Óli og Wolfi Leikstjóri Stóra plansins , Ólafur Jóhannesson, með Stefan Schaefer í hlutverki handrukkarans friðelskandi, Wolfi, við tökur á myndinni í fyrra. Skeggið er ekta en taglið ekki.
Óli og Wolfi Leikstjóri Stóra plansins , Ólafur Jóhannesson, með Stefan Schaefer í hlutverki handrukkarans friðelskandi, Wolfi, við tökur á myndinni í fyrra. Skeggið er ekta en taglið ekki. — Ljósmynd/poppoli.com
Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.is „IF YOU can not handle the truth you can not stand in the kitchen,“ segir leikarinn Wolfgang Smutke í leikprufu fyrir kvikmyndina Stóra planið á vefnum YouTube.

Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

„IF YOU can not handle the truth you can not stand in the kitchen,“ segir leikarinn Wolfgang Smutke í leikprufu fyrir kvikmyndina Stóra planið á vefnum YouTube. Reyndar er þar kominn leikarinn, handritshöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Stefan Schaefer sem fer með hlutverk Wolfi í Stóra planinu eftir Ólaf Jóhannesson auk þess að eiga í handritinu.

Schaefer talar ensku með svo sannfærandi þýskum hreim að Þjóðverjar eru enn að rífast í athugasemdakerfi YouTube um hvort maðurinn sé Þjóðverji eða ekki. Blaðamaður hitti Schaefer og Ólaf í fyrradag.

„Ég hef gert grín að Þjóðverjum alla ævi, ég á í ástar-/haturssambandi við Þjóðverja,“ segir Schaefer um persónuna Wolfi. Þjóðverjar liggi auk þess vel við höggi. „Það er löng saga á bak við Wolfi. Hann ólst upp hjá móður sinni, fjölskyldan var sundruð og hann leitaði skjóls í handboltanum enda hæfileikamaður á því sviði. Þar æfði hann með Jörgen Matke. Hann kenndi Matke ákveðna hreyfingu sem hann er þekktastur fyrir, tvöfaldan snúning sem endar með marki. Jörgen hefur aldrei þakkað honum fyrir það,“ segir Schaefer og Ólafur skellihlær, enda stórmeistarinn Matke uppspunnin persóna.

„Hann flutti til Íslands af því hann er með astma, hér er lítið af frjókornum vegna trjáleysis. Hann dvaldi einnig um hríð í sólksinsríkinu Flórída, sem skiptinemi. Þess vegna halda margir af hreimnum að hann sé Bandaríkjamaður.“

Næmt auga fyrir tísku

– Hann er augljóslega mjög stoltur af uppruna sínum hann Wolfi...

„Þýska verkfræðin er sú besta í heimi,“ svarar Schaefer um hæl með Wolfi-hreim og Ólafur hlær enn. Wolfi hafi ekki ætlað sér að verða handrukkari og sé að reyna að kenna Davíð, handrukkara og aðalpersónu myndarinnar, að leysa málin án ofbeldis. „Konur laðast að honum því þær finna fyrir innri styrk hans. Hann hefur auk þess næmt auga fyrir tísku.“

Schaefer og Ólafur kynntust á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrir þremur árum, voru þar í hópi efnilegra kvikmyndagerðarmanna sem valdir voru til þátttöku í vinnubúðum. Upp úr því hófu þeir samstarf, Schaefer aðstoðaði Ólaf við að skrifa handrit að myndinni The Circle-drawers , sem enn er á undirbúningsstigi.

Schaefer framleiddi með Ólafi myndirnar Act Normal , The Amazing Truth About Queen Raquela , Stóra planið og mun einnig framleiða The Circledrawers . Í þeirri síðastnefndu segir af lægstu stétt engla sem reyna hvað þeir geta að verða mennskir en það gengur illa því stjórnkerfið er þeim til trafala, að sögn Ólafs og Schaefer. Í janúar sl. fóru fram leikprufur fyrir The Circledrawers með nokkrum leikurum úr Sopranos -þáttunum, en handritið gæti mögulega endað sem sjónvarpsþættir.

Schaefer hefur rekið kvikmyndafyrirtækið Cicala Filmworks í New York seinustu tíu ár og er leiklistarlærður auk þess að hafa lært stjórnmálafræði. Hann lék í The Amazing Truth About Queen Raquela og hafði þá verið í um níu ára hléi frá leiklistinni. Schaefer hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir kvikmyndina Confess. Ólafur er tvöfaldur Eddu-verðlaunahafi og hlaut nýverið verðlaun á Berlínarkvikmyndahátíðinni fyrir The Amazing Truth About Queen Raquela. Hvorugur hefur þó lært kvikmyndagerð.