FÉLAG áhugafólks um uppeldi til ábyrgðar – uppbyggingu sjálfsaga var stofnað í Álftanesskóla nú um mánaðamótin og er Jóna Benediktsdóttir formaður félagsins.
FÉLAG áhugafólks um uppeldi til ábyrgðar – uppbyggingu sjálfsaga var stofnað í Álftanesskóla nú um mánaðamótin og er Jóna Benediktsdóttir formaður félagsins.

Nafn félagsins er heiti á sérstakri uppeldisstefnu en stefnan kemur hingað til lands frá Kanada og hefur verið notuð í skólum þar, víða í Bandaríkjunum og fleiri löndum. Hún felur í sér að kenna fólki að byggja upp eigin styrk til sjálfstjórnar og sjálfsaga með það að markmiði að skapa umhyggjusamt og styðjandi samfélag. Meginmarkmið stefnunnar er að hvetja einstaklinginn til að hugsa um hvernig manneskja hann vill vera, segir í fréttatilkynningu.

Um þrjátíu skólar á Íslandi starfa nú samkvæmt þessari stefnu og hefur þeim farið fjölgandi á síðustu árum. Sveitarfélagið Álftanes hefur tekið þessa stefnu upp sem almenna stefnu í sveitarfélaginu enda er vinna samkvæmt henni alls ekki bundin við skólastofnanir þar sem hún snýst líka um almenn samskipti. Allir sem áhuga hafa á að kynna sér stefnuna eða vinna eftir henni geta gengið í félagið.