Ró komst á í Írak í gær eftir margra daga róstur og átök í Bagdað og Basra. Í fréttum kom fram að fólk hefði snúið aftur út á götur í Bagdað eftir að útgöngubanni, sem sett var á fimmtudag, var aflétt að mestu og í Basra virtist allt vera rólegt.
Ró komst á í Írak í gær eftir margra daga róstur og átök í Bagdað og Basra. Í fréttum kom fram að fólk hefði snúið aftur út á götur í Bagdað eftir að útgöngubanni, sem sett var á fimmtudag, var aflétt að mestu og í Basra virtist allt vera rólegt. Kyrrðin í Bagdað var hins vegar ekki meiri en svo að í gærmorgun var sprengjum varpað á Græna svæðið þar sem stjórnvöld hafa aðsetur og erlendir erindrekar. Átökunum í Basra linnti í kjölfar þess að sjítaklerkurinn Moqtada al-Sadr kallaði á fylgismenn sína að hætta að berjast.

Sadr gaf út yfirlýsingu sína eftir samninga við stjórn Nuris Kamals al-Malikis forsætisráðherra. Sadr stendur því í raun uppi sem sigurvegari eftir þessi átök.

Staða Malikis hefur hins vegar veikst verulega, ekki síst vegna þess að hann blés til áhlaupsins á Basra með yfirlýsingum um að hann hygðist berjast til sigurs, en þurfti á endanum að leita til Sadrs, síns helsta pólitíska andstæðings, til að bjarga sér úr vandanum. Andspyrna hins svokallaða Mahdi-hers, hins vopnaða arms Sadrs, veitti hins vegar kröftugri mótspyrnu en búist var við og áttu í fullu tré við sveitir stjórnarinnar, þótt þær nytu í upphafi stuðnings Bandaríkjahers úr lofti og undir lokin einnig á jörðu niðri. Einnig var barist við Mahdi-herinn í því hverfi Bagdað, sem kennt er við Sadr. Á fimm dögum féllu samkvæmt heimildum 150 almennir borgarar og 350 særðust í Bagdað.

Þessi átök sýna að stöðugleiki í Írak veltur ekki á herstyrk Bandaríkjamanna í Írak. Hann veltur ekki heldur á styrk þeirrar stjórnar, sem situr við völd í skjóli Bandaríkjamanna. Hann veltur á ákvörðunum annarra. Fyrir fjórum árum var Sadr tilbúin til að láta menn sína berjast til síðasta blóðdropa í bænum Najaf. Hann virðist hafa lært ýmislegt síðan. Valdastaða hans er meira að segja orðin það sterk, þrátt fyrir ásakanir um að hann hafi skotið skjólhúsi yfir glæpamenn og morðingja, að hermt er að ýmsir andstæðingar hans hafi leyft hermönnum stjórnarinnar að fara óáreittum um áhrifasvæði sín í Basra til að auðvelda þeim að sækja að Mahdi-hernum í þeirri von að það græfi undan honum.

Nú er Sadr hlaðinn lofi og sagt að hann hafi sýnt að hann sé góður stjórnmálamaður, sem vinni í þágu Íraks. Einnig var sagt að áhlaup stjórnarhersins hefði ekki beinst sérstaklega að vopnuðum sveitum Sadrs, heldur stjórnlausum vígamönnum sjíta.

Síðar á þessu ári verður gengið til sveitarstjórnarkosninga í Írak. Hafi Maliki ætlað að veikja stöðu Sadrs fyrir þær kosningar hefur það mistekist. Bandaríkjamenn studdu áhlaupið, sem mistókst. Hvern ætla þeir að styðja í kosningunum, sem fram undan eru? Ætla þeir að styðja þann sem sigrar – hver sem það verður? Bandaríkjamenn virðast ekki ráða því hvort það er stríð eða friður í Írak, en eigi Írakar að gera það verður það að vera án þeirra atbeina. Það er kominn tími til að þeir fari frá Írak.