Sigvaldi Kaldalóns útvarpsmaður „Fyrsti bíllinn minn var Benz 190C, árgerð 1965, sem var fornbíll. Ég tók bílinn eignarhaldi þar sem pabbi átti hann og var búinn að eiga hann í 17 ár.
Sigvaldi Kaldalóns

útvarpsmaður

„Fyrsti bíllinn minn var Benz 190C, árgerð 1965, sem var fornbíll. Ég tók bílinn eignarhaldi þar sem pabbi átti hann og var búinn að eiga hann í 17 ár. Ég var ægilegur töffari á þessum bíl, mér fannst hann flottasti bíll í heimi enda þótti mér líka svo vænt um hann. Þetta var risastór bíll, beinskiptur í stýrinu og handmáttlaus en ofsalega skemmtilegur bíll. Eftir um árs notkun þurfti bíllinn viðhald sem ég hafði hvorki aðstöðu né kunnáttu til þannig að hann var seldur. Ég held að pabbi hafi keypt borðstofuborð og stóla fyrir hann.

Svo keypti ég Ford Escort, árgerð 1984, sem ég var agalega lukkulegur með enda á fínum hjólkoppum með góðar græjur,“ segir Sigvaldi og viðurkennir að vera mikill bíladellukall. „Ég hef haft mikinn áhuga á bílum síðan ég var rúmlega eins árs. Þetta er djöfulsins baktería sem versnar bara og ég er sárþjáður. Það eina sem ég hef alltaf leikið með og leik mér enn að eru bílar. Ég lék mér með litla leikfangabílinn sem maður sat á fram eftir öllum aldri, þóttist vera að gera við hann og þess háttar. Ég hef aldrei átt bíl eins lengi og fyrsta bílinn sem ég keypti en hann átti ég í tvö ár. Mest keypti ég þrettán bíla eitt árið en stundum er ég rólegri og kaupi og sel um fjóra bíla á ári.“

svanhvit@24stundir.is