[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sæmundur E. Valdimarsson myndhöggvari fæddist á Krossi á Barðaströnd 2. ágúst 1918. Hann andaðist á Hrafnistu í Reykjavík 13. mars síðastliðinn og var útför hans gerð frá Áskirkju 19. mars.

Elsku afi minn.

Þegar ég fæddist hafði mamma verið heima hjá ykkur ömmu að bíða. Þú varst svo spenntur að sjá fyrsta barnabarnið að þú komst hlaupandi í annarri buxnaskálminni fram þegar mamma fékk fyrstu verkina.

Ég man þegar ég kom suður, þá gekkstu úr rúmi fyrir mig og svafst í litla herberginu á Tungó. Ég man eftir að sitja í kjöltu þinni og þú sagðir mér ævintýri um Grámann í Garðshorni eða Búkollu. Seinna gaf ég þér bækurnar svo að sögurnar mundu lifa áfram en þegar ég las þær þá uppgötvaði ég hve mikið þú varst búinn að skreyta þær og setja þær í ævintýralegan ljóma. Oft bauðstu mér upp í Óla Skans, þá dönsuðum við úr stofunni og inn ganginn á Tungó og sungum hástöfum.

Þú bjóst til sófasett fyrir barbie-dúkkurnar sem ennþá er til. Ég fór með barbie á sjúkrahúsið til þín og þú gast alltaf lagað þær, það var aldrei neitt ónýtt, hvort sem þær voru mittis-, handleggs- eða hálsbrotnar. Þegar ég kom suður þá sóttir þú mig á BSÍ, keyrðir mig í bíó eða að hitta vinina / frændsystkin. Þú spurðir aldrei neins nema hvort ég væri með peninga. Ég var ung þegar ég lærði að vera með þér í þögninni.

Þér var mikið í mun að afkomendur þínir mundu kynnast heiminum og vannst á mörgum stöðum í einu til að senda börnin þín til annarra landa. Þess fékk ég líka að njóta þegar þú styrktir mig til að fara sem skiptinemi.

Úti í skúr eyddirðu seinni hluta ævi þinnar og kom ég oft til þín þangað til að vera. Mér fannst ég vera orðin of gömul til að smíða hjá þér báta og bíla, svo að þú fórst að spyrja mig álits um útlit styttanna þinna, það var mér mikils virði þar sem ég var svo stolt af þér. Þegar ég keypti mína fyrstu íbúð og var að dytta að henni, kom ég líka í skúrinn til að fá verkfæri lánuð. Þú hummaðir og sagðir mér að fara inn til ömmu og fá mér kaffi og svo stuttu seinna varstu kominn með allar græjur og sagðir: „Jæja komum þá, ég skal bara gera þetta.“ Allt átti helst að gerast í gær. Þegar ég varð eldri áttaði ég mig á því að við höfum flestöll þetta frá þér.

Þú bauðst mér með á opnanir sýninga og var mikil upphefð í því og einnig að taka þátt í þínum eigin sýningum. Þú hefðir orðið 90 ára í haust. Ég er svo glöð yfir að þú hafir kynnst börnunum mínum og þau kynnst þér. Þrátt fyrir gloppótt minni síðustu ár þekktirðu þau þegar við komum og spurðir þau út úr.

Ævi þín var ævi verkamanns þar sem draumarnir urðu að veruleika.

Takk elsku afi minn fyrir að kenna mér að allt er hægt og ekki að gefast upp þó á móti blási.

Ég ætla að enda þessa kveðju til þín eins og þú endaðir öll ævintýri fyrir mig:

Köttur úti í mýri setti upp á sig stýri úti er ævintýri.

Smjörið rann og roðið brann að segja fyrir hvern mann sem hlýða kann.

Þín dótturdóttir,

Særún.

Helsta minning okkar er afi í brúna vinnusloppnum í bílskúrnum á Tungó. Útvarpið í gangi með gömlu gufunni og afi að vinna að nýjasta listaverkinu. Þar eyddi hann löngum vinnudögum. Alltaf var spennandi að eyða tímanum með honum þar og fylgjast með honum. Hann var duglegur að aðstoða við okkar listaverk svo sem að smíða og mála báta, sverð og skildi, sem við svo tókum með heim í sveitina og lékum okkur með. Afi hugsaði líka mikið um að hjálpa þar sem með þurfti og gaf okkur ferðastyrki til að geta skoðað heiminn, því hann hafði ekki kost á því sem ungur maður. Afi var hljóðlátur en kíminn maður og var setningin: „Nei, ert þetta þú?“ vinsæl hjá honum við börnin og fékk hann alltaf skemmtileg viðbrögð við henni. Hann notaði þessa setningu áfram við barnabarnabörnin þrátt fyrir veikindin sem hrjáðu hann síðustu árin.

