Á toppi Snæfellsjökuls var 11 stiga frost og sterkur vindur síðasta laugardag. 150 manna gönguhópur fann fyrir frostinu sem sennilega náði um 30 gráðum í verstu hviðunum.
Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

Um 150 manna hópur vaskra göngugarpa á öllum aldri kleif Snæfellsjökul síðastliðinn laugardag. Kalt var í veðri og mjög vindasamt en hópurinn lét það ekki á sig fá, enda búinn að fá góða þjálfun og fræðslu um réttan útbúnað. Fyrr í vetur boðuðu 66°Norður og Íslenskir fjallaleiðsögumenn til undirbúningsnámskeiðs fyrir göngu á þrjá jökla, Snæfellsjökul, Eyjafjallajökul og Hvannadalshnjúk, og er sá fyrsti nú að baki. „Við ákváðum að halda þetta námskeið af því að við vissum af svo mörgum sem höfðu áhuga á að fara að ganga á fjöll en höfðu sig af einhverjum ástæðum ekki í það. Viðbrögðin voru framar öllum vonum þar sem 250 manns skráðu sig á námskeiðið og þar af fóru 150 manns upp á Snæfellsjökul á laugardaginn,“ segir Helga Viðarsdóttir hjá 66°Norður, en hún hafði sjálf aldrei áður gengið upp á jökul þangað til á laugardaginn.

Fjallgöngur fyrir alla

Frá því í febrúar hefur hópurinn mætt á vikulega fræðslufundi og æfingar innanbæjar sem og göngur á minni fjöll í nágrenni höfuðborgarinnar. Jón Gauti Jónsson, leiðsögumaður hjá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum, hefur yfirumsjón með ferðunum á jöklana þrjá og hann segir það hafa komið ánægjulega á óvart hversu margir byrjendur létu slag standa og skráðu sig til leiks. „Það eru ótrúlega margir sem halda að til þess að geta gengið á fjöll þurfi maður að hafa æft íþróttir og vera í toppformi. En þannig er það alls ekki. Fjallgöngur eru fyrir alla og það skiptir engu máli þótt ekki séu allir jafnfljótir upp á toppinn. Fólk ákveður sjálft á hvaða hraða það kýs að ganga og við höfum einmitt verið að fara upp í litlum, mishröðum hópum þar sem leiðsögumaður fylgir hverjum og einum,“ segir hann.

Aðspurður segist hann lítið hafa gengið á fjöll erlendis. „Þegar maður er mikið að ganga á fjöll er maður oft spurður hvort maður sé ekki að stefna á hina og þessa tinda erlendis. En ég er voða lítið að spá í slíkt enda er meira en nóg í boði fyrir fjallafólk hér á landi og það dugar mér vel,“ segir hann.

Nístingskuldi

Ekki verður beinlínis sagt að veðrið hafi leikið við göngugarpa á Snæfellsjökli á laugardaginn. „Það var 11 stiga frost og mjög hvasst þannig að með vindkælingunni var frostið sennilega nálægt þrjátíu gráðum. En við vorum vel búin og eftir á leið mér eins og hálfgerðum ofurhuga að hafa tekist þetta,“ segir Helga að lokum.
Í hnotskurn
Þetta er í fyrsta skipti sem námskeiðið er haldið, en markmiðið með því er að gera fjallgöngur aðgengilegri fyrir þá sem taka þátt. Hópurinn hefur æft sig í kraftgöngum innanbæjar, fengið fræðslu um búnað og næringu og klifið minni fjöll á borð við Esjuna og Vífilfell.