Styðjið mig ! Hillary Clinton, öldungadeildarþingmaður demókrata frá New York og forsetaframbjóðandi, flytur ræðu á kosningafundi í borginni Hammond í sambandsríkinu Indíana.
Styðjið mig ! Hillary Clinton, öldungadeildarþingmaður demókrata frá New York og forsetaframbjóðandi, flytur ræðu á kosningafundi í borginni Hammond í sambandsríkinu Indíana. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is Harkalegar deilur Baracks Obama og Hillary Clinton eru farnar að valda ugg í demókrataflokknum um að sigur í forsetakosningunum renni þeim úr greipum, John McCain verði næsti húsbóndinn í Hvíta húsinu.
Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Harkalegar deilur Baracks Obama og Hillary Clinton eru farnar að valda ugg í demókrataflokknum um að sigur í forsetakosningunum renni þeim úr greipum, John McCain verði næsti húsbóndinn í Hvíta húsinu. Vafalaust er lítil alvara á bak við tillögur um að fá Al Gore, fyrrverandi varaforseta, til að verða forsetaefni sem þorri flokksmanna gæti sætt sig við. En það segir sitt að málsmetandi fólk skuli ýja að þessari lausn sem ætti sér engin fordæmi á síðari tímum.

Ný Gallup-könnun sýnir að McCain hefur hagnast vel á innbyrðis skítkasti demókrata. Hann birtist nú mörgum landsmönnum sem hinn trausti og ábyrgi faðir sem geti sameinað fremur en sundrað. Um 67% landsmanna segjast treysta honum vel, 62% treysta hins vegar Obama og aðeins 53% Clinton. Í annarri Gallup-könnun koma fram teikn um klofning í röðum demókrata: 28% stuðningsmanna Clinton segjast fremur munu kjósa McCain en Obama verði hinn síðarnefndi forsetaefni og 19% manna Obama munu taka repúblikanann fram yfir Clinton.

Segja þeir núna. Hér skal minnt á að við svipaðar aðstæður hefur heiftin oft verið mikil innan flokkanna í prófkjörsbaráttu. En þegar forsetaframbjóðandinn er loks tilnefndur slíðra menn sverðin og sameinast á ný, margir ákaflega móðir en flestir lítt sárir. Að einu leyti stendur McCain auk þess illa, hann hefur ennþá mun minna fé til umráða í kosningabaráttu sinni en demókratar. Ríku repúblikanarnir, sem studdu Bush svo ákaft á sínum tíma, eru ekki enn búnir að taka upp pyngjuna. Óvíst er líka að uppreisnarmaðurinn McCain sé búinn að vinna hug og hjarta þeirra flokksmanna sem ávallt hafa haft andúð á honum, t.d. heittrúarmanna í suðrinu og hagsmunaafla í stórfyrirtækjum.

Óspennandi neyðarhjálp

Annað sem ekki má gleyma er áhuginn sem deilurnar vekja. Pólitíkusar eiga oft erfitt með að ná eyrum almennra Bandaríkjamanna en slagur Obama og Clinton hefur orðið til að virkja marga sem ella hefðu verið áhugalausir. Þetta gæti á endanum nýst demókrötum eftir flokksþingið í lok ágúst.

Er Al Gore ferskur og spennandi kostur? Hætt er við að þær milljónir ungra Bandaríkjamanna sem fylkja sér nú um Obama þættu illa sviknar. Gore er alræmdur betriviti og oft lýst sem hálfgerðum spýtukarli, hann hefur ávallt átt erfitt með að ná almenningshylli vestra.

„Demókratar gera alltaf þau mistök að tilnefna menn sem vita allt sem hægt er að vita um stjórnmál. Ég kynnti bæði Al Gore og John Kerry á fundum þeirra. Þeir vissu allt um stefnumálin en náðu ekki sambandi við fólk. Enginn verður forseti ef almenningi líkar ekki við hann,“ sagði Jay Rockefeller, öldungadeildarþingmaður frá Vestur-Virginíu, þegar hann kynnti Obama á fundi fyrir rúmri viku.

Átökin harðna stöðugt milli demókratanna tveggja og nýlega stundi einn liðsmanna Obama og sagði að baráttan væri farin að minna á langdregið gíslatökumál, slagurinn gæti haldið áfram í mánuð í viðbót, jafnvel sex vikur.

Clinton neitar staðfastlega að gefast upp þótt nær öruggt sé að þegar til flokksþings kemur verði keppinauturinn með fleiri fulltrúa á sínu bandi. Hún telur sig geta lagað stöðuna og hefur m.a. í huga kannanir sem gefa til kynna að hún muni hafa betur í Pennsylvaníu 22. apríl en þar eru 158 þingfulltrúar í boði. En líklegt er að henni mistakist að fá breytt ákvörðun um að fulltrúar Flórída og Michigan fái ekki atkvæðisrétt vegna brota á reglum um tímasetningu forkosninga.

„Ég hef alls ekki í huga að hætta fyrr en við höfum lokið því sem við hófum og fyrr en við sjáum hvað gerist í næstu 10 kosningum og fyrr en við finnum lausn á málum Flórída og Michigan,“ sagði Clinton í viðtali við The Washington Post á sunnudag. Obama segist sammála Clinton um að hún geti haldið baráttunni áfram eins lengi og hún vilji. „Hún er kraftmikill og ákaflega hæfur keppinautur og er augljóslega sannfærð um að hún verði besta forsetaefnið og besti forsetinn,“ sagði hann um helgina.

Haldið í vonina

Clinton gerir sér enn vonir um að nær 800 svonefndir ofurfulltrúar, frammámenn sem hafa atkvæðisrétt á flokksþingi vegna stöðu sinnar, muni að lokum snúast á sveif með reyndum stjórnmálamanni sem þeir þekkja fremur en Obama. Vandinn er að þeir vilja líka að forsetaefnið sigri í haust. Og síðustu kannanir gefa Obama 52% stuðning meðal demókrata á landsvísu, Clinton aðeins 42%. Hugmyndir eru nú uppi um að ofurfulltrúarnir haldi fund um miðjan júní og reyni þar að ná samkomulagi um að tryggja öðrum frambjóðandanum tilnefninguna. Þannig verði komist hjá því að niðurstaðan dragist fram að flokksþinginu.

Í hnotskurn
» Al Gore stendur nú á sextugu, hann hlaut í fyrra friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína gegn hlýnun loftslags og getur státað af því að hafa fengið hálfa milljón atkvæða fram yfir Bush árið 2000 þótt hann næði ekki meirihluta kjörmanna.
» Milljónir áður óbundinna hafa nú látið skrá sig sem demókrata og sums staðar hefur kjörsóknin slegið öll met.
» Sem dæmi um atburði sem hafa gert slaginn grimman er nefnt að Clinton hafi eitt sinn sagt að Obama væri „kristinn, ég veit ekki betur“. Með fyrirvaranum var hún sögð reyna að læða inn hjá kjósendum að Obama væri múslími.