Þrátt fyrir að vera að týnast inn í Alzheimers-sjúkdóminn þá átti afi sína góðu og slæmu daga. Á þeim góðu voru ótrúlegustu hlutir sem afi mundi eftir og spurði um. Besta jólagjöfin í ár var þegar afi þekkti okkur og var með á hreinu hvað var á næsta leiti hjá okkur. Afi hugsaði alltaf fyrst og fremst um að amma hefði það sem best og hvað yrði um hana ef hann dæi á undan henni, nú hafa þau hist á ný og hjálpast að eins og áður.

Við munum ætíð varðveita með stolti minningar um þig, afi okkar, ekki síst í gegnum stytturnar þínar sem búa hjá okkur.

Guð sá að þú varst þreyttur

og þrótt var ekki að fá,

því setti hann þig í faðm sér

og sagði: „Dvel mér hjá“.

Harmþrungin við horfðum

þig hverfa á annan stað,

hve heitt sem við þér unnum

ei hindrað gátum það.

Hjarta, úr gulli hannað,

hætt var nú að slá

og vinnulúnar hendur

verki horfnar frá.

Guð sundur hjörtu kremur

því sanna okkur vill hann

til sín hann aðeins nemur

sinn allra besta mann.

(Þýtt Á.Kr.Þ.)

Hvíldu í friði, elsku afi okkar.

Heiðrún og Sindri.

Elsku afi minn,

nú ertu kominn á góðan stað og búinn að hitta ömmu á ný. Þið eruð eflaust orðin yfir ykkur ástfangin eins og áður, komin vestur þar sem þið nutuð ykkar vel og farin að tína skeljar og ber.

Þegar ég hugsa til baka þá eru svo ótal margar minningar um þig sem skjóta upp kollinum. Þú varst góður og umhyggjusamur afi. Mörgum stundum dvaldi ég á Tunguveginum hjá þér og ömmu. Heimsóknir í skúrinn voru ævintýri líkastar. Þar fengum við afabörnin mörg hver okkar fyrstu leiðsögn í að tálga. Ófá sverð og skip litu dagsins ljós hjá okkur um leið og við horfðum á þig skapa nýjar persónur þegar hver styttan á fætur annarri varð til. Þú varst vanur að segja að þær hefðu ekki hendur svo þær gætu ekki fiktað í neinu þegar þú værir ekki á staðnum.

Elsku afi, rekaviðarleiðangrarnir eru ógleymanlegir. Þú varst óþreytandi við að hafa okkur afabörnin með þótt við gerðum lítt gagn. Við vorum svo upptekin í leik með alla gersemarnar sem fundust í fjörunni.

Ég man einnig eftir stríðnisglampa í augum þínum þegar ég stóð á fótum þínum og við þeyttumst eftir ganginum á Tungó, dansandi og syngjandi Óla skans... Óli, Óli, Óli skans – voðalegur vargur er hún Vala konan hans.

Þú varst skilningsríkur maður, ávallt tilbúinn að stíga upp úr rúmi þínu og leyfa mér að kúra í afabóli þegar ég gisti hjá ykkur ömmu.

Eitt sumarið réðstu mig í sláttuvinnu. Ég held ég hafi aldrei slegið allt túnið sjálf því þér fannst ég of lítil miðað við sláttuvélina og varst hræddur um að ég tæki tærnar af mér, en samt stóðstu við þinn hluta samningsins.

Þegar ég var í grunnskóla fór skólinn minn í heimsókn á Kjarvalsstaði að skoða sýningu hjá þér. Ég man hvað ég var stolt þegar þú sagðist þekkja stelpuna í bleika leikfimisgallanum eins og þú orðaðir það. Þá hugsaði ég: „Þetta er sko afi minn“ og var rígmontin af þér.

Margar eru minningarnar sem koma fram í huga mér. Minningar um bátsferðir fyrir vestan, um Botn, bíltúr í Sigöldu, byggingu Naustsins og kartöflugarðaferðir. Eitt eiga þessar minningar sameiginlegt. Þar kemur skemmtilegur og góðhjartaður afi við sögu.

Þú varst orðinn mikið veikur undir það síðasta. Ég mun þó ætíð minnast þín sem afa með stríðnisglampa í augum, tilbúinn til að gera allt fyrir fjölskyldu þína.

Guð þig leiði lífs um skeið

líka eyði þrautum

alla þína ævi leið

á hans gakktu brautum

(Hildur Bjarnadóttir.)

Elsku afi. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig. Skilaðu kveðju til ömmu frá mér. Ég sakna ykkar beggja ofboðslega mikið.

Ykkar barnabarn

Edda Björk Gunnarsdóttir.