<strong>Hvati</strong> Byrjað er að greiða hvatagreiðslur vegna tómstundastarfs.
Hvati Byrjað er að greiða hvatagreiðslur vegna tómstundastarfs. — Ljósmynd/Dagný Gísladóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.
Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Reykjanesbær | „Við erum að reyna að skapa hér samfélag sem er gott fyrir alla og áherslan er á börn frá fæðingu til átján ára aldurs,“ segir Gylfi Jón Gylfason, yfirsálfræðingur hjá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Hann heldur fræðsluerindi fyrir foreldra unglinga á aldrinum fjórtán til átján ára. Fræðslan er forsenda þess að foreldrarnir fái hvatagreiðslur Reykjanesbæjar vegna æskulýðsstarfs barnanna.

Reykjanesbær hefur tekið upp hvatagreiðslur til barna og ungmenna á aldrinum sex til átján ára. Renna þær til niðurgreiðslu á viðurkenndu menningar-, íþrótta- eða tómstundastarfi. Greiddar eru 7000 krónur með hverju barni á ári og geta foreldrarnir ráðstafað styrknum á vef bæjarins, mittreykjanes.is. Þau geta ráðstafað greiðslunum til kostnaðar vegna íþróttaæfinga, tónlistarskóla og sumarnámskeiða, svo eitthvað sé nefnt. Koma þessar greiðslur til viðbótar öðrum framlögum Reykjanesbæjar til íþrótta-, tómstunda- og menningarmála.

Greiðslur fyrir elsta hópinn, 14 til 18 ára, eru skilyrtar því að foreldrarnir sæki fyrst fræðslufund um það helsta sem sem hafa ber í huga við uppeldi ungmenna. Fyrsti fundurinn var í gærkvöldi, sá næsti verður 7. apríl og síðan verða fleiri fundir haust.

Samningar við börnin

Gylfi Jón Gylfason annast fræðsluna en hann nefnir erindi sitt: „Er unglingaveiki á þínu heimili?“ Hann segir mikilvægt að seinka því að börn hefji neyslu áfengis því með því sé verið að seinka allri annarri áhættuhegðun. Það sé gott að gera með því að veita foreldrunum fræðslu og stuðning.

Hann segir að rannsóknir sýni að áfengisneysla unglinga í tíunda bekk grunnskóla hafi minnkað á síðustu áratugum, bæði í Reykjanesbæ og annars staðar. Fyrsta árið eftir grunnskóla sé hins vegar erfitt að þessu leyti og svo virðist sem foreldrarnir sleppi hendinni meira af börnunum þá. Því megi búast við að foreldrarnir séu frjálslyndari gagnvart áfengi en börnin sjálf. Við þessu megi bregðast með fræðslu.

Gylfi Jón leggur það til á námskeiðunum að foreldrarnir geri skriflega samninga við unglingana um áfengismál, til dæmis um að greiða fyrir bílprófið ef unglingarnir byrji ekki að drekka fyrir sautján ára aldur. Hann segir að margir foreldrar í Reykjanesbæ hafi raunar gert slíkt samkomulag við börnin sín og sumir meira að segja sett það skilyrði að ef börnin byrji að drekka fyrir átján ára aldur þurfi þau að endurgreiða bílprófskostnaðinn.

Gylfi Jón tekur fram að á flestum heimilum í Reykjanesbæ séu hlutirnir í góðu lagi. Þeir foreldrar fái líka sína umbun. Markmiðið með fræðslunni sé að stækka þennan hóp.