Vítt Þéttbýlið á Egilsstöðum, Egilsstaðabúið t.v. og Lagarfljótsbrú og Egilsstaðaflugvöllur ofarlega t.v. Egilsstaðanesið t.h. frá flugstöðinni.
Vítt Þéttbýlið á Egilsstöðum, Egilsstaðabúið t.v. og Lagarfljótsbrú og Egilsstaðaflugvöllur ofarlega t.v. Egilsstaðanesið t.h. frá flugstöðinni. — Ljósmynd/Skarphéðinn G. Þórisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Egilsstaðir | Um fjögur hundruð íbúar á Fljótsdalshéraði hafa ritað nöfn sín á undirskriftalista þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að hverfa frá fyrirhugaðri skipulagningu verslunar- og þjónustulóða í landi Egilsstaðabúsins.

Egilsstaðir | Um fjögur hundruð íbúar á Fljótsdalshéraði hafa ritað nöfn sín á undirskriftalista þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að hverfa frá fyrirhugaðri skipulagningu verslunar- og þjónustulóða í landi Egilsstaðabúsins.

Bæjarstjórn ætlar að breyta aðalskipulagi sveitarfélagsins á þann hátt að tíu hektarar lands á Egilsstaðanesi, norðaustan þéttbýlisins á Egilsstöðum, verði skipulagðir undir verslun og þjónustu. Svæðið er nú skilgreint sem landbúnaðarland. Minnihluti í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs gagnrýnir þessi áform harkalega og segir þau geta orðið upphafið á því að Egilsstaðabændur bregði búi. Árangurslausar samningaviðræður hafa staðið yfir milli landeiganda og fulltrúa bæjarstjórnar. Hefur Gunnar Jónsson, bóndi á Egilsstöðum, gagnrýnt bæjarstjórn fyrir ásælni í jörð hans sem sé sterkt kennimark fyrir svæðið. Hann þurfi allt sitt jarðnæði til búrekstursins og bendir auk þess á eldra skipulag, þar sem því hafi verið heitið að ræktarland býlisins yrði ekki skert meira en orðið væri. Bæjarstjórn segir á móti að þéttbýlið verði að fá að þróast og stækka eðlilega og Egilsstaðanesið henti þar vel. Sveitarfélagið á ekki stórar lóðir fyrir einstaka umsækjendur innan fyrirhugaðs nýs miðbæjar á Egilsstöðum, sem nú er í byggingu. Staðfest er að Toyota á Íslandi hafi sótt um tveggja ha lóð á Egilsstaðanesinu og fleiri stór fyrirtæki sýna svæðinu áhuga.

Egilsstaðabúið hefur samfleytt í 119 ár verið í eigu sömu ættarinnar. Land undir þéttbýlið var tekið eignarnámi úr jörðinni árið 1947 og hún þá klofin í tvennt og landið undir Egilsstaðaflugvelli var einnig tekið úr jörðinni. Fleiri atriði en ásælni í Egilsstaðanesið eiga eftir að þrengja að Egilsstaðabændum innan ekki langs tíma, svo sem tilfærsla þjóðvegar 1 og nýtt hringtorg vegna nýs miðbæjar Egilsstaða, tilfærsla á brúarstæði Lagarfljótsbrúar og áform um lengingu Egilsstaðaflugvallar.

Í hnotskurn
» Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur í hyggju að skipuleggja land í eigu Egilsstaðabænda sem þjónustu- og verslunarsvæði.
» Minnihluti bæjarstjórnar leggst gegn þeim áformum sem og landeigandinn á Egilsstaðabýlinu sem segist þurfa á öllu sínu landi að halda.