fylgdist Lilja grannt með okkur, passaði að við létum allt á rétta staði. Lilja átti alla tíð dúkku, frá því hún sjálf var lítil, sem okkur stelpunum þótti afar merkileg. Dúkkan átti fallegt rúm og rúmföt, sem okkur þótti spennandi, en hana máttum við vart snerta, þetta var dýrgripur í hennar huga. Á þeim tíma sem heilsa Lilju var góð þá labbaði hún oft upp í bæ. Þá fór hún í bókabúðina Huld og spjallaði mikið við hana Huld sem átti þá búð. Lilja pantaði hjá henni öll blöðin. Hún fór til Villu systur sinnar í Mývatnssveit og dvaldi þar í nokkra daga, það fannst henni alltaf mjög skemmtilegt. Hin síðari ár eftir að heilsu Lilju fór að hraka og hún var flutt á Hlíð, varð lífið henni erfiðara, ég held hún hafi oft þjáðst. Hún átti orðið erfitt með gang og gat lítið tjáð sig, hún benti bara og sagði já og nei. Síðustu vikurnar voru erfiðar, hún var með verki og vildi lítið borða og svaf. Undirbúningur að brottför var hafinn. Hún hefur eflaust fundið hvert stefndi, hún sofnaði og vaknaði ekki meir. Hún fór í friði. Hún fer eflaust að fræða engla heimsins um kóngafólkið því það var hennar uppáhald, vonandi hittir hún einhverja þeirra hinum megin, það var jú hennar draumur. Far þú í friði elsku Lilja frænka, þjáningum þínum er lokið.

Björk Jónsdóttir.