Skodi ljóti drífur ekki upp í móti var oft sönglað hér á árum áður og sagðir brandarar á borð við: Hvers vegna hafa Skodar tvöfaldan hitara á bakrúðunni? Til þess að hægt sé að halda höndunum heitum á meðan maður ýtir bílnum.
Skodi ljóti drífur ekki upp í móti var oft sönglað hér á árum áður og sagðir brandarar á borð við: Hvers vegna hafa Skodar tvöfaldan hitara á bakrúðunni? Til þess að hægt sé að halda höndunum heitum á meðan maður ýtir bílnum. Eða: Hvernig tvöfaldar maður verðgildi Skoda? Með því að fylla tankinn. En nú er öldin önnur og Skodinn hefur heldur betur sannað sig, en hann var kosinn besti bíll ársins í svokallaðri Driver Power-könnun sem nýlega var gerð í Englandi. Þar hafði Skodinn betur en lúxusbifreiðar á borð við BMW og Mercedes. Er þetta fimmta árið í röð sem Skoda kemst í fimm efstu sæti könnunarinnar.

Saga Skoda

Það kann að þykja skrýtið en Emil Skoda, sem bifreiðin er nefnd eftir, var hvorki bílahönnuður né framleiðandi heldur tékkneskur kaupsýslumaður sem keypti vopnaverksmiðju árið 1899 og byggði hana upp þannig að hún varð ein sú stærsta á markaðnum. Þegar Hitler skipaði innrás í Tékkland var eitt af hans aðalmarkmiðum að ná yfirráðum yfir Skoda-verksmiðjunni. Var hún þegar endurnefnd í höfuðið á Hermann Göring og hóf framleiðslu á vopnavélum nasista. Þá kom Rauði herinn til sögunnar og verksmiðjan varð ríkiseign. Skoda hefur alltaf orð á sér fyrir að vera áreiðanleg bifreið en eftir erfitt ástand í Tékklandi eftir hernám Sovétríkjanna árið 1968 virtust hönnuðir bifreiðarinnar ekki færir um að koma með nýjar hugmyndir. Það var þá sem allir hinir sígildu Skoda-brandarar urðu til.

Ítalir komu til bjargar

Árið 1987 kom ítalskur hönnuður Skoda til bjargar og aðstoðaði við framleiðslu á nýju módeli, Favorit, sem stóðst vestræna mælikvarða. Eftir að kommúnisminn féll árið 1989 var ákveðið að Volkswagen myndi framleiða Skoda sem vakti ekki mikla lukku hjá eldri kynslóðinni. En hönnun fyrirtækisins og kunnátta í markaðsfræðum gaf Skoda byr undir báða vængi og ákvörðunin reyndist því rétt.

Áframhaldandi vinsældir

Í framhaldi af auglýsingaherferð í Englandi við lok áttunda áratugarins jókst sala á Skoda þar í landi til muna. Í dag er Skoda Octavia einna vinsælasti Skodinn enda hefur bifreiðin gott orð á sér fyrir áreiðanleika og hefur komið vel út úr prófunum. Var sú gerð mest seld af Skodum árið 2007 en samtals seldust af henni 237.422 bílar, sem er 18% aukning frá fyrra ári. Allt í allt jókst sala Skoda um 14,5% á síðasta ári á öllum markaðssvæðum fyrirtæksins og afhenti það samtals 630.032 farartæki til viðskiptavina á árinu. Þess má geta að Vestur-Evrópa er stærsti markaður Skoda.