Tæmt Frystigeymslurnar voru galtómar þegar að var komið.
Tæmt Frystigeymslurnar voru galtómar þegar að var komið. — Mortgunblaðið/RAX
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is LÖGREGLAN hefur hætt rannsókn á því þegar dýrmætum sýnum, einkum af fuglum, í eigu Náttúrufræðistofnunar Íslands var kastað vorið 2006. Sýnin voru varðveitt í frystigeymslu sem stofnunin hafði þá leigt í um 16 ár.
Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

LÖGREGLAN hefur hætt rannsókn á því þegar dýrmætum sýnum, einkum af fuglum, í eigu Náttúrufræðistofnunar Íslands var kastað vorið 2006. Sýnin voru varðveitt í frystigeymslu sem stofnunin hafði þá leigt í um 16 ár. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, sagði að borist hefði bréf frá lögreglunni nýlega þar sem tilkynnt var að rannsókn hefði ekki skilað neinum árangri og henni því verið hætt.

Náttúrufræðistofnun óskaði eftir því við lögregluna í Reykjavík haustið 2006, að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið, að fram færi opinber rannsókn á því hvað orðið hefði um sýni í eigu íslenska ríkisins sem varðveitt voru í frystigeymslunni. Jón Gunnar kvaðst hafa spurst fyrir um gang rannsóknarinnar nokkrum sinnum bréflega en aðeins fengið munnleg svör þar til bréfið barst um að rannsókninni væri hætt. Hann sagði að ekki hefði verið fjallað endanlega um þessa niðurstöðu innan stofnunarinnar og því óvíst um framhaldið.

„Við þurftum að vita hvað gerðist – hvað varð af þessum sýnum – áður en við gátum farið að kæra,“ sagði Jón Gunnar. „Við afhentum lögreglunni allar upplýsingar sem við höfðum, bæði um viðkomandi einstaklinga og hvernig málið hafði borið að. Það virtist ekki skila neinu og í bréfi lögreglunnar eru engar upplýsingar um rannsóknina. Það kemur mér svolítið á óvart að málið skuli vera afgreitt með þessum hætti.“

Sýnin höfðu verið í frystigeymslu sem Náttúrufræðistofnun hafði haft á leigu í um 16 ár og uppgötvaðist tjónið haustið 2006. Í klefanum voru geymd yfir tvö þúsund fuglasýni, smáhvalur og ýmis minni sýni. Meðal fugla í geymslunni voru sex hafernir, fimmtíu fálkar, sjaldgæfir flækingsfuglar og afar verðmæt sería af teistum sem safnað hafði verið um árabil. Sum sýnin voru allt að þrjátíu ára gömul og því óbætanleg.